26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

103. mál, sjónvarp einkaaðila

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það má heita að hér sé um nýtt mál að ræða — málefni sem almenningur hefur ekki mikinn kunnugleika af og ég fyrir mitt leyti hef ekki mikil persónuleg kynni af. Mér er strax ljóst að tilkoma vídeósjónvarps er vandamál sem þarf að ráða fram úr og víkja inn á hagstæðar brautir í okkar þjóðfélagi.

Það hefur komið hér fram, að starfandi sé nefnd sem á að hafa það verkefni að endurskoða lög um útvarp. Hv. 1. flm. þessarar till. hafði þau orð um þá nefnd, að hún hefði engin fyrirmæli um það, hvernig hún ætti að starfa. Nú má vel vera að svo sé. Ég tel nauðsynlegt og eðlilegt að umræða fari fram um þessi nýju vandamál sem að steðja í þessu efni og eru komin yfir okkur. Þess vegna er ekki nema gott eitt um það að segja að fram komi tillögur um með hvaða hætti verður gengið þar að verki. En mér þykir að í þeirri till., sem við erum hér að ræða, sé um of fá fyrirmæli að ræða til viðbótar fyrir þessa nefnd, sem engin fyrirmæli hefur, eða þá nefnd, sem talað er um að stofna hér til, hvort sem heldur er.

Mér sýnist að hér sé fyrst og fremst verið að leysa tvennt, eins og stafliðirnir segja til um: annars vegar rétt þeirra, sem senda út efni, og hins vegar rétt þeirra höfunda, sem eiga efnið sem sent er út. Annað er ekki rætt um. En þyngst á metunum finnst mér vera á eftir þessu það, að þeir, sem sjónvarpsefni senda út, hafi ákveðnar skyldur, þeir verði að ganga undir að rækja vissar skyldur til að eiga sinn rétt. Ég held að fram hjá því verði ekki litið.

Í annan stað finnst mér að það þurfi líka í þessu sambandi að auka rétt þeirra sem ætlað er að falla inn í þessi kerfi. Þó að ég hafi ekki mikið kynnt mér þessi mál veit ég um nokkur heimili sem hafa þvælst til að koma inn í þetta kerfi, kunna ekki við að hætta að greiða sínar leigur, en vilja ekki sjá það efni, sem hér er á boðstólum, og allra síst hanga yfir því fram undir morgna eftir að íslenska sjónvarpinu lýkur, en víðast hvar mun vera þannig staðið að. (Gripið fram í.) Já, það er búið að greiða fyrir nokkuð sem það notar þó ekki. Ég veit að hv. flm. þekkir það mætavel, ef hann á annað borð opnar nokkurn tíma sjónvarp, hann fer að horfa á eina ákveðna mynd og hann vonar, þangað til hún er búin, að hún muni verða góð, glápir til einskis. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel fulla ástæðu til fyrir Alþingi að gefa slíkri nefnd fyrirmæli um að hafa til athugunar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að ræða þetta í lengra máli. Ég tel mig í fyrsta lagi alls ekki bæran um það umfram þau almennu efni sem ég hef hér minnst á. Ég vænti þess, að það verði tekið til greina af þeirri nefnd, sem um málið fjallar, að við þurfum miklu fleiri fyrirmæli í nefndinni, en eru í þessari þáltill.