25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

46. mál, land í þjóðareign

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) [frh]:

Herra forseti. Á. þeim skamma tíma, sem ég hafði til ráðstöfunar á síðasta fundi þessarar hv. deildar, benti ég mönnum á í fyrsta lagi, að ekki teldist sjálfgefið að það land og þau landsréttindi, sem dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu um að tilteknir aðilar, sem um það deildu, ættu hvorugur eignarréttartilkall til þess, það félli undir almannaeign. Ég benti mönnum á — og það er samdóma álit þeirra lögfræðinga sem ég leitaði til — að til þess að svo yrði þyrfti sérstök lög frá Alþingi, það gæti ekki gerst sjálfkrafa. Sú viðbára, að frv. væri þarflaust af þeim sökum., stenst því ekki, eins og væntanlega kemur í ljós þegar frv. þessu verður vísað til umsagnar m. a. lagadeildar Háskóla Íslands í þeirri meðferð sem frv. væntanlega fær í nefndum þingsins.

Í öðru lagi benti ég líka á að eftir úrskurði dómstóla í þeim þremur deilumálum, sem ég tiltók sérstaklega, þ. e. varðandi Nýjabæjarafrétt, varðandi Hellisheiði og varðandi botn Mývatns, væri mjög nauðsynlegt að ákveða — fyrst dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki. sé finnanlegur aðili í næsta nágrenni, sem geti gert kröfur til fullkominna fasteignarréttinda á þessu svæði — þá væri nauðsynlegt að tiltaka hver það sé þá sem þau lögformlegu fasteignarréttindi hafi með höndum. Slíkum málum mun fara ört fjölgandi á næstu árum ef ekki verða einhverjar rammareglur settar um þessi efni. Menn geta vissulega tekið á málunum þannig að í hvert skipti sem slík niðurstaða verður hjá dómstólum verði flutt á Alþingi sérstakt frv. um það takmarkaða landssvæði, sem um er deilt, til þess að taka þar af öll tvímæli. En ég er hræddur um að hv. Alþingi mundi þreytast á því, þegar fram í sækir, að þurfa að setja sérstök lög um hvert slíkt tilvik í staðinn fyrir að reyna að takast á við lausn vandans með setningu rammalöggjafar eins og hér er gert, og eins og þeir lögfræðingar, sem um hafa fjallað, mæla mjög eindregið með að gert sé.

Í þriðja lagi leyfi ég mér að benda á að það er engum í hag, hvorki landeigendum, almenningi í þéttbýli, ríkisvaldi né sveitarfélögum, að svo mikil óvissa ríki um það sem nú er, hvar séu mörk almannaeignar og einkaeignar. Það er öllum í hag að reyna að jafna þessar deilur og reyna að draga þessi mörk mjög skýrt, þannig að ljóst liggi fyrir hvar séu mörk almannaeignar og einkaeignar. Ég leyfi mér að vekja athygli á því, að fyrir þá, sem sérstaklega hafa andæft þessu frv., væri ekki fráleitt að leiða hugann að því, hvort ekki væri réttara að reyna að leysa slík deilumál núna, í fyrsta lagi áður en þau fara enn harðnandi — sem ella mun verða á næstu árum — og í öðru lagi á meðan t. d. fulltrúar landeigenda — og þá einkum og sér í lagi bænda — og dreifbýlisins hafa þó jafnsterka stöðu á löggjafarsamkomunni og þeir hafa í dag, en ýmsar líkur virðast benda til, m. a. vegna samþykkta stjórnmálaflokka ýmissa þar um að á næstu grösum kunni að vera breytingar sem mjög rýra áhrif þessara hópa á Alþingi Íslendinga. Ég hvet m. ö. o. mjög til þess, að menn reyni að taka höndum saman um að jafna þennan ágreining, menn reyni að taka höndum saman um að semja sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis í þessum málum. Sú sátt getur auðvitað ekki byggst á öðru en því, að glöggt sé fram tekið og glöggt sé gengið úr skugga um hvar mörkin séu á milli almannaeignar og einkaeignar.

Þá vil ég einnig í tilefni af ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar ítreka að frv., eins og það er úr garði gert, gerir ekki ráð fyrir að skerða nein réttindi sem menn — og þá sérstaklega bændur — nú þegar hafa. Frv. skerðir t. d. alls ekki beitarrétt, sem fyrir er, né heldur takmarkar hann. Og það skerðir ekki á nokkurn hátt veiðirétt manna, sem veiðirétt hafa öðlast, né heldur vatnsréttindi. Það gengur sem sé ekki á nein þau réttindi sem menn hafa í höndum í dag. Og alveg er útilokað það sem hv. þm. Steinþór Gestsson lét í veðri vaka að með samþykkt frv. væri t. d. hægt af hálfu ríkisvaldsins að krefja bændur um leigu fyrir beitarréttindi eða veiðiréttindi sem þeir vitaskuld greiða ekki nú. Bændur mundu halda réttindum sínum gjörsamlega óskertum, beitarréttindum, vatnsréttindum og öðrum slíkum réttindum sem þeir hafa nú. Það væri algjörlega útilokað, þó að frv. þetta væri samþykkt, að ríkisvaldið gæti krafið bændur eða aðra notendur slíkra réttinda um endurgjald fyrir beitarréttindi.

Nú er mér ekki kunnugt um hvort nokkur afréttur er til á landinu sem segja má að bændur hafi ekki beitarréttindi á. Mér er mjög til efs að nokkur slíkur afréttur sé finnanlegur þar sem bændur hafi ekki beitarréttindi. Ég tel að bændur hafi í sínum höndum beitarréttindi á öllum þeim svæðum á hálendi Íslands þar sem beit getur á annað borð átt sér stað. Það getur því ekki heldur gerst, þó að frv. verði samþykkt og er ekki tilgangur með frv., að á einhverjum landssvæðum á hálendinu, þar sem fé hugsanlega gæti gengið, gengju beitarréttindi til ríkisins í því skyni að ríkisvaldið gæti síðan farið að krefja bændur endurgjalds fyrir að nota þennan rétt.

Ég vil enn ítreka það til að fyrirbyggja misskilning eins og þann sem kom fram hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni og raunar hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni einnig, að eins og frá frv. er gengið er ekki með nokkrum hætti gengið á þennan rétt bænda, hvorki beitarréttindi né heldur vatnsréttindi né heldur veiðiréttindi né heldur nokkur önnur réttindi til landsafnota sem bændur hafa. Og ég vil enn ítreka það, að í frv. er ekki heldur gefið undir fótinn með að ríkisvaldið gæti á einum eða öðrum tíma farið að krefja bændur um leigu fyrir að nýta slík réttindi sem þeir þarfnast. Þetta held ég að komi mjög ljóslega fram í frv. og grg. með því. Þess vegna lít ég á þau orð, sem féllu hér fyrr í umr. um málið frá hv. þm. Steinþóri Gestssyni, og hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem hreinan misskilning. Þær ályktanir, sem þeir drógu, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson að stefnt væri að því að taka beitar- og veiðiréttindi af mönnum, sem þeirra njóta nú, og hv. þm. Steinþór Gestsson að hætta gæti verið á að menn yrðu krafðir um leigu fyrir slík afnot, þetta er hvort tveggja á algjörum misskilningi byggt. Frv. tekur af öll tvímæli um að þetta er ekki heimilt, og það er ekki heldur tilgangur flm. að heimila þetta. Ég tek enn fremur fram að mér er ekki kunnugt um hvar raunverulega liggja mörkin á milli veiðiréttar bænda t. d. á fjallavötnum og eignar ríkisvaldsins á slíkum veiðiréttindum. Án þess þó að geta frekar en aðrir þm. nokkuð um það fullyrt því að ekkert liggur fyrir um slík efni þá er mér nær að halda að hefðbundinn veiðiréttur bænda og samtaka bænda sé í nærfellt öllum fjallavötnum ef ekki öllum sem veiði er stunduð í. Þau fjallavötn og veiðivötn á hálendi Íslands, sem mundu falla undir almannaeign ef frv. þetta yrði samþykkt, yrðu því ekki mjög mörg og það yrðu ekki nein þeirra vatna sem bændur eða félög bænda eða annar félagsskapur bænda eða sveitarfélaga úti á landsbyggðinni teldi sig nú hafa veiðirétt í.

Þá er að sjálfsögðu mjög eðlilegt og nauðsynlegt, að um leið og sett er almenn rammalöggjöf, sem hefur það eina markmið að skýrt sé kveðið á um hvar mörkin eigi að vera milli einkaeignar og almenningseignar, setji ríkisvaldið einhverjar reglur í fyrsta lagi um afnota- og umgengnisrétt almennings á þeim landssvæðum, sem teljast vera eign þjóðarheildarinnar, og í öðru lagi um skyldur almennings gagnvart slíkum landssvæðum. Þetta er einnig gert í þessu frv. Í frv. er gert ráð fyrir því í 4. gr., að settar verði reglur af hálfu þeirra, sem annast um þessar eignir í nafni almennings, um réttindi almennings til umferðar og aðgangs að því landi, sem ríkisvaldið telst eiga þar eð enginn annar eigandi finnst að því, og jafnframt um þær skyldur, sem íslenskur almenningur verður að hafa í heiðri gagnvart þessari eign sinni.

Nú finnst mér líklegt — án þess að geta fullyrt mikið um það vegna þess að ekkert liggur fyrir um hvar mörkin liggi á milli almenningseignar og einkaeignar, eða hvar mörkin mundu verða dregin samkv. þessu frv. — að nær eingöngu verði um að ræða landssvæði á hálendi Íslands sem öll fasteignarréttindi féllu til almannavaldsins á, þó svo að á ýmsum öðrum landssvæðum gæti almenningur fengið takmarkaðan eignarrétt, t. d. landssvæðum á afréttum þar sem bændur eiga væði beitarréttindi og veiðiréttindi en ekki önnur fasteignarréttindi. Þau landssvæði eru talsvert mörg.

Ég fel engu að síður að flestöll þau landssvæði, sem samkv. frv. þessu yrðu úrskurðuð almannaeign, yrðu á hálendi landsins. Nú eru harla litlar líkur á því í rauninni, að slíkt landssvæði hentaði til t. d. skipulagðra orlofsbúða eða útivistarsvæða. Það yrði því næsta fátítt að þessi almenningseign yrði tekin undir orlofsbúðir. Engu að síður þótti okkur flm. frv. rétt að gera ráð fyrir því, ef sérstaklega háttaði til um einhverja tiltekna staði sem mundu falla undir almannaeign, vegna þess að enginn einstaklingur eða lögaðili gæti gert tilkall til þeirra, þá vildum við í frv. gera ríkisvaldinu kleift að nota slíka staði undir starfsemi af því tagi sem nefnt er í 3. gr., þó að almenna reglan verði sú, að land, sem yrði úrskurðað í almannaeigu samkv. samþykkt frv., yrði ekki framselt eða framleigt til einstaklinga eða félagasamtaka þannig að réttur almennings til umferðar og afnota glatist.

Þó svo að menn séu andvígir þeirri hugsun, sem fram kemur í frv., þá þýðir það ekki að menn eigi að leggja sig í framkróka um að reyna að misskilja allar tillögur sem í frv. eru fólgnar. Og ég ítreka enn að þetta frv. — þó að það sé ekki mikið að vöxtum og snerti aðeins lítinn þátt í stefnu og tillögugerð Alþfl.-manna um þjóðareign á landi — hefur fengið mjög grandgæfilega skoðun, ekki bara hjá áhugamönnum um þessi mál, heldur hjá dómurum, hjá mönnum, sem fjalla um eignaumsýslu hins opinbera, hjá mönnum, sem kenna lög við Háskóla Íslands, og hjá mönnum, sem hafa sérstaklega fjallað um ýmis vandamál sem hafa risið vegna þess hve óskýr eru mörkin á milli almannaeignar og einkaeignar. Ég vil því biðja þm. að vera ekki of fljóta á sér að dæma einstakar tillögur í frv. óalandi og óferjandi að óathuguðu eða litt athuguðu máli, einfaldlega af þeirri ástæðu, að þeir séu í hjarta sínu andvígir stefnunni sem í frv. felst. Í málflutningi margra þeirra, sem mælt hafa gegn frv., hefur mér þótt gæta tilhneigingar til slíks.

Ég get hins vegar verið mjög sammála hv. þm. Páli Péturssyni um það,.að brýna nauðsyn ber til að setja reglur um umgengni við landið, enda er gert ráð fyrir því í frv. þessu að settar verði sérstakar umgengis- og gróðurverndarreglur um það land sem fellur í hlut almennings ef frv. þetta verður samþykkt. Auðvitað er það meining okkar, sem að frv. stöndum, að svipaðar reglur séu settar um bæði almannarétt til umferðar og um skyldur almennings og gróðurvernd gagnvart öðrum landssvæðum, sem kunna þó að vera í einkaeign að einhverju leyti a. m. k.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, hv. þm., að við höfum nú þegar ráðstafað mjög miklu fjármagni úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar til landgræðslu- og uppgræðsluverkefna og gróðurverndar í landinu út frá því að landið sé sameign okkar allra og við öll höfum skyldum við það að gegna. En skyldum hljóta líka að fylgja réttindi, og þeir íbúar þéttbýlisins, sem ekki teljast vera landeigendur, en borga bróðurpartinn af þeim reikningi sem Alþingi hefur gert íslenskum skattborgurum að greiða á hverju ári vegna gróðurverndar og uppgræðslu lands, þeir hljóta að gera kröfu til þess að óðlast einhver réttindi til eigin lands á móti. Það er ekki hægt að halda því fram í öðru orðinu, þegar kemur að því að borga reikninga fyrir gróðurvernd og uppgræðslu, að þá sé landið eign okkar allra, og halda því síðan fram í hinu orðinu, þegar kemur að því að menn eiga að fá að nýta þetta land, að þá sé það allt upp í hájökla eign ákveðinna einstaklinga. Og ekki er eðlilegt að það ríki slíkur vafi um mörk almannaeignar og einstaklingseignar, að t. d. ein bújörð á Íslandi skuli — án þess að það liggi ljóst fyrir hvort hún hafi þann rétt — geta krafist þess að eiga öll fasteignarréttindi allt frá norð-austanverðu horni landsins og upp á miðjan Vatnajökul. Ekki er eðlilegt að menn geti gert slíka kröfu, allra síst ef sú krafa byggist á mjög vafasömum pappírum. Þarna þarf að fá úr skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þessi krafa sé réttmæt. Getur landeigandi í Reykjahlíð við Mývatn gert lögmæta kröfu til þess að eiga land upp að Vatnajökli, jafnvel upp á miðjan jökul, eins og sumir halda fram að krafan sé, og hversu víðtækt er þetta eignarhald viðkomandi einstaklings? Getur hann til að mynda bannað öllum öðrum landsmönnum umferð og afnot af þessu landi ef honum kemur í hug? Þá held ég að fari að færast skörin upp í bekkinn ef við getum átt von á því á næstu árum, að einhverjir tilteknir menn eða hópur manna geri kröfu til þess að vera taldir eigendur að öllum hájöklum landsins og þar með eigendur að öllu því vatni sem þaðan kemur, bæði til virkjana og almennra þarfa. Vel má vera að menn geti reist slíkar kröfur, um það veit ég ekki, en frv.. þetta fjallar um að gengið verði úr skugga um hvort: menn geti stutt þær kröfur sínar gildum gögnum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði hins vegar, og það var kjarninn í hans málflutningi, að hann væri ekki sammála þeirri hugsun sem byggi að baki frv. Hver er sú hugsun? Hún er einfaldlega sú, að eytt sé ákveðinni, réttaróvissu sem ríkir um eignarhald á landi. Hugsun frv. er sú, að við þurfum ekki að horfast í augu við það næstu áratugi, að menn viti ekki á Íslandi hvað það sé, sem einstaklingar og samtök einstaklinga geti gert tilkall til að þeir eigi á þessu landi, og hvað það séu stór landssvæði, sem almenningur sé talinn eigandi að. Hugsunin í frv. er sú, að þessari réttaróvissu verði eytt. Hv. þm. Páll Pétursson segist vera andvígur þessari meginhugsun, vera andvígur því, að þessari réttaróvissu sé eytt. Hverjum þjónar það, að óvissan um þessi efni, sem nú ríkir og hefur ríkt á umliðnum árum og m. a. orðið ýmsum framkvæmdum á okkar landi stórkostlega fjötur um fót, — hverju þjónar það, að þeirri óvissu sé við haldið og hún sé e. t. v. aukin? Ég sé raunar ekki, herra forseti, að það þjóni neinu. Það þjónar ekki almannaheill í landinu að þeirri óvissu sé við haldið, og ég fæ ekki heldur séð að það þjóni bændum. Ég fæ ekki heldur séð hvernig það getur þjónað nokkrum bónda í landinu að óvissa ríki um. hvað hann getur talið sér til eignar af því landi sem hann nytjar eða nytjar ekki. Það hlýtur að vera öllum í hag, að það liggi alveg ljóst fyrir hvar séu mörkin á milli einkaeignarréttarins og almenningseignarinnar. Það getur ekki þjónað neinum tilgangi að þar ríki mikil óvissa. Eini tilgangurinn, sem slíkt þjónar, er tilgangur eilífra deilna og sundurþykkis milli íbúa þéttbýlis og íbúa dreifbýlis í þeim efnum. Svo lengi sem óvissan ríkir verður eilíft: ósamkomulag á milli þéttbýlismanna og bænda eða annarra landeigenda, t. d. í hvert einasta skipti sem kemur að því að það þurfi að virkja vatnsfall á Íslandi eða djúphita eða standa að einhverri þeirri framkvæmd sem. varðar nýtingu lands og landsgæða.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm., að gera má ráð fyrir að það taki talsverðan tíma að ganga úr skugga um það fyrir hvert sveitarfélag í landinu og hvert hreppsfélag í landinu og hverja sýslu landsins, hvar megi draga þessi mörk milli almannaeignar og einkaeignar og hvernig þeim mörkum sé háttað, t. d., svo að við horfum frá. sjónarmiði bænda, hvar bændur hafi fullkominn fasteignarréttindi til lands, hvert beitarréttindi þeirra nái. hvert veiðiréttindi þeirra nái, hvert vatnsréttindi þeirra nái og hvar taki við full og óskoruð fasteignarréttindi almannavaldsins. Auðvitað tekur nokkurn tíma að ganga úr skugga um þetta. Það tók 20 ár í Noregi. En Norðmenn töldu það samt sem áður algera forsendu fyrir því, að þeir gætu hafið uppbyggingu raforkuiðnaðar í Noregi, að þessi könnun yrði gerð, svo að þessu óvissuatriði yrði eytt, svo að það lægi alveg ljóst fyrir, hvar á. landinu væru mörkin milli almannaeignar og einstaklingseignar og hvernig þau væru dregin hverju sinni og um. hvað eina. Áður en Norðmenn hófu hina miklu uppbyggingu síns orkuiðnaðar létu þeir framkvæma þá athugun, sem í frv. þessu er lagt til að gerð verði hér og létu enn fremur reyna á samkomulag milli ríkisvaldsins og einstaklinga, landeigenda, bænda og annarra einstaklinga um þessi atriði.

Ég vek aftur athygli á því, að meginatriðið í frv. er að þessi könnun sé gerð og að látið sé reyna á að fá samkomulag milli ríkisvaldsins og einstaklinganna, bænda og annarra, um mörk almannaeignar og einstaklingseignar. Andi frv. er alls ekki sá, að þetta verði með einhverjum hætti af mönnum tekið með ofbeldi, heldur þvert á móti að sett verði af stað könnun þar sem reynt verði að ganga úr skugga um hvernig háttað sé eignarheimildum einstaklinga til lands og landsgæða. Að lokinni könnun á því verði niðurstöður könnunarinnar birtar og mönnum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Verði menn ekki sammála, landeigendur annars vegar og ríkisvaldið hins vegar, um þessi mál, þá er það að sjálfsögðu andi frv. og tillaga þess, að reynt sé að ná samkomulagi milli þessara aðila. Náist samkomulag ekki beri hins vegar ríkisvaldinu skylda til að leita til dómstóla um úrskurð, þannig að hinn deiluaðilinn, einstaklingurinn, þurfi ekki að taka málið upp fyrir dómstólum, höfða mál til þess að verja sinn rétt, heldur verði ríkisvaldið að hafa frumkvæði að því að fá úrskurð dómstóla ef samkomulag næst ekki milli almannavaldsins og viðkomandi landeigenda.

Það var niðurstaða Norðmanna, þegar þessi könnun var gerð, að verkefnið mætti alls ekki bíða, og ég held að sú reynsla, sem við Íslendingar höfum af deilum um virkjanamál o. fl., sem rísa fyrst og fremst vegna þess, hve óljós eru mörk almenningseignar annars vegar og einkaeignar hins vegar, — ég held að þessi reynsla hljóti að færa okkur heim sanninn um það, að sú könnun, sem hér um ræðir, og afdráttarlaus skil milli almannaeignar og einkaeignar megi ekki heldur bíða á voru landi, því að það tekur mjög langan tíma að ganga frá þessum málum ef reyna á að gera það í samkomulagi. Í frv. er gert ráð fyrir að þessu verkefni verði ekki lokið fyrr en árið 1995, og sennilega þyrfti jafnvel að hafa þann tíma lengri.

Ég held, herra forseti, að það sé meira mál að reyna með þessum hætti að sætta sjónarmið aðila með því að leggja fram rammalöggjöf eins og hér er gerð till. um, þar sem meginmarkmið löggjafarinnar er að reyna að sætta þessar andstæður, miklu frekar en að taka áhættu af því að halda áfram á þeirri braut sem við erum á núna, þannig að almannavaldið þurfi að grípa til þeirra ráða sem m. a. hafa verið rædd í þessari hv. stofnun, Alþingi, að þurfa að setja sérstök lög, þurfa að beita raunverulega valdboði með lögum til þess að koma fram virkjunaráformum í almannaþágu gegn mótmælum tiltekins hóps landeigenda. Ég held að þeir, sem hafa áhuga á málstað bænda í þessu sambandi, ættu miklu frekar að leggja lóð sín á þá vogarskál að reyna að leysa þennan ágreining með þeim hætti, sem frv. leggur til, heldur en að taka þá áhættu að valdsdómur Alþingis þurfi að ganga um hvert eitt slíkt deilumál sem nú eru um Blönduvirkjun, að það sé enginn vafi á hvar séu mörk almannaeignar og einkaeignar í því tilviki, ekki bara út frá því sjónarmiði, að ríkisvaldið gæti þannig gengið á réttindi einstaklinganna, síður en svo, heldur ekki síður vegna hins, að þá fara einstaklingarnir, sem hlut eiga að máli, ekki villur vegar um hver réttindi þeirra séu og þau réttindi séu ekki frá þeim tekin.

Ég tel mig vera búinn að svara flestöllum þeim athugasemdum sem komið hafa fram frá einstökum þm. að öðru leyti en því, að það er rétt hjá hæstv. ráðh. Pálma Jónssyni, að eins og málum er nú skipað væri e. t. v. ekki æskilegt að það væri fjmrn. frekar en landbrn. sem ætti að annast umsýslu þess lands sem úrskurðaðist almannaeign samkv. frv. þessu, og léti framkvæma þá könnun sem 5. gr. gerir ráð fyrir. Ég vísa aðeins til þess, að við þm. Alþfl. höfum áður flutt þingmál þess efnis, að við teljum eðlilegt að öll fasteignarréttindi hins opinbera, hvort sem um er að ræða jarðnæði, íbúðir, lóðir, lendur eða húseignir, séu í umsjá eins og sama aðilans. Það er ekki þar með sagt, ef sú stefna nær ekki fram að ganga, að þá sé til einhverra bóta að flytja þennan þátt endilega til fjmrn. Það er rétt ábending frá hæstv. landbrh., að eins og málum er skipað í dag væri eðlilegra að eignadeild landbrn. sinnti þessum málum en eignadeild fjmrn. Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. ráðh., að það sé ekki til sérstök eignaumsýsludeild í fjmrn. og hana þyrfti að stofna ef þetta frv. yrði samþykkt. Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., því að í fjmrn. er starfandi sérstök eignadeild eins og í landbrn. sem hefur eignaumsýslu með höndum. Það er ekkert sáluhjálparatriði hjá mér, að það sé endilega eitt rn. frekar en annað sem fer með þetta mál. Ég gæti vel fallist á það, ef sú væri niðurstaða manna, að landbrn. ætti áfram að varðveita bújarðir ríkissjóðs eða eignadeild landbrn. að fara með umsýslu þeirra, og þá væri eðlilegra að eignadeild landbrn. færi með þau verkefni, sem um ræðir í 5. gr., heldur en eignadeild fjmrn. Það er algert smáatriði í þessu máli.

Ég tel mig einnig hafa vikið nú þegar að þeim athugasemdum sem komu fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Um algeran misskilning er að ræða hjá hv. þm. að í frv. sé með einhverjum hætti gert ráð fyrir að taka hlunnindaeign af mönnum eða láta menn, sem hafa slíkar eigur með höndum, vatnsréttindi, beitarréttindi, veiðiréttindi og annað slíkt, greiða gjald til ríkisins fyrir afnot slíkra réttinda. Ég ítreka það enn að ég tel að það sé vart til það landssvæði á Íslandi sem bændur eða samtök bænda hafa ekki veiðiréttindi á- og mundi frv. ekki breyta því. Hér er því um algeran misskilning hv. þm. að ræða. Um önnur atriði í máli hans hirði ég ekki að ræða.

Ég vil aðeins benda hv. þm. á að það mun ekki hafa tíðkast í Stjórnarráði Íslands, frá því að fyrrv. formaður Framsfl., Eysteinn Jónsson, var fjmrh., að halda áfram á nýju ári að innheimta tekjur frá fyrra ári þangað til jöfnuður væri fenginn á ríkisreikningi. Það hefur enginn fjmrh. gert eftir að Eysteinn Jónsson hætti. Í annan stað hlýtur hv. þm. að vita að ríkisstj. skrifar ekki út tékka ríkissjóðs. Ráðherrar sitja ekki við það. Það eru aðrir menn sem hafa þau viðfangsefni með höndum, og fæstir fjmrh. og fæstar ríkisstj. sjá nokkru sinni þessa tékka eða hafa nokkur afskipti af því, hvernig þeir eru sendir út. Ég minni hv. þm. aðeins á það, að til er ein heimild um afkomu ríkissjóðs, sem ekki verður dregin í efa, það er ríkisreikningur. Ég held að hv. þm. dragi hann vart í efa, síst ríkisreikning sem stjórn, sem hann styður, gefur út. Ríkisreikningur fyrir árið 1979 er kominn út. Þar kemur m. a. afdráttarlaust fram hver var afkoma ríkissjóðs á því ári, m. a. frá mánuði til mánaðar, og hv. þm. getur gengið úr skugga um það, ef hann kærir sig um, að hagur ríkissjóðs fór mjög batnandi síðari hluta ársins, án þess þó að sú staðreynd komi þessu máli á nokkurn hátt við. Ég býst við að ríkisbókhaldið mundi hafa vitað um ef einhverjir tékkar væru frá því ári sem ekki hefðu verið komnir fram þegar ríkisreikningur var gerður. En það atriði, eins og ég sagði áðan, kemur þessu máli hreint ekkert við og á ekkert skylt við það og er allt önnur historía en sú sem hér hefur verið skráð, þó svo að það hafi kannske eitthvað ruglast hjá þeim skráningarmönnum í Reykholti.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á því að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi málsins. Ég hef svarað öllum þeim ábendingum og athugasemdum sem hafa komið fram. Ég vil þakka þeim þm., sem hafa tekið jákvætt undir þetta mál. Ég skil ósköp vel afstöðu þeirra þm. sem eru andvígir efni þess, en ég vil skora á þm. að gefa sér tíma til að gaumgæfa einstakar till. í frv. og hafa ekki uppi fullyrðingar hér úr ræðustól, eins og menn hafa gert, sem stangast gersamlega á bæði við efni frv. og tilgang þess, eins og honum er lýst í grg. og var lýst í framsöguræðu.