25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

97. mál, byggðastefna

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Með frv. þessu, sem lagt er fram á þskj. 100 og flutt er af þm. Alþfl. í þessari hv. deild, er lagt til að ný vinnubrögð verði tekin upp á Alþingi varðandi mörkun byggðastefnu. Tillögur þessar eru m. a. gerðar í ljósi reynslu og nokkurrar gagnrýni sem hefur komið fram á stefnumótun í byggðamálum af hálfu stjórnvalda. Ég vil þó sérstaklega taka fram að með flutningi þessa máls og með því að taka undir ýmislegt af þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á stefnumótun og störf í byggðamálum, er síður en svo verið að gera lítið úr starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs. Það er skoðun flm., að báðar þessar stofnanir hafi unnið mikið og gott starf til að stuðla að auknu jafnvægi í byggð landsins. Tilgangurinn með þessu máli er fyrst og fremst að reyna að efla þessa starfsemi, reyna að halda þannig á málum, að hún nái betur tilgangi sínum, og reyna að sníða af ýmsa þá agnúa sem menn hafa talið að komið hafi fram á starfsemi Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar ríkisins í byggðamálum á umliðnum árum.

Þessi gagnrýni er bæði um smávægileg atriði og stórvægileg atriði. Ef litið er á nokkur atriði í þessu sambandi mætti geta þess, að það hefur sætt gagnrýni í fyrsta lagi, að Framkvæmdastofnun ríkisins hefur auk byggðastefnuhlutverksins verið ætlað frá upphafi að vera eins konar samræmingar- og eftirlitsaðili með fjárfestingarmálum í þjóðarbúskapnum, en það var gert með því að láta Framkvæmdastofnun ríkisins taka við hlutverki Framkvæmdabanka Íslands. Þegar lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins voru sett var gert ráð fyrir að stofnunin yrði öðrum þræði byggðastofnun, en að öðru leyti nokkurs konar yfirstjórn fjárfestingarmála í landinu við hliðina á Seðlabanka og í umboði ríkisstj., enda heyrir stofnunin undir forsrh. Reynslan hefur hins vegar leitt í ljós, án þess að ég sé neitt að dæma um réttmæti þess, að Framkvæmdastofnunin hefur ekki orðið sá samræmingar- og stjórnunaraðili í sambandi við fjárfestingarmál sem henni var ætlað að vera. Ýmsar hugmyndir og tilraunir, sem menn hafa gert til að styrkja þennan þátt í starfsemi Framkvæmdastofnunar, sem er að vera allsherjar samræmingar- og stjórnunaraðili í fjárfestingarmálum, hafa ekki náð fram að ganga hér á Alþingi og hafa þó oft ýmsar tillögur komið upp um það, m. a. hjá einstökum flokkum Alþingis, að auka mjög þetta stjórnunarhlutverk. Þess vegna er það raunar spurning, þegar Framkvæmdastofnun ríkisins hefur fyrst og fremst orðið byggðaþjónustustofnun, hvort samrýmist slíku hlutverki hennar að hún sé jafnframt yfirstjórnunaraðili í fjárfestingarmálum, eins og henni var ætlað. Niðurstaða okkar flm. frv. er sú, að best sé að Framkvæmdastofnun ríkisins einbeiti sér að hlutverki sínu sem byggðastofnun og hljóti þá heiti samkv. því, en með yfirstjórn fjárfestingarmálanna og verkefni Framkvæmdasjóðs verði hins vegar farið með öðrum hætti og þau verkefni fengin öðrum aðilum. Munu þm. Alþfl. síðar á þessu þingi flytja frv. sem segir fyrir um m. a. vistun Framkvæmdasjóðs og hvernig með fjárfestingarstjórnun skuli farið og önnur þau hlutverk sem Framkvæmdasjóður hefur með höndum.

Í annan stað hefur komið fram mikil gagnrýni á það skipulag í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, að auk þess að stofnunin er sett undir stjórn sem kjörin er af Alþingi og eintómir alþm. hafa kjörist til, þó að það sé síður en svo skilyrði, skuli stofnunin einnig hafa verið sett undir framkvæmdastjórn alþm. sem á sínum tíma voru ráðnir af Sjálfstfl. og Framsfl. í valdatíð þeirra. Alveg frá upphafi hefur Alþfl. verið á móti þessu fyrirkomulagi, en eins og menn muna var á sinni tíð gert ráð fyrir að forstjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins færi eftir ríkisstjórn á hverjum tíma, þannig að forstjórar stofnunarinnar væru ráðnir til svipaðs tíma og ríkisstjórn velst. Því hefur að vísu verið breytt, en niðurstaðan er engu að síður sú, að almennt er litið á hina daglegu framkvæmdastjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrst og fremst sem pólitíska stjórn, enda er hún formlega í höndum tveggja alþm., auk þess sem Alþingi kýs stofnuninni stjórn sem í sitja einnig alþm.

Við þm. Alþfl. höfum frá upphafi talið eðlilegt að um þessa ríkisstofnun færi eins og allar aðrar ríkisstofnanir, að yfir henni yrði forstjóri sem væti ráðinn sem hlutlaus embættismaður og hefði það starf fyrst og fremst með höndum, en tengsl þingmeirihluta við stjórn stofnunarinnar færu hins vegar að sjálfsögðu eftir því, hvort niðurstaðan yrði, að Alþingi kysi stjórn stofnunarinnar eða einhver annar aðili, eða hvort nokkur stjórn ætti yfir höfuð að vera á stofnuninni önnur en framkvæmdastjórinn einn.

Við teljum að þar sem eitt af verkefnum stofnunarinnar sé að taka ákvarðanir um fjárveitingar og lánsfjárfyrirgreiðslu sé ekki rétt að forstjóri einn beri ábyrgð á slíku, heldur hafi hann stjórn sér við hlið til ráðuneytis og til að deila ábyrgðinni með. Það kæmi vissulega til greina að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins væri ekki þingkjörin, heldur skipuð t. d. fulltrúum ýmissa aðila sem sérstaklega eiga hagsmuna að gæta, eins og Sambands ísl. sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, fjárfestingarlánasjóðanna, viðskiptabanka og annarra slíkra aðila. Þessi lausn kemur mjög vel til greina og til skoðunar að mati okkar flm. þessa frv., en hængurinn við þá lausn yrði líklega sá, að slík stjórn mundi fljótlega semja um einhverja prósentuskiptingu á starfsfé sjóðsins milli tiltekinna atvinnugreina og þar með yrði fjarlægst það markmið sem við flm. teljum að eigi að hafa með starfrækslu Byggðasjóðs. Í frv. leggjum við því til að stjórn sjóðsins sé áfram kjörin af Alþingi, en við erum opnir fyrir umr. um breytingar á því.

Þá hefur einnig verið gagnrýnt að Byggðasjóður hefur í reynd orðið viðbótarlánasjóður stofnlánasjóðanna án þess að reynt hafi verið að setja almennar reglur um forgang byggðaverkefna með tilliti til atvinnuástands, einangrunar eða annarra atriða sem hljóta að teljast nauðsynleg viðmiðun við mótun byggðastefnu. Þannig hefur starfsemi Byggðasjóðs fallið í mjög fastar skorður. Yfirleitt er hér um viðbótarlánveitingar að ræða til öflunar atvinnutækja. Sjóðurinn bíður gjarnan eftir því, að viðkomandi fjárfestingarlánasjóður meti umsagnirnar frá þeim sem hug hafa á öflun viðkomandi atvinnutæk ja. Hann kemur síðan til sem lánasjóður er veitir lán til kaupa á atvinnutækjum til viðbótar við þau lán sem fjárfestingarlánasjóðirnir veita.

Þó svo það sé síður en svo að lánafyrirgreiðsla Byggðasjóðs og önnur fjárhagsfyrirgreiðsla hafi einskorðast við þetta er það að okkar viti orðinn of snar þáttur í starfsemi Byggðasjóðs að vera slíkur sjálfvirkur viðbótarlánasjóður við fjárfestingarlánasjóðina. Í annan stað teljum við óæskilegt að slíkar fjárhagsráðstafanir sjóðsins séu sjálfvirkar, þ. e. að ekki sé reynt að setja einhverjar sérstakar reglur fyrir Byggðasjóð aðrar en þær sem almennir fjárfestingarlánasjóðir setja, og í þriðja lagi þurfi það ekki endilega að vera, að þorrinn af fjármagni Byggðasjóðs fari til lánveitinga til hefðbundinnar öflunar atvinnutækja. Það eru fjölmörg önnur atriði en atvinnutækin ein sem ráða úrslitum um byggðaþróun í landinu. Þar þurfa að koma til t. d. menningarmál, grunngerð, en með grunngerð er átt við gatnagerð, holræsagerð og fleira slíkt, menningarmál og félagsmál af ýmsum toga o. s. frv. Þessir málaflokkar skipta ekki síður sköpum um framþróun byggðar í landinu en atvinnutæki, auk þess sem okkur flm. þessa frv. þykir mjög óeðlilegt að viðmiðunin með starfsemi Byggðasjóðs sé fyrst og fremst sú, að dregin sé einhver markalína á landabréfi, öðrum megin línunnar starfi Byggðasjóður og taki þar jafnt til allra aðila, en hinum megin línunnar starfi sjóðurinn ekki. Viði teljum að þarna eigi raunverulega að fara eftir mati á ástandi byggða og þörfum byggða, sem geta verið mjög ólíkar. T. d. fæ ég ekki séð, svo að eitt dæmi sé tekið, — það mætti náttúrlega taka fjölmörg slík, — að sömu viðhorf í byggðamálum eigi að viðgangast t. d. á Akranesi, þar sem er mikill aðflutningur fólks, öflugt atvinnulíf og uppbygging, og gilda t. d. í norðanverðri Strandasýslu, þar sem byggð á mjög í vök að verjast. Samkv. reglum Byggðasjóðs, eins og þær eru núna, er enginn greinarmunur gerður í sambandi við lánveitingar á þessum tveimur stöðum þó svo að aðstæður í byggðamálum séu þar mjög ólíkar. Með sama hætti mætti segja, að það hafi á sínum tíma verið mjög óeðlilegt að Byggðasjóður gat ekki aðstoðað íbúa í Vogum í Reykjaneskjördæmi á sama tíma og Byggðasjóður gat aðstoðað íbúa t. d. Akureyrarsvæðisins, sem þá var í mjög mikilli uppbyggingu, þó svo að staðreyndin væri sú, að Vogar ættu í vök að verjast sem byggðarlag, bæði atvinnulega og félagslega, en uppbygging væri mjög mikil á Akureyri eins og dæmin sanna. Það er ekki rétt að skipta viðfangsefni Byggðasjóðs þannig eftir einhverjum landfræðilínum. Menn verða að reyna að setja byggðaviðmiðanir. Það hljóta auðvitað að vera viðmiðanir sem taka mið af þróun atvinnutekna, af atvinnuástandi í viðkomandi landshluta eða byggðarlagi, af því, hvort um einangrun sé að ræða, félagslega og samgöngulega, t. d. varðandi ástand símamála, af ástandi í félags- og menningarmálum o. s. frv.

Þá er mjög mikill galli að lítið samband hefur verið á milli áætlunargerðar í byggðamálum annars vegar og fjármögnunar slíkra áætlana hins vegar. Fjölmargar tillögur hafa t. d. verið samþykktar hér á Alþingi um áætlunargerðir fyrir einstaka landshluta og einstök byggðarlög sem Framkvæmdastofnun hefur verið falið að gera. Alþingi hefur hins vegar algjörlega vanrækt, um leið og það hefur samþykkt þáltill. um að slíkar áætlanir skuli gerðar t. d. fyrir tilsettan tíma, að útvega fjármagn til að hægt sé að hrinda þeim áætlunum í framkvæmd. Þetta hefur orðið til þess, að Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur bæði að eigin frumkvæði og að frumkvæði fengnu héðan frá Alþingi gert mjög verulegar áætlanir um framkvæmdir í byggðamálum án þess að hægt hafi verið að hrinda þeim áætlunum í framkvæmd því að fjármagn hefur ekki verið útvegað til þess og engar fjármagnsskuldbindingar hafa fylgt áætlunargerðinni.

Eitt síðasta dæmið um þetta er t. d. áætlun um Dalabyggð sem gerð var á sínum tíma í Framkvæmdastofnun ríkisins. Íbúar í Dalabyggð bundu miklar vonir við þessa áætlunargerð og höfðu með einhverjum hætti — ég skal ekki segja hvers vegna — öðlast þann skilning á áætlunargerðinni, að hér væri ekki aðeins um samningu verklýsingarplaggs að ræða, heldur væri gert ráð fyrir að aðstoða þá við að framkvæma byggðaverkefni í anda áætlunarinnar. Sóttu þeir m. a. til Framkvæmdastofnunar ríkisins um slíkt. Það kom þessum mönnum hins vegar gersamlega á óvart þegar þeir uppgötvuðu, eftir að áætlunin hafði verið gerð og fram lögð í samráði við þá, að ekkert fjármagn var til að vinna verk samkv. umræddri áætlun. Þannig má raunverulega segja, án þess að nokkur hafi það viljandi gert, hvorki í Framkvæmdastofnun né annars staðar, að þetta fólk, sem hlut átti að máli, hafi verið blekki. A. m. k. stóð það í þeirri trú, að það væri ekki aðeins verið að semja einhverja áætlun á pappírnum, heldur ætti að standa að framkvæmdum einnig. En svo var ekki.

Auðvitað er mjög óæskilegt að það sé verið að afgreiða áætlanir af þessu tagi, þar sem verið er að gefa mönnum ádrátt um tilteknar framkvæmdir, án þess að jafnframt sé séð fyrir fjármagni til slíkra framkvæmda. Áður fyrr tíðkaðist það mjög, að þm. voru stöðugt að flytja á Alþingi tillögur um brúargerðir og vegabætur hér og þar án þess að nokkurt samræmi væri milli slíkra tillögugerða og fjármagnsútvegunar til framkvæmda. Þetta breyttist þá fyrst þegar vegáætlun og afgreiðsla hennar komst í núverandi horf. Þá voru í einu slengi, eins og hæstv. forseti þessarar deildar mundi orða það, annars vegar afgreidd framkvæmdaáformin og hins vegar fjármögnunin til framkvæmdanna, þannig að héldust í hendur áætlanagerðin annars vegar og hugmyndir alþm. um viðfangsefni og hins vegar fjármögnun til slíkra viðfangsefna. Eftir að sú afgreiðsla komst á slíkan fastan grundvöll féll það alveg niður hér í þinginu að menn væru sýknt og heilagt að flytja tillögur um ýmsar framkvæmdir í vegamálum, sem ekkert fjármagn væri útvegað til.

Eitt meginatriðið í frv. þessu er einmitt að reyna að skapa tengsl á milli áætlunarverkefnanna annars vegar og fjármögnunar þessara verkefna hins vegar. Er lagt til í frv. að þetta sé gert með svipuðum hætti og á sér stað með afgreiðslu vegáætlunar, þ .e. að Alþingi marki byggðastefnu. Það hugtak hefur ekki verið skýrt fyrr en tilraun er gerð til þess í frv. þessu. Er þó hvergi nærri að sú tilraun sé nógu afdráttarlaus, en þó er tilraun gerð til að skilgreina hvað byggðastefna er, að byggðastefna sé mörkuð af Alþingi — ekki í almennum orðum, heldur með afgreiðslu á sérstakri samþykkt um byggðastefnu sem feli í sér ákveðna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára eða tveggja ára í senn, sé endurskoðuð á tveggja ára fresti, og jafnhliða áætluninni um framkvæmdir í byggðamálum útvegi Alþingi fé til framkvæmdanna með sama hætti og Alþingi gerir þegar Alþingi afgreiðir framkvæmdaáætlun í vegamálum.

Nú er mér auðvitað ljóst og okkur öllum flm. þessa frv., að það er ekki hægt alfarið að jafna saman framkvæmdaáætlun í byggðamálum annars vegar og framkvæmdaáætlun í vegamálum hins vegar. Þegar við ræðum um framkvæmdir í vegamálum er verið að tala um tiltekin, afmörkuð verkefni sem hægt er að gera nákvæmar áæt(anir um og lýsa mjög nákvæmlega í framkvæmdaáætluninni. Þá eru menn að ræða um tilteknar brúarbyggingar, um tiltekna slitlagsgerð, um tiltekna vegagerð o. s. frv. Þetta er ekki hægt nema að nokkru leyti varðandi byggðamál. Í byggðamálum hljóta ávallt að koma upp fjölmörg verkefni sem ekki er hægt að áætla nákvæmlega við afgreiðslu Alþingis. Til dæmis getur komið upp skyndilegur atvinnubrestur á einhverjum stað úti á landsbyggðinni sem þarf nauðsynlega að bregðast við. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera nákvæmar áætlanir um slík viðbrögð fyrir fram, áður en vitað er að slíkt áfall eða slíkur atvinnubrestur verði. Þá eru einnig fjölmörg viðfangsefni Byggðasjóðs og í byggðamálum, ekki síst á sviði félags- og menningarmála, sem eru þannig vaxin að það er útilokað að gera um þau fyrir fram framkvæmdaáætlanir, þar sem í senn sé verkefninu lýst nákvæmlega og áætlað nákvæmlega hvernig eigi að fjármagna viðkomandi viðfangsefni. Fjölmargar áætlanir í byggðamálum má hins vegar gera með miklum fyrirvara. Þar má t. d. nefna framkvæmdaáætlanir, eins og t. d. Vestfjarðaáætlun var á sínum tíma, þegar byggðir voru vegir, lagðir voru flugvellir og reistar hafnir með sérstöku átaki sem fé var útvegað til með sérstökum hætti. Af öðrum áætlunum, sem má vinna fyrir fram með þessum hætti, má t. d. nefna Hólsfjallaáætlun, Inn-Djúpsáætlun, áætlun um sérstakar framkvæmdir í Árneshreppi og fjölmargar byggðaáætlanir af því tagi.

Vegna þess að hér er raunverulega um að ræða tvo þætti viðfangsefna, annars vegar gerð byggðaáætlana, sem hægt er að ákveða fyrir fram og lýsa nokkuð ljóslega, og hins vegar flokk viðfangsefna sem ekki verða séðir fyrir, þá er lagt til í frv. þessu að við gerð byggðaáætlunarinnar skuli henni skipt í tvo höfuðþætti.

Í fyrsta lagi er raðað tilteknum viðfangsefnum og framkvæmdum samkv. fyrirframgerðum áætlunum sem fé er veitt til í því skyni að efla atvinnulíf, styrkja búsetu, auka þjónustu, efla menningarlíf o. s. frv. Dæmi um slíkar framkvæmdir eru þær landshlutaáætlanir og byggðaþróunaráætlanir sem ég nefndi áðan.

Annar höfuðþáttur byggðaáætlunarinnar væri hins vegar flokkar viðfangsefna og eðli fjárhagsfyrirgreiðslu, svo sem þegar bregðast þarf við skyndilegum og ófyrirsjáanlegum atvinnubresti eða öðrum erfiðleikum, og er þá stjórn Byggðastofnunar ríkisins ætlað að taka ákvarðanir um einstök viðfangsefni innan þeirra ramma sem Alþingi markar.

Eitt markverðasta nýmælið í frv. kemur fram í 3. gr. þess, en eins og ég sagði áðan hefur það ekki aðeins verið ljóður á starfsemi Byggðasjóðs, að hann hefur verið almennur viðbótarlánasjóður fjárfestingarlánasjóðanna til öflunar atvinnutækja og lítið getað sinnt öðrum viðfangsefnum, heldur ekki síður hitt, að ekki hafa verið settar raunverulegar byggðaviðmiðanir til að reyna að raða viðfangsefnum Byggðasjóðs í einhverja forgangsröð út frá viðmiðunum um stöðu byggðar í landinu. Í 3. gr. er gerð tilraun til þess — og ég ítreka, herra forseti, að þar er gerð tilraun til að reyna að setja einhverjar slíkar byggðaviðmiðanir. Auðvitað eru þessar tillögur ekki fullnaðarsmíð, þeim má breyta og þær má laga. En einhverja tilraun verða menn að gera til að setja Byggðasjóði og Byggðastofnun einhverjar byggðaviðmiðanir aðrar en að sjóðurinn starfi sem almennur viðbótarlánasjóður fjárfestingarlánasjóðanna.

Hvaða viðfangsefni, hvaða viðmiðanir eru það sem gerð er tillaga um að setja Byggðasjóði til að raða viðfangsefnum hans í forgangsröð? Það er að sjálfsögðu í fyrsta lagi að mið sé tekið af því, hver hefur verið raunveruleg byggðaþróun á svæðinu. Er um að ræða fólksfjölgun þar, er um að ræða fólksfækkun — eða er um að ræða svipaða fólksfjölgun og landsmeðaltal gefur til kynna. Auðvitað verða menn, ef þeir ætla að marka raunhæfa byggðastefnu, að setja sér slíka viðmiðun um byggðaþróun á viðkomandi stað.

Í öðru lagi er gert tillaga um að annar viðmiðunarþáttur verði hvort árstíðabundið eða varanlegt atvinnuleysi sé á svæðinu.

Í þriðja lagi skal hafa að viðmiðun hvort félagsleg aðbúð fólks, svo sem í menntamálum, heilbrigðismálum o. fl., samrýmist kröfum í lögum og reglugerðum eða sé lakari en almennt gerist á landinu. Sé svo eiga slíkir staðir að sjálfsögðu að fá sérstakan forgang um aðstoð úr Byggðasjóði sem ég legg áherslu á enn og aftur að ekki á að einskorða við öflun atvinnutækja eina saman.

Fjórða viðmiðunin, sem tillaga er gerð um í 3. gr., er að horft sé á hvort umtalsverðum samskiptaörðugleikum sé fyrir að fara umfram það sem almennt gerist í viðkomandi byggðarlagi, t. d. hvort um sé að ræða samgöngulega einangrun, hvort um sé að ræða óviðunandi símaþjónustu eða annað sambandsleysi við umheiminn og nálæg byggðarlög.

Í fimmta lagi er lagt til, að það skuli hafa sem almenna viðmiðun um forgangsröðun verkefna að líta á aðrar aðstæður, svo sem lágar atvinnutekjur fólks eða annað það sem getur talist óæskilegt og óeðlilegt og valdið því, að byggðin sé talin vera í hættu.

Ég ítreka enn, herra forseti, að hér er aðeins lögð fram tillaga um viðmiðanir í þessu sambandi. Hér er síður en svo af okkar hálfu verið að leggja fram einhverja fullnaðarsmíð. En ég held að menn verði að reyna að hafa einhverjar svona viðmiðanir um forgangsviðfangsefni Byggðasjóðs ef menn ætla Byggðasjóði að vera annað og meira en raunverulegur viðbótarlánasjóður fjárfestingarlánasjóðanna, sem starfi meira og minna eftir sjálfvirkum reglum og mismuni ekki byggðum eftir byggðaástandi á hverjum stað. Lykilhlutverk Byggðasjóðs hlýtur náttúrlega eðli málsins samkvæmt að vera að mismuna byggðum. Til þess er hann settur á fót að mismuna byggðum, að lyfta undir með þeim, sem eiga á brattann að sækja, til þess að jafna aðstöðu fólks til búsetu í landinu.

Um II. kafla, III. kafla og IV. kafla í frv. þessu þarf raunar ekkert að segja. Greinarnar þar skýra sig sjálfar. Hefur þegar verið getið um þau atriði þeirra sem eitthvað eru frábrugðin ríkjandi lögum.

Um Byggðasjóð er það helst nýmæli, að í 14. gr. frv. er einu atriði bætt við sem tekjustofni til Byggðasjóðs auk eigna Byggðasjóðs og framlags úr ríkissjóði eins og það kann að vera ákveðið hverju sinni. Það er raunar þannig sem Byggðasjóður er farinn að starfa því hin sjálfvirku framlög úr ríkissjóði hafa ekki verið í gildi um margra ára skeið, heldur er raunar ákveðið núna og hefur verið á umliðnum árum við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni hvert þetta framlag skal vera. Er eins gott að viðurkenna að svo sé og að vera að halda í lögum einhverju sjálfvirku ákvæði sem aldrei er fylgt. En 3. tölul. í 14. gr. er nýmæli. Þar leggjum við flm. til að hluti af tekjum Byggðasjóðs verði m. a. tekjur af orkusölu til orkufreks iðnaðar og af slíkri iðnaðarframleiðslu eins og hann kann að vera ákveðinn hverju sinni í sérstökum lögum og samningi. Hvers vegna þessi tillaga er gerð er mjög auðsætt. Hér er um að ræða nýtingu á auðlindum, eins og orku fallvatna og jarðhita, sem þjóðin á öll. Það er auðvitað jafnréttisstefna að þjóðinni allri gefist kostur á að njóta góðs af nýtingu slíkra náttúruauðlinda, en ekki bara þeim einum sem búa í næsta nágrenni við viðkomandi virkjun eða stóriðju. Þess vegna leggjum við til að einhverjum hluta af tekjum af slíkri starfsemi, eins og um semst hverju sinni, verði varið til viðfangsefna Byggðasjóðs, til að styrkja byggð í fjarlægari landshlutum sem ekki eiga neinn móguleika á að njóta góðs af slíkum stórframkvæmdum.

Þá eru einnig í 16. gr. tekin af öll tvímæli um hvernig almennri fjárhagsfyrirgreiðslu Byggðasjóðs geti verið háttað: þar geti verið um að ræða beina styrki eða óafturkræf framlög, þar geti verið um að ræða vaxtalausar lánveitingar, en þó verðtryggðar, og þar geti verið um að ræða almennar lánveitingar sem ávallt eiga að vera verðtryggðar, eins og segir í frv. M. ö. o. er ekki gert ráð fyrir í þessu frv. að búin verði til einhvers konar gervilánagreiðsla úr Byggðasjóði þar sem verið er að veita fjármagn undir heitinu lán, en er í raun og veru niðurgreidd lán því vextirnir eru miklu lægri en nemur því að menn greiði til baka í jafnverðmætum krónum það fé sem þeir fengu að láni.

Vissulega geta mörg byggðaviðfangsefni verið þannig vaxin, að þau bera ekki eðlilegar lánveitingar, heldur verður að styrkja þau og er rétt að styrkja þau með beinum framlögum, þá á að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Það á ekki að kalla slík framlög lán, heldur það, sem þau raunverulega eru, styrki, og veita styrkina umbúðalaust og án þess að reynt sé að láta í veðri vaka að um sé að ræða eitthvað annað en styrkveitingar eða greiðslu beinna framlaga.

Um lánveitingarnar, sem ýmist geta verið vaxtalausar eða almennar, er hins vegar það að segja, að samkv. frv. er ávallt gert ráð fyrir að lánveitingarnar séu verðtryggðar þannig að þó um vaxtalausar lánveitingar sé að ræða greiði menn ávallt til baka jafnverðmæta fjármuni og þeir fengu að láni. Þannig er skilið alfarið á milli annars vegar styrkveitinga úr Byggðasjóði og hins vegar lánveitinga og hlutirnir kallaðir sínu rétta nafni.

Herra forseti. Í grg. með frv. þessu er bæði einstökum greinum frv. og tilgangi þess lýst mjög ítarlega, jafnframt því sem lögð er fram byggðastefna Alþfl. eins og hún er afgreidd í stefnuskrá flokksins og lýst í nokkrum orðum þróun byggðamála og byggðastefnu bæði á Norðurlöndum og hér á landi. Ég tel því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. nú við 1. umr. þessa máls, en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.