26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég get svo sem vel tekið undir með tveimur síðustu hv. ræðumönnum því að efnislega hef ég ekki á móti þessari till. Þó hefði ég fyrir mitt leyti viljað hafa allt annað orðalag á henni en þarna er, vegna þess að ég hefði viljað láta athuga með hvaða hætti væri hægt að efla atvinnulífið á Norðurlandi á annan veg en þann fyrst og fremst að setja upp stóriðju á Norðurlandi, einfaldlega vegna þess að ég tel mikið af orkufrekum iðnaði, eða a. m. k. sumar greinar hans, neyðarkost sem eigi ekki að grípa til nema við getum ekki byggt upp atvinnulífið með öðrum hætti.

Segja má að sú umr., sem fer nú fram um atvinnumál hér á landi, einkennist í raun og veru töluvert mikið af vantrú, sem sumir menn virðast vera gripnir af, á þeim möguleikum sem við höfum í sambandi við okkar hefðbundnu greinar og þann iðnað sem hefur verið að þróast upp Í landinu til að fullvinna það hráefni sem þessi hefðbundni atvinnuvegur framleiðir. Ég held að þetta sé fyrst og fremst af vantrú vegna þess að margir hv. stjórnmálamenn ræða mikið um að þeir vilji halda landinu í byggð, þeir vilji gera allt það sem þeir geti til þess, en þegar farið er að ræða um úrræðin eru það fyrst og fremst úrræði til að draga saman byggðina, eins og t. d. ef um slíkan stórrekstur er að ræða í ekki fjölmennum héruðum eins og yfirleitt orkufrekur iðnaður hefur að bjóða.

Menn verða líka að athuga hvers konar stóriðju þeir geta ekki sætt sig við. Ég held að þau aðvörunarorð, sem hæstv. iðnrh. mælti og hv. þm. Árni Gunnarsson og Stefán Jónsson, eigi fullan rétt á sér. Við verðum að fara gætilega í þessum málum. Það sýnir sig, að þó að það séu erfiðleikar bæði í sjávarútvegi og iðnaði nú virðast líka blasa við erfiðleikar hjá stóriðnfyrirtækjum, bæði álverksmiðjunni og eins verksmiðjunni á Grundartanga Ég veit ekki betur en nýlega sé komið bréf frá stjórnendum fyrirtækisins á Grundartanga um að horfurnar í sölumálum þeirrar framleiðslu séu þannig að þeir geti ekki lagt til að auka þar við sig. Fyrir einum eða tveimur dögum kom sú frétt, að verð á áli væri að falla. Það kemur því upp vandamál í þessum greinum ekkert síður en í öðrum framleiðslugreinum.

Full ástæða er til að undirstrika það, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði áðan, að ekkert smávegis fjármagn þarf til að skammta hverjum manni atvinnu t. d. við álframleiðslu. Það er hátt í 1 milljarð gkr., miðað við virkjun og verksmiðju.

Það má segja að ekki sé hægt að hafa mikið á móti þáltill. þessari, ýmislegt af þeim málflutningi, sem 1. flm. hafði hér í frammi áðan, er mjög athyglisvert þó að ég muni ekki víkja að nema örfáum atriðum í málflutningi hans.

Hann hafði t. d. ekki trú á að það væru neinir möguleikar á aukningu í framleiðslu og mannafla í þeim fyrirtækjum sem nú eru á Akureyri. Hvaðan hefur hv. þm. þetta? Ef finnst grundvöllur fyrir rekstri á ullar- og skinnaiðnaðinum í landinu og ef hann fær að búa við svipuð skilyrði og orkufrekur iðnaður að öllu leyti eru mestar líkur fyrir því, að það væri hægt að tvöfalda þessa framleiðslu og mannafla, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá þessum aðilum, og það á örfáum árum, á þeim árum sem nú blasir við að verði atvinnuleysi á Eyjafjarðarsvæðinu. Talið er að það sé hægt að meira en tvöfalda þetta á 3–4 árum ef rekstrargrundvöllur er fyrir hendi. Hægt er að færa rök að því, að það sé líklegt að hann geti orðið eins jákvæður og sá stórrekstur sem samkv. till. virðist vera ætlaður. Eftir málflutningi hv. 1. flm. er það fyrst og fremst um það sem till. fjallar, miðað við þann málflutning sem hann hafði hér í frammi.

Alveg sama er með t. d. verksmiðju Kristjáns Jónssonar. Allt bendir til þess, að hér verði mikil síld á næstu árum. Spurningin er hvernig okkur tekst að afla markaða fyrir þá síld. Eftir því sem sjómenn hafa tjáð mér, sem voru á miðunum fyrir Norðurlandi, var sjórinn svartur af síld í sumar, og fullorðnir menn sögðu mér að þeir hefðu ekki séð áður eins mikla síld, ekki einu sinni á síldarárunum. Það eru að vísu erfiðleikar nú á að sel ja þessa síld, en það er merkilegt ef það tekst ekki miðað við þá vöntun á fæðu sem er í veröldinni.

En hver á atvinnumálastefna að vera? Eru það ekki yfirlýsingar um að reyna að halda byggðinni í svipuðu horfi og hún er nú sem talsmenn flokkanna gefa'? Og ef við tökum það alvarlega, er þá ekki fyrst að athuga með hvaða hætti við getum haldið við og treyst byggðina með nýjum atvinnutækifærum og styrkt það sem fyrir er? Þarna eru ýmsir.möguleikar. Ég fer ekki að telja þá upp eða rökstyðja það mjög mikið, en ætla þó að benda á tvö til þrjú atriði. En orkan þarf að vera á sama verði til sömu nota hvar sem er á landinu. Það verður að vera okkar krafa. Við meinum þá ekkert með því sem við erum að tala um ef það verður ekki gert. En þá eru líkur til að ýmiss konar rekstur á hinum minni stöðum um allt land geti blómgast og dafnað.

Það er talið að það sé mikill möguleiki á fiskeldi. Það er líka talið að það sé mikill möguleiki hér á ýmiss konar loðdýrarækt. Við höfum mikinn úrgang, sem okkur verða ekki miklir peningar úr, sem hægt er að nota til slíks eldis. Allt bendir til þess, að á næsta leiti séu að skapast möguleikar á að klekja út þorskhrognum í stórum stíl. Það eru Norðmenn byrjaðir að gera. Þeim hefur tekist að komast yfir vissa þröskulda í því efni og þeir eru bjartsýnir á að þetta takist. Ef það verður að veruleika, sem ýmsir spá nú, skiptir engu máli hvað það kostar fyrir okkur því að sjórinn er sú gullkista sem við hljótum að byggja afkomu okkar á hér eftir sem hingað til, ekki síst ef slíkir möguleikar opnast sem margir telja að séu í sjónmáli.

Niðurstaða mín er sú, að það sé byrjað alveg á öfugum enda í þessu efni, þar eigi fyrst að byrja á því að athuga um hvernig sé hægt að treysta atvinnulífið, færa iðnaðinn og atvinnutækifærin að fólkinu, en ekki fólkið að stórum rekstrareiningum. Ef okkur aftur á móti tekst það ekki gegnir öðru máli. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að stóriðjan, orkufrekur iðnaður, sé neyðarkostur sem við komumst þó ekki hjá að grípa til ef við getum ekki byggt upp atvinnulífið með öðrum hætti.

Allt bendir til þess, að um næstu aldamót verðum við að vera við því búnir að framleiða eldsneyti okkar á vélar og til kyndingar — a. m. k. á vélar, við getum náttúrulega notað rafmagnið til annarra nota. Og margir spá því að olían muni á næstunni hækka verulega. Menn deila um hvorum megin það verður við aldamótin, en þá verðum við líka að vera við því búnir. Okkar trygging er að við séum komnir af stað með þessa framleiðslu þegar þar að kemur, hvenær sem það verður.

En það er ýmislegt fleira sem við þurfum að afhuga í þessum sambandi. Við erum að tala um jafnrétti sí og æ. Jafnrétti kynjanna mun fyrst og fremst ráðast af því, hvort bæði kynin hafi í framtíðinni svipaða aðstöðu um atvinnuval og launakjör. Hvernig ætli það sé nú með stóriðjuna'? Ætli það séu margar konur sem hafa atvinnu við slíkan rekstur, eða ætli þær fáist mikið við mannvirkjagerð sem þarf í sambandi við slíkan rekstur? Ætli mönnum sé ekki hollt að líta til beggja átta í þessu efni. Náttúrlega þýðir ekkert að vera að tala um jafnrétti ef bæði kynin hafa ekki svipaða aðstöðu um atvinnuval og launakjör. Það gerist ekki ef það verður fyrst og fremst unnið að því að byggja upp atvinnulífið með slíkum stórrekstri.

Það mátti heyra það á máli hv. 1 . flm. áðan — ég skildi hann a. m. k. þannig, hann leiðréttir mig þá — að hann reikni með því eða stefni að því að það verði sett upp álverksmiðja við Eyjafjörð. Ég er hræddur um að menn séu ekki á einu máli um hvort Eyjafjörður sé sú byggð sem sé best valin fyrir slíkan rekstur. Hitt er alveg rétt, að ef verður farið í fimm eða sex virkjanir t. d. fyrir aldamót verða Norðlendingar auðvitað að taka þátt í því að nota eitthvað af þeirri orku. Að mínu mati á að byggja minni rekstrareiningar, eftir því sem við verður komið, og tryggja framtíð þjóðarinnar með því að framleiða brennsluefni um leið og sá.kostur virðist vera mögulegur vegna kostnaðar og tæknilegra atriða.

Það kann að vera að ég komi með brtt. við þessa þáltill. og leggi hana fram þannig að nefnd, sem um þetta fjallar, geti rætt hana. Ég held að stjórnmálamenn, ríkisstj. og stjórnmálamenn í hvaða flokki sem þeir standa, ættu fyrst og fremst að leiða hugann að því, hvernig við getum treyst atvinnulífið á annan veg en þann að byggja upp slíkan stórrekstur í landinu. Við eigum að flýta okkur hægt í því efni vegna þess, sem kom fram líka hjá hæstv. iðnrh. áðan, að slíkar rekstrareiningar mega ekki vera stærri en það, að þær leggi ekki annað að verulegu leyti í rúst. Þess vegna verður það að vera eftir aðstæðum á hverjum stað, hvað slíkur rekstur á að vera stór. Og það er fleira sem við þurfum að hafa í huga þegar af því verður að við semjum við erlenda aðila um orkuverð. Ef við tökum alltaf skásta virkjunarkostinn og seljum orkuna miðað við virkjunarkostnað á hverjum stað sitjum við síðar uppi með hærra orkuverð þegar við þurfum orku til t. d. eldsneytisframleiðslu. Við ættum því að semja um orkuverð miðað við meðalverð á þeim virkjunarkostum sem við gerum ráð fyrir að verði virkjaðir á næstu áratugum.