26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil færa fyrirspyrjanda þakkir fyrir að flytja þetta mál hér inn í þingið og eins ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur gefið. Það er vitað um jafnmikið mannvirki og Vesturlína er, að sjálfsögðu er hætt við að bilanir komi fram einhvers staðar þar sem veðurhæð er víða mjög mikil á þeim svæðum sem hún liggur um. Hins vegar er rétt að athuga ýmsa þætti í þessu máli.

Það er talað um að hönnunarforsendur hafi verið þær sömu og áður og fullnægjandi gagnvart byggðalínum almennt. Það má vel vera. En að dómi þeirra, sem búa í nágrenni við þessa línu, hefði verið skynsamlegt að hafa krossun á staurunum á þó nokkrum svæðum til þess að tryggja að þeir legðust ekki á hliðina. Hitt er þó verra ef satt er — og það er almannarómur, að það hafi verið staðið að því að setja staurana niður eins og menn standa að því að gróðursetja tré, þ. e. jarðvegurinn, sem kom upp úr holunni, hafi fyrst og fremst verið notaður til að þétta með staurunum í stað þess að nota þar púkk, grjót, eins og algengara er nú til að festa staurana, og ástæðan fyrir þessu hafi verið sú, að upp hafi verið tekið ákvæðiskerfi, þetta hafi verið unnið í ákvæðisvinnu. Ég vil mjög gjarna að það verði sérstaklega rannsakað, hvort svo er, því að þá er þarna um vinnusvik að ræða. Þætti mér vænt um ef ráðh. gæti gefið svar við því nú þegar, hvort svo er, að þetta verk hafi verið unnið í ákvæðisvinnu og e. t. v. megi til þess rekja hluta af þeim göllum sem í ljós hafa komið.