25.11.1981
Efri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

104. mál, sjómannalög

Stefán Guðmundsson:

Forseti. Ég skal ekki halda uppi orðaskaki um þetta, en gæti samt sitthvað um þetta sagt, bæði málsmeðferðina, sem hv. þm. Jón Sveinsson ræddi hér um að hefði verið á síðasta þingi, og hvernig hún fór fram og hvernig hún hefur raunverulega verkað gagnvart hinum staðfasta og góða sjómanni, sem ég legg höfuðáherslu á og vil tryggja sem bestan hag. Ég vil leggja mig fram um að tryggja hag þessara manna fram yfir aðra. En því miður gerist það við þá lagasetningu, sem menn eru hér að vitna til og þá sérstaklega Jón Sveinsson, að hrapalleg mistök urðu að mínu mati við setningu þeirra laga.

Ég vil ekki sætta mig við það orðalag h já hv. þm. Finni Torfa, að það sé verið að senda þetta til umsagnar til manna úti í bæ og Alþingi sé að afsala sér einhverjum völdum. Mér finnst ekkert óeðlilegt að orðið sé við óskum sjómanna sjálfra um að nefnd verði sett á laggirnar til að endurskoða þessi lög sem þeir þurfa sjálfir að þola og búa við. Það er aðeins það sem var gert. Það voru samtök sjómanna sjálfra, sem báðu um að þessi nefnd yrði sett á laggirnar til að skoða þessi lög, og ég vil taka skýrt fram að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þau séu skoðuð í heild sinni en það sé ekki alltaf verið að draga út úr þeim einhverja parta til þess meira og minna að afskræma lögin í heild sinni.