26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

105. mál, virkjun Blöndu

Fyrirspyrjandi (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 108 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til iðnrh. um virkjun Blöndu. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að taka þessa fsp. fram fyrir á dagskránni, sem helgast af því að þetta er síðasti dagur minn á þingi, að sinni a. m. k. Fsp. er stutt og einföld og hljóðar svo:

„Hvað líður ákvörðun um virkjun Blöndu?“

Tilefni þessarar fsp. ætti að vera öllum ljóst, því að í landinu hefur staðið um alllanga hríð mikil umræða um orkumál. Er mál flestra að það sé orðið afar brýnt að tekin verði ákvörðun um næsta stórvirki í virkjunarmálum, og sennilega er það flestra mat, að dregist hafi óþarflega lengi hjá hæstv. ríkisstj. að taka ákvörðun í þessu máli og marka þar stefnu.

Fyrir liggur niðurstaða Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins um að sá kostur, sem hagkvæmast og skynsamlegast sé að taka fyrst fyrir af þeim ágætu virkjunarvalkostum sem við höfum í landinu, sé Blanda. Um það eru allir sérfróðir menn sammála, að Blanda er sá virkjunarkostur sem hagkvæmast og réttast er fyrir þjóðina alla að taka fyrst. Þá liggur einnig fyrir það álit sömu aðila, að Blanda þurfi að vera komin í gagnið eigi síðar en 1986. Þannig er ljóst að framkvæmdir við þessa virkjun þurfa að hefjast sem fyrst á næsta ári.

Því hefur verið haldið fram, m. a. af hæstv. iðnrh., að andstaða meðal heimamanna hefði staðið í vegi fyrir þessu máli og tafið ákvarðanatekt. Þetta er a. m. k. að hluta til á nokkrum misskilningi byggt. Staðreyndin er auðvitað sú, að allur almenningur, bæði í Skagafirði og Húnavatnssýslum, er þessari virkjun ákaflega fylgjandi og telur hana vera mikið framfaraspor bæði fyrir sín héruð og ekki siður landið allt. Hins vegar er það rétt, að hjá hluta landeigenda á þessu svæði hefur gætt nokkurrar tregðu, sem er að sjálfsögðu skiljanleg þar sem þeir eiga töluverðra hagsmuna að gæta þarna. Nú hafa staðið yfir alllengi samningar við landeigendur um skaðabætur fyrir hugsanlegt tjón, sem þeir yrðu fyrir, og önnur tilhögunarmálefni varðandi virkjunarframkvæmdir. Samningar þessir hafa gengið mjög vel, enda hafa menn staðið nokkurn veginn heils hugar að samningsgerðinni. Nú er svo komið, að síðsumars í sumar var tilbúið samningsuppkast sem menn virtust allir geta sætt sig við. En það, sem strandar á og hefur valdið því, að ekki er hægt að ganga endanlega frá þessu samningsuppkasti, er sú staðreynd, að ríkisstj. hefur ekki enn þá markað sér stefnu í málinu. Menn vita ekki enn hvort ríkisstj. muni fara út í virkjunarframkvæmdir við Blöndu eða hvenær það mundi hugsanlega gert. Það er ekki hægt að ætlast til þess með nokkurri sanngirni, að heimamenn geti gengið frá slíkum samningum án þess að þeir viti fullkomlega vissu sína hvað varðar fyrirætlanir ríkisstj. Ríkisstj. á því næsta leik í málinu og er ákaflega brýnt að hún taki af skarið. Ég vonast því til að hæstv. iðnrh. veiti hér við skýr og jákvæð svör.