26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

78. mál, viðaukatillaga við vegáætlun

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í samræmi við það fyrirheit, sem ég gaf á síðasta þingi, hefur í sumar verið unnin ítarleg undirbúningsvinna að framkvæmdum á þeim þrem vegum sem nefndir hafa verið Ó-vegir eða lífshættulegir vegir þ. e. Ólafsvíkurenni, Óshlíð og Ólafsfjarðarmúla. Til þess starfs hefur m. a. verið fenginn erlendur sérfræðingur. Ég fékk í mínar hendur niðurstöður Vegagerðarinnar um fyrst og fremst tvo fyrst nefnda vegi, þ. e: Ólafsvíkurenni og Óshlíð, en einnig áfangaskýrslu um Ólafsfjarðarmúla nú fyrir um það bil viku. Ég lagði án tafar fram í ríkisstj. tillögu um viðauka við vegáætlun þar sem gert var ráð fyrir að í þær framkvæmdir verði ráðist, þ. e. byrjunarframkvæmdir við Ólafsvíkurenni og Óshlíð og jafnframt nokkurt fjármagn veitt til nauðsynlegra rannsókna á Ólafsfjarðarmúla.

Ástæðan fyrir því, að síðast talda verkefnið er skemmra á veg komið, er náttúrlega sú, að það er langsamlega stærst. Þar er um ýmis jarðgöng að ræða. Það eru jarðgöng í öllum tilfellum við Ólafsfjarðarmúlann, en þau koma til greina misjafnlega löng og ekki hægt að taka endanlega ákvörðun um það á þessu stigi þótt Vegagerðin sé með eina lausn þar efst í huga.

Um hin verkefnin er það að segja, að Vegagerðin hefur skoðað fimm mismunandi lausnir á Ólafsvíkurennisvegi. Ein er sú að byggja þekju yfir veginn sem nú er, önnur er að setja göng framhjá, þriðja er að breikka núverandi veg og lagfæra hann, fjórða er að fara fyrir aftan múlann og fimmta er að byggja nýjan veg niðri í fjöru. Mælir Vegagerðin með síðast talinni leið. Hún er ekki sú ódýrasta en ekki heldur sú dýrasta, en það mun vera niðurstaða sérfræðinga, að hún sé hyggilegust.

Um Óshlíðina er það að segja, að þar hefur Vegagerðin m. a. athugað um göng, en þó lagt megináherslu á að skoða vegþekju og aðrar framkvæmdir, fyrst og fremst breikkun vegarins. Norskur sérfræðingur á þessu sviði starfaði hér á landi nokkurn tíma í sumar, skilaði í haust fróðlegri skýrslu og leggur til að megináhersla verði lögð á breikkun vegarins, verulega breikkun og þá með skurði fyrir ofan veginn sem verður frá 5 til 10 metra breiður og taki við grjóthruni. Hins vegar mælir sérfræðingurinn með þekju á einum stað skilyrðislaust, en til vara þekju á tveim til þrem öðrum. En segja má að meginverkið sé hins vegar veruleg breikkun vegarins.

Inn í þetta koma ýmsir aðrir þættir, eins og viðvörunarkerfi vegna snjóflóða og fleira þess háttar sem ég ætla ekki að fara hér út í.

Ég endurtek að strax að fengnum þessum niðurstöðum hef ég lagt til við ríkisstj. að slík viðaukatillaga verði flutt. Það mál er nú til meðferðar hjá ríkisstj. og stjórnarflokkum.