25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

46. mál, land í þjóðareign

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég lofa því og heiti að vera ekki mjög langorður, enda væri það kannske að bera í bakkafullan lækinn. Mig langar hins vegar að gera að umræðuefni nokkur atriði sem hafa komið fram varðandi frv. til l. um land í þjóðareign sem þingflokkur Alþfl. flytur.

Einkum og sér í lagi vil ég gera að umræðuefni þau orð hæstv. landbrh., er hann viðhafði hér í umr. um þetta mál, að hann óskaði eftir að frv. dagaði uppi, eins og hann orðaði það á svo smekklegan hátt. Ég er sannfærður um að þjóðin mun ekki láta kröfuna til landsins síns daga uppi þótt hæstv. landbrh. óski eftir að þetta frv. dagi uppi. Það er alveg ugglaust að þjóðin mun gera kröfu til þess lands sem hún býr í. Spurningin er hvort hægt verði að komast að einhverju samkomulagi, sem gæti hæft og komið sér vel fyrir báða aðila. Þjóðin mun eignast sitt land fyrr eða síðar, en það mun ekki verða í eigu tiltölulega fámenns hóps.

Ég vil líka nota þetta tækifæri.til að þakka þm. Alþb. fyrir þann stuðning sem frá þeim hefur komið við þetta frv. Ég tel að þar sé á ferðinni mikilsverður þáttur í þeirri baráttu sem háð hefur verið fyrir þessu máli.

Vegna orða hv. síðasta ræðumanns um eignarrétt bújarða á landi langar mig að bæta því við, að menn skyldu hugleiða hvaða réttmæti felist í því, að t. d. stór jörð eins og Reykjahlið í Mývatnssveit skuli eiga skógarítak í Skaftafelli í Öræfum. Þetta er eitt af þeim dæmum sem við höfum um landeign tiltölulega fárra manna.

Herra forseti. Erindi mitt hingað í ræðustól var vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. um 4. gr. frv., þar sem fjallað er um varnir gagn ofbeit og rányrkju, ítölu og fleira af þeim toga spunnið. Ég varð nánast alveg hissa að heyra að hv. þm., sem er bóndi að atvinnu, skyldi ekki hafa meiri þekkingu á því máli, sem hann var að fjalla um, þ. e. um ítölu, því að hann fullyrðir að í lögum séu mjög skýr og greinagóð ákvæði um ítölu. Þetta er eins og hver önnur fjarstæða vegna þess að í lögum eru afskaplega ógreinileg ákvæði um ítölu, enda er ítala ekki í gildi nema á einum afrétti í landinu öllu. Það eru til lög um landgræðslu, þar sem eru mjög ógreinileg atriði um ítölu, og önnur lög sem um þennan málaflokk fjalla eru lög um afréttarmálefni, fjallskil o. fl., en þar segir m. a. í 17. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ítölu má gera í afrétti og heimalönd fyrir hellar sýslur, einstök sveitarfélög eða hreppshluta, að fullnægðum skilyrðum laga þessara, enda sé gætt að brjóta ekki í bága við lög um sauðfjárveikivarnir.“

Þetta eru raunar einu afgerandi ákvæðin sem til eru í lögum um ítölu. Það kemur mér þess vegna ákaflega á óvart að hv. þm., sem ég áðan nefndi, skyldi segja það sem hann sagði. Ákvæðið um ítöluna er mjög veigamikið af mörgum ástæðum og einkum og sér í lagi vegna þess að ítala er alger forsenda fyrir gróðurvernd í landinu og viðunandi árangri af landgræðsluaðgerðum, af gróðurnýtingu yfirleitt og búfjárbeitin fari ekki fram úr því sem beitarþol og ástand gróðurs leyfir. Þetta hljótum við allir að vera sammála um. Þess vegna er ég dálítið hissa á því, að hv. þm. skyldi agnúast út í 4. gr. þessa frv.

Mig langar að geta þess, að rannsóknir undanfarinna 25 ára hafa m. a. leitt það í ljós, að land okkar er víða ofbeitt, einkum á hálendi, en einnig sums staðar í byggð, og það er fullyrt af þeim vísindamönnum, sem gerst þekkja þessi mál, að ástand þess lands sé sums staðar orðið með þeim hætti, að gróðri verði naumast bjargað nema með mikilli fækkun búfjár og jafnvel algerri friðun lands í takmarkaðan tíma meðan gróður er að ná sér að nýju. Þess vegna er ákvæði 4. gr. um ítölu nauðsynlegt og því ber að fylgja. Það er auðvitað bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ég veit að hæstv. landbrh. er mér sammála um að það verður ekki hægt að ná verulegum árangri á þessu sviði fyrr en búið er að koma á ítölu í landið allt.

Ég vil nefna t. d. að á Grænlandi, þar sem búfé gengur á svipuðum heiðarlöndum og hér, en mun færra, er fallþungi dilka um 21 kg á meðan hann er um 14 kg hér. Það er fullyrt af hinum fróðustu mönnum, að með því að skera niður búfjárstofn landsmanna umtalsvert, eða niður í um 500 þús. fjár, væri hægt að framleiða jafnmikið dilkakjöt og gert er nú af 900 þús. fjár. Auk þess má bæta því við, að í landinu eru líklega um 50 þús. hross og ef við margföldum fjölda þeirra með fimm, eins og ekki er óeðlilegt, er það mikil viðbót á beitiland sem fyrir hendi er, þó að vísu sé þar um að ræða annað beitiland en búfé nýtir í mörgum tilvikum; nema þar sem hross ganga á hálendinu eins og dæmi eru til á nokkrum stöðum á landinu.

Það er svo sem ekkert nýtt í sambandi við umræður um þetta mál, þjóðareign á landi og landbúnaðarmálin yfirleitt, að þar gætir ákaflega mikillar íhaldssemi hjá þeim mönnum, sem þar telja sig eiga hlut að máli, og í sumum tilvikum mikillar afturhaldssemi, því miður. Af þessum sökum hefur orðið viss stöðnun. Við erum að keppast við að reyna að halda uppi framleiðslugrein í landinu, en það væri vafalítið hægt að gera með talsvert minni tilkostnaði ef tillit væri tekið til þeirra aðstæðna sem ríkja í landinu. Ég hef oft látið mér detta það í hug, þegar þessi mál hafa verið til umr., hvað menn mundu segja ef t. d. sjómenn í Vestmannaeyjum gerðu tilkall til Selvogsbanka af því að þeir hafa veitt þar lengi. Það er nú þannig í landi okkar að við eigum öll hafið, sem í kringum okkur er, og nýtum það þjóðinni allri til hagsældar. Hins vegar horfir öðruvísi við þegar komið er upp á land. Þá eru tiltölulega fáir menn sem eiga langmestan hluta landsins. Við þurfum að reyna að komast að einhverju samkomulagi fyrr en síðar um það, hvernig eign á þessu landi skuli háttað. Við höfum allt of mörg dæmi þess, að þjóðin hefur orðið fyrir alvarlegum skakkaföllum, alvarlegum fjárhagslegum áföllum, vegna þess að þessi tiltekni hópur manna hefur komið í veg fyrir eðlilegar framfarir í landinu. Mér er ekki grunlaust um að svo kunni að fara innan ekki langs tíma að þetta verði aftur upp á teningnum. Þess vegna segi ég það enn og aftur, að til þess að reyna að stuðla að því samkomulagi og þeim friði, sem verður að vera á milli þéttbýlis og dreifbýlis, verða menn að taka á þessum málum með skynsamlegu viti. Það er allri þjóðinni nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir hver á landið sem við búum í og hvernig við eigum að nýta það. Þetta held ég að mönnum sé undir niðri ljóst. Ef við viljum koma í veg fyrir umtalsverð átök í þessum málaflokki eigum við að reyna að semja. Þetta er staðföst skoðun mín. Ég held að því fyrr sem við semjum því betra.

Ég vil segja það, að íslensk þjóð mun, eins og auðvitað allar aðrar þjóðir, ekki þola það að hún eigi ekki landið, sem hún býr í, að hún hafi ekki afnotarétt af landinu, sem hún býr í, og hún hafi ekki umferðarrétt um landið, sem hún býr í. Þetta verður að breytast, þetta verður að endurskoða og samkomulagi um þessi atriði verðum við að ná.