25.11.1981
Efri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

104. mál, sjómannalög

Flm:

(Finnur Torfi Stefánsson): Örstutt athugasemd, herra forseti. Ég fagna því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli lýsa áhuga sínum á að tryggja hag hins — eins og hann orðaði það — staðfasta og góða sjómanns. Ég efast ekkert um vilja hans í því máli og þá held ég að við séum farnir að nálgast allmikið í afstöðunni til þessa frv., vegna þess að þetta frv. er einmitt til þess fallið einkum og sér í lagi að efla hags hins staðfasta og góða sjómanns, þ. e. þess ágæta sjómanns sem stundar sjómennsku af fullri alvöru, starfar við það lengi og öðlast starfsreynslu. Við viljum þar af leiðandi að hann njóti góðra veikindaréttinda í samræmi við það.

En mér fannst koma fram nokkur misskilningur hjá hv. þm. varðandi þá nefnd sem um hefur verið rætt. Ég er ekki andvígur því, að settar séu á fót nefndir til að vinna að löggjafarmálefnum. Það eina, sem ég gerði athugasemd við, var að jafnvel þótt ágætar nefndir starfi má Alþingi ekki leggja niður sín löggjafarstörf á meðan.