26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki efna til langra umr. út af því sem hér hefur komið fram, en vildi aðeins þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þessa till. sem ég hef flutt. Ég vil þakka hæstv. ráðh. sérstaklega fyrir að fara um þetta mál nokkrum orðum og að mér fannst með heldur jákvæðum og opnum huga og ég þakka „kollegum“ mínum úr Norðurl. e. fyrir jákvæðan tón. yfirleitt í þeirra ræðum.

Það kom mér ekki á óvart að hv. þm. Stefán Valgeirsson var einna ólundarlegastur í ræðustól af þeim félögum og boðaði brtt. við þessa till. okkar hv. þm. Halldórs Blöndals. Út af því, sem hann sagði hér, að stóriðja væri neyðarkostur og að sér virtist að við værum að einblína þarna um of á stóriðjukostinn til að ná fram ákveðinni uppbyggingu í atvinnulífinu, vil ég segja að það þarf mikla lagni til að skilja orð mín svo eða till. þessa á þann hátt, að við einblínum á þann kost. Ég tók mjög skýrt fram í framsöguræðu minni að hér væri um það að tefla, að við teldum sjálfsagt að þessir kostir yrðu kannaðir jafnframt öðrum kostum til uppbyggingar atvinnulífs á Norðurlandi eystra. Ég vil benda hv. þm. á að það tekur ekkert stuttan tíma að undirbúa staðarval stórs fyrirtækis. Jafnvel þó að hefði verið vel unnið að þessu á undanförnum árum mætti kannske gera sér vonir um að slíkt fyrirtæki yrði komið í starfrækslu seinni partinn á þeim áratug sem nú er að byrja. En það er því miður ekki svo, að það hafi verið gert. Að þessu hefur verið of lítið hugað. Þess vegna vildum við leggja á það sérstaka áherslu, að þessi þáttur yrði ekki vanræktur, að það yrði tekið fullt tillit til þessara möguleika.

Hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að fara mjög varlega þegar verið væri að velja stað fyrirtæki sem væri stórt og viðamikið í litlu samfélagi, og sagði, að það væru um þetta nokkur dapurleg dæmi í Noregi, að stórfyrirtæki hefðu haft þar neikvæð áhrif á samfélagslega þróun í litlum byggðarlögum. Ég er hæstv. ráðh: algerlega sammála að þessu leyti. Ég tel að það sé kannske kjarni málsins í þessu efni, t. d. að velja stóru fyrirtæki, hvort sem það er álver eða eitthvað annað, stað á landsbyggðinni yfirleitt, hvaða áhrif það hefur á nánasta umhverfi og samfélagið: En þá bendi ég líka á þá staðreynd, að það er hvergi öflugra samfélag, hvergi öflugri iðnaður, hvergi öflugra þjónustuumhverfi á gervallri landsbyggðinni utan Suðvesturlands en einmitt í Eyjafirði, Það er í mínum huga nánast útilokað að velja slíku fyrirtæki stað annars staðar án verulegrar röskunar á samfélagslegum háttum. Það er kannske kjarni málsins að því er þetta atriði varðar.

Ég tók það mjög skýrt fram, að ég teldi að umhverfisþáttinn þyrfti að skoða mjög nákvæmlega, en það tekur sinn tíma. Það þarf langan aðdraganda að ákvörðun um staðarval slíkra fyrirtækja og þess vegna er á það lögð áhersla að þessar athuganir séu unnar með fullum krafti. Þó að við leggjum á það áherslu, að slíkar athuganir fari fram samhliða öðrum möguleikum á uppbyggingu atvinnulífsins vísa ég algerlega,á bug að það sé vegna þess að við séum svartsýnir á framtíð íslenskra bjargræðisvega eða þeirra fyrirtæk ja sem fyrir eru.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að ég hefði sagt í framsögu minni að ég teldi enga möguleika, ekki neina möguleika, eins og hann orðaði það, á eflingu atvinnulífs með því að stækka þau fyrirtæki sem fyrir væru t. d. á Akureyri. Ég vakti athygli á því, sem er mjög alvarleg staðreynd að atvinnulíf á Akureyri hefur orðið einhæfara undanfarin tíu ár. Nú eru sjö af hverjum tíu vinnufærum mönnum á Akureyri hjá sjö fyrirtækjum. Það vinna hjá sjö fyrirtækjum sjö af hverjum tíu. Þetta var þó fyrir áratug þannig að það voru þá ekki nema sex af hverjum tíu hjá ellefu fyrirtækjum. Ég taldi þessi fyrirtæki upp; sem bera svo mikinn ægishjálm í atvinnulífinu á Akureyri, og ég sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Öll fyrrnefnd fyrirtæki virðast ekki líkleg til að vaxa verulega:“ Þetta er ekki, Stefán Valgeirsson, að segja að það séu engir möguleikar að þessi fyrirtæki geti vaxið. (Gripið fram í.) Ég sagði þetta orðrétt. Hv. þm. getur flett upp í minni ræðu eins og hún kemur úr þingritun. Ég sagði þetta orðrétt. Ræða mín var að sjálfsögðu ekki almennt um það, hvaða möguleikar væru í allsherjaruppbyggingu hringinn í kringum landið.

Ég hélt, að hv. þm, hefði kannske tekið eftir því; að það eru rúm tíu ár síðan ég vann að sérstakri áætlanagerð um uppbyggingu atvinnulífs á Norðurlandi. Í þeirri áætlun voru öll þau atriði sem hann var að nefna. Ég er alveg sömu skoðunar og hann og er sömu skoðunar og ég var þá. En hv. þm. er búinn að vera stuðningsmaður ríkisstj. síðan og það er spurning í mínum huga hvort hann ætti ekki aðeins að líta í eigin barm og meta hvernig hefur tekist til um að framkvæma þær ágætu hugmyndir sem hann var að þylja hér núna, en ég lagði fram fyrir 12–14 árum.

Ég held að það þjóni engum tilgangi að efna til meiri orðræðna um þetta mál. Ég vil að lokum taka heils hugar undir ýmislegt af því sem hér hefur komið fram í athugasemdum hv. þm. og hæstv. ráðh. um eflingu atvinnulífs almennt. Ég vil taka sérstaklega undir það, að mjög miklir möguleikar eru í því sem hæstv. ráðh. kallaði „áframhaldandi stóriðnað úr sjávarútvegi“, en ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að við höfum þegar fleytt rjómann af þeim möguleikum. Það eru til margvíslegir fleiri möguleikar, t. d. með hagræðingu; með því að auka framleiðni í sjávarútveginum með fullnýtingu sjávarafla o. s. frv. En menn verða að gera sér grein fyrir að þetta er kostnaðarsamara en núverandi atvinnurekstur. Við fleytum rjómann, við tökum ekki undanrennuna. Þegar við ætlum að hagnýta undanrennuna kostar það meira, sem þýðir að hver sem vinnur að þeirri framleiðslu hefur ekki eins mikið í aðra hönd og nú. Þar liggur kannske hundurinn grafinn að þessu leyti: Það hefur ekki verið talið borga sig að vinna þannig að uppbyggingu stóriðnaðar úr sjávarútvegi, eins og hæstv. ráðh. sagði, hingað til. En þeir möguleikar eru til jafnvel þótt við hyggjum að öllum öðrum kostum þess að efla atvinnulíf okkar með orkufrekum iðnaði.