19.10.1981
Neðri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 18 um breytingu á lögum nr. 80 frá 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta frv. er raunar óbreytt eins og það var flutt hér fyrir réttu ári og einasta hafa verið gerðar minni háttar breytingar á grg. með því.

Það, sem hér er um að ræða, er að lagt er til að þessum nærfellt 40 ára gömlu lögum sé breytt í þá veru að það er tekið upp orðið „starfsgreinafélag“, sem mjög var notað á þingum Alþýðusambands Íslands fyrir 20 árum þegar tillögur í þessa veru voru þar til umræðu. Hér er lagt til að þegar vinnustaðir eru yfir ákveðinni stærð, og hér er miðað við 25 eða fleiri fastráðna launamenn, fari samningar um kaup og kjör þannig fram, að það sé myndað félag á vinnustaðnum og það semji síðan beint við sína vinnuveitendur.

Þetta er í raun og veru einasta breytingin sem lögð er til. Á hinn bóginn er auðvitað ekkert sem segir að smærri vinnustaðir geti ekki farið eins að ef þeir svo kjósa. Raunar eru sérstök ákvæði þar um og eins hitt, að fleiri en einn vinnustaður, skyldir eða óskyldir, geta auðvitað bundist höndum saman um það og gert bandalög til samninga, en slík bandalög voru einmitt uppistaðan í þeim tillögum sem samþykktar voru á nokkrum þingum Alþýðusambands Íslands í kringum 1960. Það má því segja að eini munurinn á þessum tillögum um lagaform, eins og þær hér eru kynntar, og þeim tillögum, sem svo mikla umfjötlun fengu á þingum Alþýðusambands Íslands á þeim árum sem nefnd hafa verið, sé sá, að heimildin hér er víðari. Það er hins vegar ekkert sem segir að framkvæmdin mundi ekki vera alveg eins og þá var lagt til, allt eftir því hvað starfsfólk á einstökum vinnustað kýs í þessum efnum. Má raunar segja, og á það var bent í umr. fyrir réttu ári og allnokkrum umr. sem fóru fram hér á Alþingi og víðar raunar þegar þessar hugmyndir komu fram, að orðið „starfsgreinafélag“ kunni að vera nokkuð misvísandi þegar það er notað eins og það er notað hér, um starfsfólk sem vinnur á sama vinnustað, óháð því hvaða starf það innir af hendi. En þessu orði er haldið og fyrir því er gerð allrækileg grein í grg. vegna þess að Alþýðusambandið notaði það í sínum 20 ára gömlu tillögum.

Í raun og veru er kannske veigamesta spurningin, sem rís í sambandi við frv. af þessu tagi, hvort það sé yfir höfuð Alþingis að setja lög um hvernig háttað skuli samningum um kaup og kjör. Þau sjónarmið hafa heyrst, einkum hjá forkólfum í verkalýðshreyfingunni, að þessi efni eigi að vera frjáls og Alþingi eigi engin slík afskipti að hafa og þar með eigin slík lög að setja. En þá er því til að svara, að sá rammi, sem er utan um samninga um kaup og kjör á Íslandi, er lagarammi. Um þetta voru sett lög á árinu 1938 og það meira að segja lög sem í þá tíð voru mjög umdeild. Þessi saga er allnákvæmlega rakin hér í grg., að þá voru það fyrst og fremst þeir sem höfðu forustu í Alþfl. sem slík lög vildu setja og töldu að það tryggði hagsmuni verkalýðsstéttarinnar betur. En það voru einkum menn, sem þá voru í kommúnistaflokki, sem var við það að verða sósíalistaflokkur, og málgagn þeirra, Þjóðviljinn, sem börðust gegn þessum lögum á þeim forsendum að lög sett á Alþingi um það, hvernig háttað væri samningum um kaup og kjör, væru alltaf og ævinlega af hinu illa.

Þó að ekki sé þörf á því að rifja þær umræður frekar upp, en í því skyni skal aðeins vísað til grg., er hitt ljóst, að þessi grundvöllur var ákveðinn með lagasetningu á sínum tíma og það eru lög í landinu sem heimila eitt og annað, en reisa á hinn bóginn skorður við einu og öðru. Til að mynda er eitt, sem lögin frá 1938 reisa skorður við, það, að vinnustaðurinn sem slíkur, starfsfólkið á vinnustaðnum, geti samið um kaup og kjör þó svo hver einasti starfsmaður svo kjósi. Dæmi um þetta eru stóriðjuverin tvö, t. a. m. Straumsvík. Það, sem ég þykist hafa ráðið af fundum sem ég sótti einmitt um þetta mál, er að fyrirkomulagið, sem frv. mælir um, sé vel séð og þyki tryggja hag fólks betur. Vegna þess, hvernig lögin frá 1938 eru úr garði gerð, þó þetta sé svona í raun, er þó eiginlega farið framhjá þessu með formlegum hætti. Það heitir svo, að um samningana sjái fulltrúar — ég held einna 16 félaga í þessum efnum. Eins mun farið á Grundartanga, þar er í raun samið samkv. þessu kerfi, en formlega með fjölmörgum verkalýðsfélögum til þess að ekki sé gengið á skjön við lögin eins og þau standa.

Á þetta er minnst aðeins til að undirstrika rækilega að það eru til lög í landinu — lög sem áreiðanlega voru mikil réttarbót á sinni tíð og lög sem heimila sumt, en lög sem reisa skorður, sem banna annað, svo að af sjálfu leiðir að í raun og veru er ekki hægt að koma slíku fyrirkomulagi á. Jafnvel þó að við hefðum einhver tæki til að kanna, að fyrir því væri dúndrandi vilji launafólks í landinu, er það ekki hægt öðruvísi en að breyta lögum. Ég er þeirrar skoðunar, að umræður eða deilur um hvort frumkvæði um breytingar af þessu tagi, ef gerðar eru, komi frá Alþingi eða komi frá — segjum: þingi Alþýðusambands Íslands eða einhverju svipuðu þingi séu í raun della um keisarans skegg og það skipti hinn almenna launamann nákvæmlega engu máli hvar slíkar breytingar eru gerðar. Það, sem skiptir máli er: Vill hann, þ. e. hinn almenni launamaður, að slíkar breytingar séu gerðar? Telur hann að slíkt þjóni hagsmunum sínum? Ef hann telur svo og ef við hefðum tæki til þess að kanna slíkt skiptir það auðvitað nákvæmlega engu máli og er aðeins umræðuvettvangur nánast fyrir fræðimenn, hvort það er Alþingi eða t. d. stéttarþing sem hefur frumkvæði að breytingunum sem slíkum.

Í raun og veru er sú breyting, sem hér er verið að leggja til, sáraeinföld. Á það er lögð rækileg áhersla í grg., að talan 25, sem hér er miðað við, styðst út af fyrir sig ekki við beina fræðilega könnun. Eitt af því, sem sú nefnd, sem þetta mál fær til umr., þyrfti að kanna rækilega og þá með upplýsingum sem munu liggja fyrir eða hægt er að nálgast með lítilli fyrirhöfn hjá Kjararannsóknarnefnd, er hvað þetta tæki í raun til margra vinnustaða. Við getum haft slíkt á tilfinningunni, en slík fræðileg könnun liggur ekki fyrir, og síðan má spyrja: Er þetta rétt tala? Ætti hún að vera lægri? Ætti hún að vera hærri? Og eins er hitt: Ef að lögum verður má hugsa sér framkvæmd á frv. sem þessu slíka að það yrði látið taka gildi í áföngum. Fyrst í stað næði það til stærstu vinnustaða og þar sem miðað væri við hærri tölu launafólks, en færi síðan lækkandi stig af stigi á einhverju árabili.

Aftast í grg., sem þessu frv. fylgir, eru tínd til nokkur rök sem eiga að skjóta stoðum undir röksemdir fyrir þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til. Þá er ekki síst að þeir, sem mikla þekkingu og mikil afskipti hafa haft af samningamálum, eru sammála um það, og fyrir því eru hér færðar tilvitnanir, að svona kerfi leiði innan fyrirtækja til meiri launajafnaðar en hefur tekist að ná fram með hinum fjölmörgu félögum, hreinlega af þeirri ástæðu, að þegar fólk semur saman innan fyrirtækis gleyma menn ekki sínum minnstu bræðrum í launalegum skilningi, eins og menn hafa því miður haft tilhneigingu til í því samningakerfi sem hér hefur ríkt. Svo má fastlega gera ráð fyrir því, að ef fólk, sem ynni í fyrirtækjunum sjálfum, semdi saman um kaup og kjör, þá óháð því hvort það er að þvo gangana, afgreiða í mötuneytinu, vinna á skrifstofunum eða hvaða önnur störf sem fólk leysir af hendi, þá væri auðveldara að vekja áhuga fólks á rekstri sjálfs fyrirtækisins og þar með koma á raunverulegu atvinnulýðræði eins og það getur best gerst. Þetta tvennt, launajafnaðarstefna og atvinnulýðræði, er af hinu góða. Ég hygg að fullyrða megi að báðir þessir þættir, sem sá sem hér stendur telur vera af hinu góða, ættu auðveldara uppdráttar, það yrði auðveldara að koma slíku í gagnið við það fyrirkomulag sem hér er verið að lýsa.

Í sumar og um nokkurt skeið hefur farið fram umræða um hvort lýðræði í verkalýðshreyfingunni sé svo gott sem það gæti verið. Sem dæmi hafa verið nefnd verkalýðsfélög og þá stór verkalýðsfélög t. d. hér á suðvesturhorninu. Það hefur verið sagt að þar fari fram kjör með listum þar sem menn þurfi að leggja fram stuðningsmannalista, trúnaðarmannalista og lista til óskyldra embætta. Dæmi hefur t. d. verið tekið af Verslunarmannafélagi Reykjavíkur þar sem eru á ellefta þúsund fétagsmenn, en það er auðvitað stórt og voldugt félag, starfssvæði þess náð raunar nokkuð út fyrir Reykjavík, en það hefur verið tekið dæmi af því, að í slíku félagi þarf hátt á þriðja hundrað manns til þess að ná fram löglegu framboði. Það hefur einnig verið sagt og ég hygg með nokkrum rétti, að þetta fyrirkomulag hafi búið til forustusveif í verkalýðshreyfingunni sem í raun og veru eigi hagsmuni að verja, t. d. aðsetur á skrifstofum, þokkaleg launakjör og annað slíkt, eins og gengur í mannheimum, sem á í raun og veru ekkert skylt hins vegar við launafólkið sjálft, fólkið í félögunum og hagsmuni þess. Því er á þetta minnst hér, að ég hygg að það sé ekki úr vegi að álykta sem svo, að að hluta til sé það þetta fólk, þetta forustufólk sem situr í gullvarinni stöðu, sem er hins vegar ákaflega íhaldssamt á öll skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar af þeirri einföldu og kannske mannlegu ástæðu, að það telur að með öllum breytingum sé stöðu sinni ógnað. Ég óttast að sú sé ein af ástæðunum fyrir því, að tómlega er tekið hugmyndum, sem mér t. d. finnst vera nokkuð sjálfsagðar hugmyndir, um að vinnustaðurinn, a. m. k. stærri vinnustaðir, verði í vaxandi mæli samningseiningar þegar samið er um kaup og kjör. Mér þykir sem svo, af því að hafa t. d. setið allmarga fundi þar sem þetta hefur verið kynnt, að almennt launafólk mundi taka slíkum breytingum nokkuð vel, en hins vegar njóti hugmyndir af þessu tagi allmiklu minni stuðnings í forystu launþegafélaganna.

Ég varpa því fram, hvort verið geti að í raun og veru sé forustufólk í launþegahreyfingunni íhaldssamt á efni eins og þau sem hér er mælt fyrir, það séu ekki hagsmunir launafólksins eða hreyfingarinnar í heild sinni sem þar skipti máli, heldur hagsmunir sem Guðmundur J. Guðmundsson, raunar í ívitnaðri klausu í þessari grg., kallar smákóngapólitík. Ég hugsa að oft hafi verið mælt vitlausari orð. Ef svo er, ef hægt er að leiða að því gild rök, jafnvel svo að ekki verði á móti mælt, að í launþegahreyfingunni sitji forustusveit og að hluti af henni sé íhaldssamur á skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar, kannske fyrst og fremst og frekar af persónulegum hagsmunaástæðum en köldu mati á því, hvað komi launamanninum best, hygg ég að þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni sé ekki aðeins rétt; heldur skylt af Alþingi að grípa inn í og það hafi til þess í raun og veru fullan rétt, því að spyrja má: Hverjir kjósa alþm.? Eigum við ekki að ætla að það sé að langstærstum hluta launafólk vegna þess að það er stærsti hópurinn í þjóðfélaginu? Einnig af þeirri ástæðu fæ ég ekki séð að Alþingi háfi ekki rétt til þess að breyta lögum eins og þeim sem hér er verið að leggja til að breyta.

En kjarni málsins er þessi: Í þessu frv. til laga eru lagðar til í raun og veru breytingar á lögum sem í gildi hafa verið síðan 1938. Það er því ekki verið að leggja til lagaleiðina á öðru sviði en því sem lagaleiðin hefur verið farin um áratugaskeið. Það má færa að því rök, að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er beinlínis, eins og segir í fyrirsögn laganna, gert ráð fyrir stéttarfélögum, m. ö. o.: að maður, sem tilheyrir starfsstétt, sé þá í félagi. Það þýðir að rafvirkjar séu sér í félagi, verkamenn séu sér í félagi, skrifstofufólk sé sér í félagi o. s. frv. Meginhugsunin í þeim breytingum, sem hér er verið að leggja til, er að stéttarfélög í þessum skilningi séu orðin úrelt og a. m. k. svo komið að í stærri félögum stuðli það beinlínis að stéttamismun og óbreyttu ástandi sem ekki sé eftirsóknarvert. Það má taka um þetta svo mörg dæmi að ég sé enga ástæðu til þess, í fyrirtæki eftir fyrirtæki, að t. d. það fólk, sem afgreiðir í mötuneytum, sé sér í félagi og búi við mun bágari kjör en aðrir þeir sem í fyrirtækinu vinna, en þetta er alþekkt í mörgum fyrirtækjum, þar væri miklu heilbrigðara og eðlilegra að slíkt fólk væri í félagi vinnustaðarins. Þetta tel ég vera jafnréttisrök sem að þessari hugmynd hníga.

Ég vek svo að lokum athygli á því, að gert er ráð fyrir að lögin taki gildi um næstu áramót. Þau eru óbreytt frá því sem var í fyrra. Gildistímanum má auðvitað breyta og jafnvel svo að slíkar lagabreytingar taki gildi í áföngum, sem ég tel að oft geti verið skynsamleg leið.

Ég vil svo segja að lokum að það hefur stundum verið sagt, og var sagt oft í ítarlegum umræðum sem um þetta frv. urðu fyrir réttu ári, að hér væri ekki um nákvæmlega sömu tillögur að ræða og reifaðar voru á þingi Alþýðusambands Íslands fyrir 20 árum og í nefnd sem þær tillögur samdi og í áttu sæti Eðvarð Sigurðsson, Eggert G. Þorsteinsson, Jón Sigurðsson, Tryggvi Helgason, Snorri Jónsson og Óskar Hallgrímsson. Þetta er alveg rétt. En munurinn er hins vegar ekki eins mikill og menn hafa viljað láta í veðri vaka. Það, sem þeir gerðu ráð fyrir, voru starfsgreinafélög og bandalög slíkra félaga. Í þessu frv. er gert ráð fyrir nákvæmlega því sama, nema það er ekki gert ráð fyrir að félögum sé skylt að mynda þessi bandalög. Ef starfsmenn, segjum í blaðaheiminum, ef starfsmenn á Morgunblaðinu, sem að vísu er nokkuð stórt fyrirtæki í starfsmönnum talið, vildu hafa sitt félag og vildu semja sérstaklega, þá væru allir í félaginu, prentararnir, blaðamennirnir, skrifstofufólkið, ræstingarfólkið og aðrir þeir sem við fyrirtækið vinna, og ef þeir telja sínum hagsmunum best borgið með því að þeir semji sem félag beint við vinnuveitendur, þá tel ég að slíkan rétt eigi ekki að taka af þeim. Ef hins vegar er samkomulag um það að öll blöðin í Reykjavík og öll útgáfustarfsemi með öðrum hætti myndi breitt bandalag margra vinnustaða, þá yrði sú leið farin. Það er í ákvörðunarvaldi hvers vinnustaðar fyrir sig hvort hann fer þessa leið eða einhverja aðra, svo að útkoman gæti m. ö. o. verið nákvæmlega sú sem rædd var á Alþýðusambandsþingum í kringum 1960, en hins vegar hefði fólk á einstökum vinnustað leyfi til að sem ja sér, ef það telur að hagsmunum sínum sé svo best borgið. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu, að þetta frv. gengur að vísu töluvert lengra í þeim skilningi, að það veitir fólki á vinnustöðunum rétt til að taka ákvarðanir eitt og sér, ef það svo kýs, en það er ekkert í þessu sem kemur í veg fyrir að hægt sé að fara þá leið vinnustaðabandalaga sem ASÍ lagði til á sínum tíma.

Vegna þess að ég minntist hér á starfsmannafélag Morgunblaðsins var mér sagt, og ég held að ég fari áreiðanlega rétt með það, að starfsmenn þess blaðs hafi á sínum tíma kannað möguleika á því að stofna slíkt félag, bara lagalega, og niðurstaðan orðið sú, sem þeir auðvitað vissu fyrir, að það væri ekki hægt vegna ákvæða í lögunum eins og þau standa. Vegna þess að um þetta er talað og spurt hver eigi að beita úrskurðarvaldi, stéttarfélagsþingið eða Alþingi, þó ekki væri nema af þeirri einu ástæðu að menn geta ekki stofnað þau félög sem þeir vilja stofna, þá mundi það réttlæta afskipti Alþingis. Ég nefni svo enn sem dæmi, að hér hefur á allmörgum þingum, og raunar alllangt síðan það var samið, legið fyrir lagafrv., sem þau þing sem ég hef setið hefur verið flutt af hv. þm. Pétri Sigurðssyni, um hlutfallskosningar í verkalýðsfélögum. Það tel ég fyrir mitt leyti vera sjálfsagt réttlætismál. En þá verður uppi þessi sami ágreiningur: Er það réttur Alþingis eða á Alþingi yfirleitt að skipta sér af slíkum efnum? Mitt svar við þeirri meginspurningu er einfaldlega já. Það getur ekki aðeins verið og er ekki aðeins réttur, heldur getur það beinlínis verið skylda Alþingis að skipta sér af slíkum — ég tala nú ekki um ef þær grunsemdir eru uppi að verkalýðsforusta gangi ekki erinda umbjóðenda sinna af hagsmunaástæðum, en það tel ég því miður að sé mikill kjarni þessa máls.