19.10.1981
Neðri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það kemur mér nú nokkuð á óvart að enginn af þeim forustumönnum verkalýðsfélaga, sem sæti eiga á hinu háa Alþingi, skuli taka til máls um þetta mál. Mér kom ekki annað til hugar en einhver þeirra mundi kveðja sér hljóðs og sé nú raunar að einn hefur gert það, hv. þm. Pétur Sigurðsson. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umr., a. m. k. ekki fyrr en ég hefði heyrt á þeim hvað þeir hefðu til málanna að leggja.

Ég held að það hljóti nú að vera svo, að þessir menn eigi að hafa skoðun á máli af þessu tagi þegar svo horfir eftir ítrekaðar tilraunir þeirra til þess að ná fram einhverri kaupmáttaraukningu fyrir hönd umbjóðenda sinna að kaupmáttur taxtakaups verkafólksins, lægst launaða fólksins í landinu, er nú í þessum mánuði allverulega minni en kaupmáttur þessa sama fólks var á því heita vori þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var felld. Í júní 1978 var kaupmáttur taxtakaups verkafólks samkv. upplýsingum Kjararannsóknarnefndar 118.8 stig. Núna í októbermánuði er kaupmáttur kauptaxta þessa sama fólks 106.8 stig eða 12 stigum lægri en hann var það ágæta vor þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og íhaldsflokkanna tveggja féll. Ég hefði talið ástæðu til að ýmsir af þeim, sem hér eiga sæti og telja sig jafnframt í forustusveitum verkalýðshreyfingarinnar, létu í ljós einhverja skoðun í máli af þessu tagi, sem beinlínis er flutt vegna þess að með því er verið að ítreka þá skoðun forustumanna Alþýðusambandsins sjálfs, að skipulag verkalýðshreyfingarinnar eigi hér nokkra sök á.

Í annan stað þótti mér enn þá umhugsunarverðara fyrir forustusveit verkalýðsflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar, sem hér á sæti, þegar svo er komið að Alþýðusamband Íslands virðist af þessum ástæðum og öðrum stefna í upplausn. Elsta og virðulegasta stéttarfélagið á Íslandi, frumherji allra íslenskra stéttarfélaga, Hið íslenska prentarafélag, hefur sagt sig úr lögum við heildarsamtök launafólksins í landinu. Það hefðu einhvern tíma þótt mikil tíðindi á þeim bæ og þótt mikið umhugsunarefni fyrir verkalýðsflokka og áhugamenn um verkalýðsmál, að svo skuli nú vera komið málum að elsta og virðulegasta stéttarfélag í landinu, frumherji verkalýðsbaráttunnar á Íslandi, skuli hafa sagt sig úr Alþýðusambandi Íslands. Skyldu menn þá ekki vilja fara að huga eitthvað að skipulagsmálum þessara fjöldasamtaka, þegar mál horfa einnig svo við að flestöll sambönd faglærðs fólks innan ASÍ hafa tekið þá ákvörðun um að vera ekki með í þeim kjarasamningum sem nú fara í hönd? Auk bókagerðarmanna hefur Rafiðnaðarsamband Íslands tekið ákvörðun um að verða ekki með. Byggingarmenn hafa tekið ákvörðun um að þeir fari nú sjálfir með alla samninga um sín kaup- og kjaramál að slepptum þeim umræðum sem fram kunna að fara á milli Alþýðusambandsins og ríkisstj. um jólapakka og vísitölumál. Að því er mér skilst hafa félagsmenn í járniðnaðarmannasambandinu tekið sömu ákvörðun eða eru um það bil að taka sömu ákvörðun. Skyldi þetta ekki valda áhugamönnum um verkalýðsmál neinum áhyggjum eða neinni umhugsun, að Alþýðusamband Íslands skuli með þessum hætti e. t. v. ekki beinlínis stefna í upplausn, en alla vega stefna til miklu meiri sundrungar en átt hefur sér stað á umliðnum árum? Ég hefði haldið það.

Herra forseti. Forustumenn Alþýðusambands Íslands og aðrir áhugamenn um framgang verkalýðsmála í landinu og bætt kjör launafólksins hafa lengi verið þeirrar skoðunar, að þá væri verkalýðshreyfingin sterkust í kjarasamningamálum þegar hún stæði sameinuð gagnvart vinnuveitendum. Einmitt vegna þess var sú ákvörðun tekin af forustu Alþýðusambandsins á sínum tíma að stefna öllum forsvarsmönnum verkalýðsfélaga víðs vegar af landinu til kjarasamninga hér í Reykjavík, til hinna stóru samflota svokallaðra, því þannig töldu þeir að verkalýðshreyfingin stæði sterkust. Reynslan liggur nú á borðinu því eftir ítrekaðar tilraunir hefur svo farið, að niðurstaða og árangur kjarasamninga fyrir verkafólk er aðeins sá, að kaupmáttur kauptaxta þess er nú mun lakari en hann var þegar íhaldsstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var felld af verkalýðsflokkum 1978 og ýmsir af helstu frumkvöðlum í verkalýðsbaráttu hafa sagt skilið við leiðsögn Alþýðusambandsforustunnar, bæði í félagsmálum og eins í samningamálum nú. Þetta er niðurstaðan af hinum stóru samflotum. Hún hefur orðið þessi. Verkalýðshreyfingin hefur ekki náð árangri fyrir umbjóðendur sína, þrátt fyrir stjórnaraðild Alþb., heldur en náðist í stjórnartíð Framsfl. og Sjálfstfl.

Hver er skýringin á þessu? Skýringin á þessu liggur m. a. í því, að þessi svokölluðu heildarsamflot verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningagerð gátu aldrei skilað neinum umtalsverðum árangri af því einu að skipulagsmálum verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þannig fyrir komið, að hún ræður ekki við sjálft meginatriðið í því að geta framkvæmt hið svokallaða samflot. Þegar hún kemur saman sem ein heild getur hún ekki markað sér ákveðna stefnu í kjaramálum, tekið afstöðu til þess, hver skuli vera lægstu laun í kröfugerð hennar, hver skuli vera hæstu laun og hvaða laun skuli greidd þar á milli. Auðvitað er það lykilatriði í allri kröfugerð verkalýðshreyfingar, ætli hún að koma fram sameinuð á einum vettvangi, að geta gert upp við sig hver launabilin í þjóðfélaginu eigi að vera. Hver á að vera krafa, þegar hreyfingin kemur ein fram, um lægstu laun og hver á krafa hennar að vera um hæstu laun og hvernig ætlar hún að raða umbjóðendum sínum í launaflokka þar á milli? Þetta hefur Alþýðusamband Íslands aldrei getað. Og þetta eru engin tíðindi vegna þess að árið 1958, þegar þing Alþýðusambands Íslands skipaði hina umræddu mþn. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason vitnaði til áðan, þá var forustumönnum Alþýðusambands Íslands ljóst að skipulagi Alþýðusambandsins væri þannig háttað, að það mundi aldrei ráða við þetta meginviðfangsefni allrar verkalýðshreyfingar: að móta samábyrga launastefnu, eins og þeir kölluðu það árið 1958. M. ö. o.: eins og skipulagi Alþýðusambandsins væri nú háttað réð Alþýðusamband Íslands ekki við að ganga frá kröfugerð um hver skuli vera lægstu laun, hver hæstu laun og hvaða laun skuli greidd þar á milli.

Þetta var meginástæðan fyrir því — eins og ég veit að ýmsir hv. þm. sem hér eru muna eftir sem það þing sátu, Alþýðusambandsþingið 1958, — þetta var meginástæðan fyrir því, að ýmsir af helstu forustumönnum Alþýðusambandsins þá börðust fyrir skipulagsbreytingu á vegum samtakanna. Þeir sögðu að til þess að verkalýðshreyfingin gæti komið fram sem ein heild í kjarasamningagerð yrði hún að ráða við það vandasama viðfangsefni að móta sér heildarstefnu í kjaramálum, að taka afstöðu til þess, hver eigi að vera launahlutföllin í þjóðfélaginu. Þeir sögðu einnig að eins og skipulagi verkalýðshreyfingarinnar er háttað — mig minnir að þá hafi aðeins verið til eitt landssamband, Landssamband vörubifreiðastjóra, hin komu síðar, ef ég man rétt, — en eins og skipulaginu er háttað, sögðu þessir menn, þá er útilokað að Alþýðusamband Íslands geti tekið þessa erfiðu ákvörðun, geti nokkurn tíma markað í kröfugerð sinni hver vera skuli launahlutföllin í þjóðfélaginu. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta skipulagi verkalýðshreyfingarinnar þannig, að í staðinn fyrir að það sé — eins og þá var og enn er — grundvallað á láréttri skipulagsmynd, þar sem á einum og sama vinnustað eru starfsmenn í mörgum félögum sem síðan mynda með sér félagasambönd, en hafa engin samskipti sín á milli, þá skuli horfið frá þeirri skipulagsmynd og yfir í svokallað lóðrétt skipulag, þar sem vinnustaðurinn er grunneiningin og allir þeir, sem á vinnustaðnum starfa, eru í einu og sama stéttarfétagi. Þetta þýddi auðvitað að í staðinn fyrir, að stéttarfélagið — samkv. þáverandi og núverandi skipulagi — þurfi aðeins að taka ákvörðun í kröfugerð sinni um hvaða launakröfur það ætti að gera fyrir ákveðna starfsmenn á vinnustaðnum, þyrfti það að taka ákvörðun um hvaða kröfur það ætlaði að gera fyrir þann, sem teldist lægst settur á vinnustaðnum, og þann, sem teldist hæst settur á vinnustaðnum, og alla, sem lægju þar á milli. M. ö. o.: með slíkri skipulagsbreytingu yrði verkalýðshreyfingin bókstaflega neydd — hvort sem hún vildi eða vildi ekki — til að taka afstöðu til þess lykilsspursmáls, hver eigi að hennar áliti að vera launahlutföllin í þjóðfélaginu. En það er, eins og ég sagði, grundvöllurinn fyrir því, að verkalýðshreyfingin geti komið fram sem einn aðili við heildarkjarasamningagerð. Þetta vissu forsvarsmenn Alþýðusambandsins árið 1958, þegar þeir skipuðu umrædda mþn., og þetta vissi þing Alþýðusambandsins árið 1960, þegar samþykkt var þar álit mþn. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason ræddi um áðan, en sú samþykkt um skipulagsbreytingar á vegum Alþýðusambandsins hefur verið ítrekuð, að mig minnir, á tveimur þingum síðan.

Það ætti því engum að koma á óvart hvernig stendur á því, að heildarsamflotin við launakjarasamningagerð hafa farið út um þúfur. Og það ætti ekki heldur að koma neinum á óvart, hvernig stendur á því að lægst launaða fólkið í Alþýðusambandinu hefur átt svo erfitt uppdráttar við slíka kjarasamningagerð. Ástæðan er einfaldlega sú, sem menn sáu þegar árið 1958, að skipulagi Alþýðusambandsins er þannig háttað að það getur ekki gengið til slíkra samninga vegna þess að eins og skipulagsmálum er fyrir komið ræður það ekki við að gera upp við sig hver vera skuli launahlutföllin í þjóðfélaginu. Verkamannasambandið hefur á því sina skoðun, rafiðnaðarmenn hafa á því sína skoðun, bókagerðarmenn hafa á því sína skoðun o. s. frv., o. s. frv., en Alþýðusambandið sem heild hefur enga skoðun á því. Þess vegna hafa kjarasamningarnir þróast þannig í hvert skipti sem heildarsamningagerð hefur verið reynd að yfirleitt hefur niðurstaðan orðið sú, að fyrst hefur láglaunafélögum verið att fram, oft í erfiðum kjaraátökum, síðan hafa þau samið og verið látið í veðri vaka að nú væru samningar búnir af hálfu Alþýðusambands Íslands. En þá hafa öll sérgreinafélögin komið á eftir til að gera upp svokallaðar sérkröfur sínar, sem hefur þýtt að þegar upp er staðið hafa hálaunafélögin kannske fengið þrefalda kauphækkun á við lægst launuðu félögin.

Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega hið gamla, ranga og úrelta skipulag Alþýðusambandsins, sem gerir það að verkum að Alþýðusambandið hefur aldrei getað og aldrei þurft í rauninni að gera upp við sig það erfiða vandamál í allri verkalýðsbaráttu, hvernig launahlutföllin eigi að vera í þjóðfélaginu. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og það er alls ekki nein ný skoðun eða kenning hans, herra forseti, heldur var það kenning forustumanna Alþýðusambandsins 1958, að skiputag Alþýðusambandsins eins og það er úr garði gert í dag og eins og það var úr garði gert 1960, þegar breytingar á því voru samþykktar, það kemur í veg fyrir að lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu fái þær kjarabætur sem alltaf er verið að tala um, líka í verkalýðshreyfingunni, að meiningin sé að það fái. Þess vegna kom mér það mjög á óvart, hæstv. forseti, að þeir áhugamenn um verkalýðsmál, sem hér eru, skyldu ekki kveðja sér hljóðs hér áðan áður en forseti tilkynnti að tekið yrði fyrir næsta mál á dagskrá. En væntanlega bæta þeir úr því.

Þetta held ég að sé megintilgangurinn með flutningi frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar að benda á. Ástæðan fyrir því, að hin svokallaða láglaunapólitík, sem menn hafa oft verið að tala um, t. d. til þess að lægst launaða fólkið fái kauphækkanir umfram aðra, þær tilraunir hafa aldrei tekist, er m. a. skipulag verkalýðshreyfingarinnar. Ef menn ætla að láta láglaunfólkið ná meiri árangri við kjarasamningagerð en það hefur gert, þá verða menn að breyta þessu skipulagi. Þetta er annað meginatriðið í tillögugerð hv. þm.

Hitt meginatriðið í tillögugerð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar er svo að sú skipulagsbreyting, sem gera eigi, þurfi að vera í grundvallaratriðum eins og mþn. frá 1958 gerði að till. sinni, þ. e. að gera vinnustaðinn að grunneiningu í skipulagi verkalýðshreyfingarinnar þannig að verkalýðshreyfingin og hvert verkalýðsfélag um sig þurfi í kröfugerð sinni að taka afstöðu til hvert eigi að vera launahlutfallið á hverjum vinnustað, hver eigi að vera munur á milli launa hæst launaða mannsins og lægst launaða mannsins, en ekki eins og núna, að allir, raunverulega næstum því hver maður á hverri vinnustöð um sig berjist einn og óháður, hugsi fyrst og fremst um framgang eigin kaupkrafna.

Ég lít svo á að önnur útfærsluatriði í frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar skipti í rauninni minna máli. Þetta eru lykilatriði í tillögugerð hans, og ég tel að hann hljóti að vera fús til þess að fallast á breytingar á framsetningu og breytingar á aðferðum sem hann leggur til í frv., enda er það laukrétt hjá honum, að tillögugerð hans í frv. er nokkuð önnur heldur en samþykktir Alþýðusambands Íslands voru um einstök framkvæmdaatriði og þá fyrst og fremst um það, að hv. þm. leggur meiri áherslu á sjálfstæði vinnustaðafélaganna sjálfra heldur en samþykktir ASÍ-þings gerðu ráð fyrir. Samþykktir ASÍ-þings gerðu ráð fyrir að meiri áhersla yrði lögð á sambönd vinnustöðvafélaganna sem samningsaðila heldur en vinnustaðafélögin sjálf. Þetta er meginágreiningurinn á milli tillagna hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og samþykkta Alþýðusambands Íslands, að hann leggur meiri áherslu á vinnustaðafélögin sem samningsaðila heldur en Alþýðusambandið gerði.

En það hafa ýmis fleiri vandamál varðandi skipulagsmál aðila vinnumarkaðarins risið upp en voru fyrirsjáanleg árið 1958, þegar umrædd mþn. var sett, og árið 1960, þegar samþykkt ASÍ var gerð um till. mþn., m. a. hin miklu vandamál sem virðast geta orðið á landamærum stærstu samtaka launþega, BSRB og Alþýðusambands Íslands, en þau voru m. a. mjög til umr. á Alþingi í fyrra.

Nokkur dæmi eru þess, að menn, sem vinna sama starf hlið við hlið á sama vinnustað, sæti ólíkum kjörum, bæði í beinum kaupgreiðslum og í lífeyrismálum og öðru slíku, m. a. vinnuöryggi, eftir því hvort þeir eru félagsmenn í félagi innan Alþýðusambands Íslands eða félagi innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Tveir menn á sama vinnustað geta verið sinn í hvoru félaginu, unnið sömu störfin, en borið mismunandi launakjör úr býtum. Þetta er auðvitað ekki hægt. Það nær ekki nokkurri einustu átt, að kjör manns, sem vinnur við hlið annars manna, skuli geta verið lakari einfaldlega vegna þess í hvaða félagi hann hefur valið sér stað.

Þá hefur það einnig gerst í þessu sambandi, að vegna ólíkra samningstíma þessara aðila, annars vegar Alþýðusambandsins og hins vegar BSRB, getur t. d. hluta úr árinu verið hagkvæmt fyrir starfsmann að vera félagi innan ASÍ, því að laun hans eru þá hagstæðari samkv. launasamningum ASÍ, en svo annan hluta ársins — vegna þess að þá eru komnir nýir samningar í gildi hjá BSRB — þá sé hagstæðara fyrir viðkomandi starfsmann að skipta um félagsaðild og fara yfir í félag innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Nokkur dæmi eru þess að slíkir tilflutningar hafi átt sér stað vegna mismunandi gildistíma samninga, — að starfsfólk hafi farið milli félaganna með þessum hætti, verið hluta ársins félagsmenn innan félaga ASÍ og hluta ársins fétagsmenn félaga innan BSRB vegna mismunar á launakjörum sem þessir aðilar hafa samið um fyrir sömu störf.

Þá hefur það líka í þriðja lagi gerst, að af sömu ástæðu hafi blasað við að stór og öflug launþegafélög hafi átt á hættu að leggjast niður svo til á einni nóttu, vegna þess að félagsmönnum viðkomandi launþegafélaga hafi boðist betri kjör ef þeir segðu sig úr félaginu og gengju í félag innan annars heildarsamtakahóps. Dæmi um félag, sem hefur átt í vök að verjast hvað þetta varðar, er t. d. félagið Sókn. Á þessum vandamálum þarf auðvitað að taka með einhverjum hætti, ekki með því að skikka fólk til að vera í tilteknu félagi, hvað sem líður vilja þess og áhuga, heldur með því að tryggja að ekki skipti máli hvort maður, sem á vinnustað vinnur, sé innan ASÍ eða BSRB, hann hafi ávallt sömu laun fyrir sömu störf. Það voru talin mannréttindi hér í eina tíð og eru talin enn, að menn taki sömu laun fyrir sömu störf án tillits til kynferðis. Það eiga einnig að teljast mannréttindi, að menn taki sömu laun fyrir sömu störf án tillits til þess, í hvaða stéttarfélagi þeir eru eða eftir hvaða samningum þeir vinni. En þau mannréttindi eru ekki fyrir hendi á Íslandi í dag. (GJG: Og vantar mikið á.) Og vantar mikið á, segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Að vísu er ekki tekið á þessu máli sérstaklega í frv. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Það þyrfti að gera. Auk þess þyrfti að sjálfsögðu að sjá svo um að skipulagsmál hins aðila vinnumarkaðarins, þ. e. vinnuseljandans, atvinnuveitendanna, væru með sama hætti og skipulagsmál vinnuseljendanna, launþeganna, þannig að launþegar fengju ávallt réttan viðsemjanda við kjarasamningagerð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, enda hefur það verið rækilega gert oftar og áður. En ég vil aðeins ítreka að það liggur fyrir, að ein af skýringunum á því, hversu launakjör manna, sem vinna sömu störf hlið við hlið, eru misjöfn oft á tíðum, er úrelt skipulag aðila vinnumarkaðarins. Það liggur einnig fyrir, að ástæðan fyrir því, að hin svokallaða láglaunapólitík hefur ekki skilað árangri, er úrelt skipulag launþegahreyfingarinnar. Það þarf ekki að hafa mín orð fyrir því, þar get ég vitnað í álitsgerðir forustumannanna sjálfra frá þingunum 1958 og 1960. Og það liggur líka fyrir, að þessi skortur á því, að Alþýðusambandið framfylgi þeim skipulagsbreytingum sem það hefur sjálft samþykkt, hefur m. a. valdið því, að alþýðusamtökin sem heildarsamtök launafólks standa nú veikari en þau hafa oft áður staðið, eftir að þau hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að mynda heildarsamflot í kjarasamningagerð, — tilraunir sem hafa farið út um þúfur m. a. vegna ágalla á skipulagsmálum Alþýðusambandsins. Það sér auðvitað hver maður í hendi sér, að það eitt, að Alþýðusambandið skuli ítrekað hafa reynt að koma fram sem einn aðili, en orðið að gefast upp við það, hlýtur að skilja alþýðusamtökin í landinu eftir sem veikari aðila en þau voru áður en sú tilraun var gerð.

Viðsemjandinn, Vinnuveitendasambandið, hefur hins vegar orðið sterkara með hverri slíkri raun. Það hefur haft hag af því, að þessar tilraunir Alþýðusambands Íslands til að marka heildarstefnu í samningamálum hafa ekki skilað árangri. Og það þori ég að fullyrða af mínum kynnum af verkalýðsmálum á Vestfjörðum, að staða verkalýðshreyfingarinnar þar til þess að fara fram á sérsamninga við atvinnurekendur er miklu lakari núna vegna hins aukna miðstjórnarvalds Vinnuveitendasambands Íslands sem orðið hefur fyrir tilstilli þessarar heildarsamflotapólitíkur sem rekin hefur verið með misjöfnum árangri, heldur en áður var. Miðstjórnarvald Vinnuveitendasambandsins hefur nefnilega stöðugt orðið sterkara á sama tíma og miðstjórnarvald Alþýðusambands Íslands hefur orðið veikara vegna þess hve á hefur bjátað í. heildarsamflotum Alþýðusambandsins undanfarin ár. Og það er orðið miklu erfiðara, veit ég, fyrir Vestfirðingana eftir þær misheppnuðu tilraunir að ná núna sambandi við vestfirska vinnuveitendur til kjarasamningagerðar heldur en var áður en þessi misheppnaða pólitík um heildarsamflot í launasamningum var reynd. Þetta er kannske brýnust ástæða og brýnast umhugsunarefni fyrir þá sem vilja hag verkafólks og verkalýðshreyfingar sem mestan, að gera sér ljóst að vanefndir á því að hrinda samþykktum skipulagsbreytingum á Alþýðusambandi Íslands í framkvæmd skuli hafa orðið til þess að veikja verkalýðshreyfinguna með þeim hætti, á sama tíma og Vinnuveitendasambandið hefur styrkst með ári hverju.