26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

71. mál, kornrækt

Helgi Seljan:

Herra forseti: Ég á nú það erindi í ræðustól fyrst og fremst að taka undir þessa till, sem er fullrar athygli verð. Það var reyndar annað sem rak mig upp í ræðustólinn. Það átti við mig erindi fyrirskömmu ráðunautur þeirra Austur-Skaftfellinga og var einmitt að ræða kornræktartilraunir sem þeir stunduðu í sumar með árangri sem hann kvað hafa verið framar öllum vonum. Þeir voru með tilraunir með kornrækt á Mýrum, á einum þremur bæjum þar, og einum bæ í Öræfum í sumar: Hann segir mér að þrátt fyrir að júnímánuður hafi verið mjög óhagstæður, verið mjög þurrt þar eystra, sem er óhagstætt á þeim tíma, og septembermánuður í lakasta tagi hafi hann verið tiltölulega ánægður með þann árangur, sem af þessari tilraun varð, og ætli sannarlega og þeir bændur þar eystra að halda því áfram þar í sandinúm. Hann sagði það, sem reyndar kom sérstaklega fram í máli hv. frsm. áðan, að hér gilti kannske fyrst og fremst að finna það kornafbrigði sem stæðist haustrokin sem væru þarna hvað hættulegust. Hann var í raun og veru að koma að máli við mig til þess m. a. að óska eftir því, að rödd að austan heyrðist í umr. um þessa till. til hvatningar á samþykkt hennar. Hann taldi hana hina bestu og merkustu, og ég get fyllilega tekið undir með honum í því efni.

Hv. frsm. vék einnig að þeim mikla kornræktaráhuga sem á tímabili var á Austurlandi og hvernig hefði þar til tekist. Því til viðbótar má auðvitað greina frá því, að í bestu árunum þar gekk þetta undravel, enda á hlýindatímabili miklu sem það gerðist.

Ég ætla ekki að víkja neitt frekar að þessu, en vil aðeins segja það, að hver tilraun, sem horfir til aukinnar fjölbreytni í íslenskum landbúnaði og má telja honum til styrktar og eflingar í framtíðinni, er vissulega af hinu góða. Möguleikarnir í þessu efni voru ítarlega raktir af hv. frsm. Það, sem hann greindi okkur frá í sínu ítarlega máli, gefur vonir um árangur ef vel er að unnið, eins og hann vék að, varðandi rannsóknaþáttinn alveg sérstaklega, varðandi alla fyrirgreiðslu, sem þarna þarf auðvitað til að koma vegna þess; hve skammt við erum á veg komnir, og auðvitað kannske fyrst og fremst með sameiginlegu félagslegu átaki bændanna sjálfra.