25.11.1981
Neðri deild: 15. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

97. mál, byggðastefna

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er hreyft af þm. Alþfl., er allrar athygli vert og nauðsynlegt að þingið gefi sér góðan tíma til að ræða um það. Það er því miður eftir skammur tími af fundartíma hv. deildar nú þannig að ekki gefst kostur á að ræða málið rækilega að sinni, enda er kannske ekki þörf á að setja á mjög langar ræður um málið. Málið er á marga lund nokkuð ljóst og hefur raunar áður verið rætt hér á hv. Alþingi rækilega af ýmsu tilefni, þegar Framkvæmdastofnunin hefur komið við sögu varðandi ýmiss konar vandamál sem komið hafa upp í byggðum landsins á undanförnum mánuðum, og er þá skemmst að minnast svokallaðs Þórshafnarmáls sem var rætt hér mjög rækilega á s. l. vetri, þar sem einkenni Framkvæmdastofnunarinnar í sambandi við mál af þessum toga komu mjög skýrt í ljós og voru mjög rædd hér á þinginu. En ég held að við þurfum, jafnframt því sem við veltum fyrir okkur stöðu Framkvæmdastofnunarinnar og afstöðu til ýmissa einstakra vandamála, að átta okkur á þessu máli í breiðara samhengi og gera okkur ljóst hvaða þörf það var, sem knúði á sínum tíma á um myndun Framkvæmdastofnunarinnar, og hvaða forsendur það voru, sem þá var miðað við.

Eins og kunnugt er var það svo um margra ára skeið, að meginumræður hér á Alþingi — ég man t. d. vel eftir því frá árunum 1964–1966 þegar ég var hér þingfréttamaður — væru um byggðastefnu og mótun hennar og það voru settar á langar ræður um þau mál og þetta var oft og tíðum eitt heitasta deilumál þingfundanna. Ég man eftir að menn voru með umr. um þetta mál, byggðastefnu og mótun hennar, aftur og aftur. Ég held að í rauninni hafi fyrst og fremst verið verulegur áherslumunur hjá mönnum í þeim efnum frekar en að menn vildu taka af skarið um að einstakar byggðir ættu að lifa og þar af leiðandi aðrar að hverfa. Niðurstaðan af þessari umr. allri, sem stóð hér í þinginu í tíð viðreisnarstjórnarinnar svokölluðu, varð að nokkru leyti sú, að þessi stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, varð til. Þar átti að taka á byggðamálunum sérstaklega. Auðvitað hefur það síðan verið gert í Framkvæmdastofnuninni með ýmsum hætti, en þó verðum við líka að hafa það í huga, að byggðamál hafa verið til meðferðar hér á hv. Alþingi aftur og aftur við afgreiðslu fjárlaga, fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og vegáætlunar. Í störfum ríkisstjórna á hverjum tíma koma byggðamál og mjög við sögu. En með þeim ákvörðunum, sem urðu til fyrir 10–12 árum eða svo var í raun og veru tekið af skarið um hvaða byggðir það væru í landinu sem ætti að efla til sjálfsbjargar þannig að þær gætu tryggt íbúum sínum sem bærilegust lífskjör og sem líkust því og gerist þar sem skást var í landinu á þeim tíma, þ. e. að því er talið var í þéttbýlinu, en þar var álitið að væru nokkru hærri tekjur að jafnaði á þeim tíma á mann en t. d. úti á landi.

Þessi byggðastefna, sem menn hafa síðan rætt talsvert um, hefur verið í framkvæmd með ýmsum hætti. Menn hafa gagnrýnt hana oft og tíðum. Menn hafa gagnrýnt þegar veitt hafa verið lán í ýmsa þætti. Sum eru þannig, að það er borin von að viðkomandi byggðarlög geti staðið undir þeim lánum. Einnig hafa verið veitt lán til verkefna sem mjög hafa verið umdeild. Eru nefnd dæmi um efnalaug og rakarastofu. Ég kann ekki listann yfir lánveitingar Framkvæmdastofnunarinnar á undanförnum árum, en iðulega hefur það orðið þannig, að þessi stofnun hefur lent mjög á milli tannanna á fólki fyrir einstakar athafnir af þessum toga.

Hitt er svo ljóst, sem vakin hefur verið athygli á hér á hv. Alþingi, að lánveitingar Framkvæmdastofnunarinnar hafa verið fyrir opnum tjöldum þannig að skýrslur hafa greint frá hverjir það eru sem hafa fengið þessi lán á hverjum tíma. Er það í rauninni til fyrirmyndar. Ég er þeirrar skoðunar, að viðskiptabankarnir í landinu ættu að veita upplýsingar um alla sína stærri lántaka í skýrslum sem gefnar eru út um starfsemi viðskiptabankanna á ári hverju. Minnist ég þess, að flutt var um slíkt till. hér á hv. Alþingi árið 1978-79, að viðskiptabankarnir yrðu að gefa upplýsingar um sína stærstu viðskiptamenn. Sú till. var felld, ef ég man rétt, á þeim tíma, og ég tel út af fyrir sig ekki líklegt að hún ætti auðveldara uppdráttar núna, því miður. En birting á lánveitingum af hálfu Framkvæmdastofnunar hefur út af fyrir sig verið af hinu góða.

Nú liggur fyrir og hefur legið fyrir um alilangt skeið hvaða byggðir það eru sem menn vilja aðallega efla til sjálfsbjargar og bættrar félagslegrar þjónustu í landinu. Virðist vera nokkur samstaða um það. Þá finnst mér að þar sé komið í raun og veru að öðrum þætti í þessu máli og spurningin er, hvort ekki eru möguleikar á að mynda nægilega góða samstöðu hér á hv. Alþingi og annars staðar um þennan nýja áfanga, sem ég hef kallað með sjálfum mér jafnréttisáætlun byggðanna, þ. e. þeirra byggða sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um með ýmsum ákvörðunum á undanförnum árum að skuli vera til og tryggja sínum íbúum sem besta félagslega þjónustu. Ég held að þessi jafnréttisáætlun byggðanna eigi að taka til miklu fleiri þátta en atvinnumálanna, eins og hv. 3. þm. Vestf. reyndar nefndi í sinni ræðu. Þar mættu koma til fjölmörg önnur atriði en atvinnumálin. Þó að þau séu auðvitað grundvallarþáttur í byggðunum verður að taka tillit til margvíslegrar félagslegrar þjónustu sem óhjákvæmilegt er að tryggja í byggðunum. Þar má nefna margt: þjónustu í heilbrigðismálum, þjónustu í menntamálum, og þar má nefna málaflokka eins og vegamál og símamál og fleira þess háttar.

Ég held að það sé tími til kominn að við breikkum dálítið stefnugrundvöllinn fyrir ákvörðunum í þessum efnum og reynum að tryggja að hér verði litið á málin frá víðara sjónarhorni en hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum. Ég held einnig að inn í þessi mál ættu að koma miklu ríkara en verið hefur þættir eins og t. d. landbúnaðurinn s álfur, hvernig best verður að honum staðið í landinu. Ég held að það sé ómögulegt að framkvæma neitt sem heita má byggðastefna öðruvísi en að landbúnaðurinn sé tekinn þar með og til sérstakrar athugunar, en með landbúnaðinn hefur þetta verið þannig, eins og hv. þm. vita, að það hefur verið til eitthvert kerfi hér sem hefur verið kallað framleiðslukerfi landbúnaðarins og gengur með býsna sjálfstæðum hætti og næsta kostulegt að það hefur í rauninni ekki tekist að aðlaga það sem skyldi öðrum markmiðum hér í þjóðlífinu á hverjum tíma.

Ég tel sem sagt að hér ættum við að reyna að kanna hvort möguleikar eru á að móta það sem kalla má jafnréttisáætlun byggðanna eða einhverju öðru nafni eftir atvikum. Þessar áætlanir mætti gera til langs tíma, eins og hér hefur verið bent á, og þá taka tillit til margra þátta. Við erum auðvitað á hverju þingi að taka mjög stórar ákvarðanir í byggðamálum. Það snertir auðvitað ekki síst t. d. fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina, hvernig hún er úr garði gerð. Það snertir auðvitað ríkissjóð, hvaða áherslu hann leggúr hér og þar í sínum framkvæmdum og þjónustu. Ekki má gleyma í þessum efnum Vegasjóði og vegáætlun. Ég nefni í þessum efnum hafnaáætlun, sem hér er sýnd á ári hverju. Og ég vil einnig nefna hér mjög stóran aðila í þjóðfélaginu sem á að hafa visst jöfnunarhlutverk, en það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Þannig held ég að það þurfi að fella þessa þætti og fleiri saman í eina heild sem stefnir að því marki að tryggja það sem kalla má jafnréttisáætlun byggðanna.

Við skulum segja að slík þjónustustofnun héti Byggðastofnun, eins og hér er lagt til, eða einhverju öðru nafni, en auðvitað verður að gæta þess, að þær áætlanir, sem þar eru gerðar, séu ekki svo stífar á hverjum tíma að þær taki ekkert tillit til þess, að mannlífið er nú einu sinni þannig að það eru alltaf af og til að koma upp alls konar vandamál sem verður að taka á. Það er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að til sé stofnun af einhverjum toga til að glíma við uppákallandi vandamál. Þó að menn séu ákveðnir í því að reyna að framkvæma áætlanir miklu betur en við höfum gert á undanförnum árum, því margt af þessu hafa verið lítils nýtir óskalistar satt best að segja, — þó að við viljum framkvæma þetta öðruvísi þýðir það ekki að það eigi að reyra allt alveg rígfast þannig að það sé ekkert tillit hægt að taka til þeirra vandamála sem upp koma á hverjum tíma.

Þá vil ég taka það fram almennt um þessar áætlanir og jafnréttisáætlun byggðanna, að það á auðvitað ekki, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat um áðan, eingöngu að horfa á landfræðileg takmörk. Það er margt annað sem á að taka tillit til. Í 3. gr. þess frv., sem hér er á dagskrá, eru nefnd mörg atriði sem þarf að taka tillit til. Það má nefna mörg fleiri. Það má orða þau öðruvísi en þarna er gert. En ég held að það sé ekki aðalatriðið, heldur hitt, að því sé slegið föstu að við gerð þessara áætlana hafi menn sýn til allra átta, en séu ekki að einskorða sig við tiltölulega þröngt sjónarhorn, annaðhvort einn einstakan málaflokk ellegar þrönga hagsmuni á hverjum stað og hverjum tíma.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að taka þarna tillit t. d. til atvinnutekna og atvinnuástands í viðkomandi byggðarlagi. Ég minni á að atvinnutekjur á mann hér í höfuðborginni eru tiltölulega lágar orðnar nú miðað við aðra staði á landinu. En sem betur fer hefur það verið að gerast á undanförnum árum, að ýmsir staðir úti á landi hafa verið að eflast mjög verulega í atvinnulegum efnum, mjög myndarlega. Það átti sér auðvitað stað meginbreyting á árunum 1971–74, eftir að svokölluð viðreisnarstjórn féll frá völdum og lögð var mikil áhersla á að efla byggðirnar í landinu. En sú staðreynd, sem þá var tekist á við, horfir nú við með þeim hætti að ég tel að það sé þörf á að móta hér nýjan áfanga, taka á málinu með nýjum hætti út frá almennum jafnréttissjónarmiðum byggðanna í landinu.

Iðulega hefur verið rætt um það á hv. Alþingi, og skal ég nú láta máli mínu senn lokið, að það væri óeðlilegt hvernig til hefði tekist í sambandi við skipan forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins þar sem þar væru tveir alþm. eða hefðu verið nú um nokkurt skeið. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að lýsa þeirri skoðun minni, sem ég hef áður látið koma fram hér, að ég tel þetta vera óeðlilegt fyrirkomulag. Ég vildi gjarnan að þessu fyrirkomulagi yrði breytt þannig að það giltu þarna mjög svipaðar reglur og gilda um bankastjóra. Það er úr sögunni að þeir séu á Alþingi. Ég bið þá menn að taka ekki orð mín þannig, að ég sé sérstaklega að veitast að þeim mönnum sem þessi störf hafa nú, þ. e. hæstv. forseta deildarinnar og hæstv. viðskrh., heldur er ég með það í huga almennt, að það sé óeðlilegt að alþm. gegni trúnaðarstörfum af þessu tagi. Auðvitað hefur það oft gerst á undanförnum árum, að það hefur verið þrengt mjög að alþm. og ætlast til að þeir hefðu í raun og veru miklu minna svigrúm en allir aðrir menn til starfa úti í þjóðfélaginu. En ég held að hér sé um að ræða mál sem er alveg sérstakt og þess vegna ætti að ákveða það, annaðhvort með samkomulagi milli flokkanna eða með lögum eftir atvikum, að alþm. gegni ekki forstjórastörfum við Framkvæmdastofnun ríkisins, en hana nefni ég undir þessum dagskrárlið vegna þess að óneitanlega snertir þetta frv. Framkvæmdastofnun ríkisins og starfsemi hennar.

Herra forseti. Ég sé að fundartíma er lokið þannig að ég lýk máli mínu. Ég endurtek, að ég tel nauðsynlegt að um þetta mál sé hér rækilega fjallað. Mætti margt fleira um það segja, en tími leyfir það ekki að sinni.