26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

103. mál, sjónvarp einkaaðila

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Í menntaskóla fyrir aldarfjórðungi eða svo var einu sinni samið gamansamt leikrit af nemendum. Þetta leikrit var um valdatöku í landinu. Það átti að gerast um aldamótaárið 2000. Það var einn nemandi í skólanum sem var höfuðpersónan í leikritinu og var að taka völdin. Það var ekki með því að verða forsrh. eða forseti Sþ. eða neitt annað, heldur tók hann völdin með því að verða útvarpsstjóri. Það er kannske ekki hægt að segja það, en nemandinn, sem var höfuðpersónan í þessu leikriti, hét Ólafur Ragnar Grímsson. Útvarpið, sem hann sóttist svo eftir og vildi stýra, bjó yfir einni tæknibrellu. Það var ekki hægt að slökkva á því. Þessi tæknibrella skipti auðvitað miklu máli. Leikritið gerðist í kennarastofu í þeim skóla þar sem þetta var, þar sem kennararnir bjuggu við útvarp sem ekki var hægt að slökkva á. Leikritið fjallaði um baráttu þar á milli. — En þetta er kjarni málsins. Það er hægt að slökkva á sjónvarpi og útvarpi.

Mér finnst koma fram hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni einkennilegt vantraust á fólk sem neytendum og notendum. Ég held að þetta vantraust sé algerlega ástæðulaust. Því meira úrval sem verður í þessum efnum, hvort sem um er að ræða blöð, útvarp eða sjónvarp, þeim mun betra. Vitaskuld velur fólk og hafnar. Það á ekki að vera okkar hlutverk að setja fólki reglur í slíkum efnum. Auðvitað held ég að framtíðin verði í þessum efnum í átt til aukins frjálsræðis. Hitt er rétt, að það er ástæða til að óttast drottnun fjármagns. Það getur vissulega verið viðbótarverkefni fyrir nefnd þá, sem hér er verið að leggja til, eða nefnd, sem þegar situr, að hún verði skikkuð til að leggja til frekari sérstakar reglur, t. d. um stærðarmörk slíkra fyrirtækja. En það hefur orðið umsnúningur í pólitík þegar ótti af þessu tagi kemur fram hjá manni í þeim flokki sem hv. þm. er fulltrúi fyrir, en að maður úr mínum flokki skuli vera viljugri til að treysta fólkinu sjálfu. Ég held að fólkið sé fullkomlega traustsins vert. Þróunin verður sú, að úrvalið verður meira. Fólkið sjálft er ekki hættulegt í þeim efnum. Það er besti dómarinn í eigin málefnum.