30.11.1981
Neðri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 102 hef ég ásamt hv. 5. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Norðurl. v. lagt fram frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem hljóðar þannig:

„1. gr.: Við 4. gr. laganna bætist 8. liður, svohljóðandi: Félagsheimili byggð samkv. 1. gr. laga nr. 54/1979, um félagsheimili.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það hefur komið í ljós, að skattyfirvöld hér á landi hafa ákveðið að leggja tekjuskatt og eignarskatt á félagsheimili sem byggð hafa verið víðs vegar um land samkv. lögum um félagsheimili, nr. 54/1979 og eru í eigu sveitarfélaga og félagasamtaka á viðkomandi stöðum, en í lögum þessum segir svo í 1. gr.:

„Með félagsheimilum er í lögum þessum átt við samkomuhús, sem ungmennafélög, verkalýðsfélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög, kvenfélög, búnaðarfélög og hvers konar önnur menningarfélög, er standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana, eiga og nota til fundahalda eða annarrar félagsstarfsemi, enn fremur samkomuhús sveitarfélaga. Sama gildir um sjómannastofur, sem sömu aðilar eiga og reka, sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi.“

Eins og öllum má ljóst vera er það sammerki með öllum félagsheimilum, að þau hafa verið og eru fjölbreytilegar menningarmiðstöðvar og leysa úr brýnni þörf fyrir félagslega aðstöðu í viðkomandi sveitarfélögum. Nú munu vera í landinu 173 félagsheimili í 134 bæjar- og sveitarfélögum, sem svarar því að rúmlega 59% bæjar- og sveitarfélaga njóti félagsheimila. Þá eru auk ofangreindra í byggingu nú um 12 félagsheimili eða í undirbúningi.

Svo sem alþjóð er kunnugt eru þessi félagsheimili að mörgu leyti mjög mismunandi. Má þar nefna aldur, stærð, starfsemi, legu o. fl. Elstu húsin, sem enn eru notuð, eru gömlu góðtemplara- og ungmennafélagshúsin sem byggð voru af hugsjón og dugnaði fyrir mörgum áratugum. Svo sem nærri má geta er aðstaða öll þar verulega bágborin í samanburði við þær kröfur sem við gerum til félagsheimila nú. Stærð félagsheimilanna er mismunandi og ræðst að verulegu leyti af íbúafjölda héraðsins og þeirri starfsemi sem því er ætluð. Sum þessara félagsheimila eru í þéttbýli og í stöðugri notkun hvern einasta dag. Í tengslum við þau er oft og tíðum hótelrekstur, kvikmyndasýningar o. fl. Önnur eru á fámennari stöðum og oft að verulegu leyti notuð í tengslum við skóla, bæði sem kennslustofur og íþróttahús. Að þeim flestum standa auk sveitarfélaganna áhugamannafélög sem leggja fram til þeirra allt sitt fjármagn. Með tilkomu félagsheimila víðs vegar um landið hefur skapast aðstaða til hvers konar menningarlífs, sem telja verður eina af forsendum nútímalífshátta.

Lögin um félagsheimili hafa gert mögulegt að koma slíkum byggingum upp og nýta um leið sjálfboðastarf ungra og gamalla í flestum byggðarlögum, ekki aðeins á byggingartíma þeirra, heldur einnig við rekstur þeirra.

Flestir hafa litið svo á, að ákvæði skattalaga gæfu ekki tilefni til álagningar tekju- og eignarskatts á félagsheimili sem byggð hafa verið samkv. lögum um félagsheimili.

Stjórn Félagsheimilasjóðs hefur í okt. s. l. ritað alþm. eftirfarandi bréf, sem ég vil lesa hér með grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Efni: Um álagningu tekjuskatts og eignarskatts og aðstöðugjalds á félagsheimili.

Í júní s. l. úrskurðaði ríkisskattanefnd að félagsheimilið Festi í Grindavík skuli greiða tekjuskatt, eignarskatt og aðstöðugjald vegna starfsemi sinnar á árinu 1979. Félagsheimilið Tjarnarborg, Ólafsfirði, hefur nýlega fengið samsvarandi kröfu frá skattstjóra Norðurlandsumdæmis eystra.

Af þessu tilefni leyfir stjórn Félagsheimilasjóðs sér að vekja athygli hv. alþm. á máli þessu og jafnframt að leggja fram þá ósk, að hv. Alþingi sjái til þess, að félagsheimili verði ekki skattlögð með þessum hætti.

Sveitarfélög og ýmis félagasamtök hafa með stuðningi Félagsheimilasjóðs reist félagsheimili um allt land. Félagsheimilin hafa verið fjölbreytilegar menningarmiðstöðvar og leyst úr brýnni þörf fyrir félagslega aðstöðu. Rekstur þeirra hefur hins vegar verið fjárhagslega erfiður og verða því nýjar álögur, eins og um er getið hér að framan, mikið reiðarslag fyrir rekstrarstjórnir félagsheimilanna.

Í rökstuðningi umboðsmanna félagsheimilisins Festi er m. a. eftirfarandi tekið fram:

„Félagsheimilið er starfrækt á grundvelli laga um félagsheimili nr. 107/1970, en með tilvísum til 8. gr. þeirra laga voru settar reglur um félagsheimilið, nr. 260/1972. Markmiðið með rekstri félagsheimilisins er félagsstarfsemi í samræmi við 1. gr. áðurnefndra laga, sem felst í ýmiss konar samkomuhaldi, svo sem kvikmyndasýningum og dansleikjum. Í starfseminni felst einnig önnur þjónusta, svo sem veitingasala, sem óhjákvæmileg fylgir slíkri félagsstarfsemi sem þjónar hlutverki félagsmiðstöðvar fyrir byggðarlagið.

Í 5. gr. áðurnefndrar reglugerðar er kveðið svo á, að húsdeild skuli „sjá til þess að tekjur hrökkvi fyrir rekstrargjöldum“, og er því reksturinn miðaður við að hægt sé að uppfylla þetta ákvæði innan ramma 1. gr. laganna. Eigendur félagsheimilisins líta svo á, að hér sé ekki um atvinnurekstur að ræða, heldur einungis félagsstarfsemi í þjónustu byggðarlagsins. Rekstur félagsheimilisins falli því undir ákvæði 6. gr. laga nr. 68/1971, um skattfrelsi félaga sem ekki stunda atvinnurekstur, og er þess því krafist, að álagður tekjuskattur, eignarskattur og aðstöðugjald árið 1979 verði felld niður.“

Stjórn Félagsheimilasjóðs er sammála þessum rökum og væntir þess, að hv. Alþingi finni lausn í þessu máli og setji sérstök ákvæði um skattfrelsi félagsheimila í viðeigandi lög, ef lausn fæst ekki á annan hátt.

F. h. stjórnar Félagsheimilasjóðs

Reynir Karlsson,

íþróttafulltrúi.“

Mér finnst ástæða til að víkja aðeins að rökstuðningi, sem fram kemur í úrskurði ríkisskattanefndar í framhaldi af því sem um er fjallað í bréfi frá stjórn Félagsheimilasjóðs. Má geta þess, að félagsheimilið Festi er samkv. stofnsamningi í eigu sameignarfélags eftirtalinna aðila: Grindavíkurhrepps, eignarhluti hreppsins er 75%, Kvenfélags Grindavíkur, eignarhluti þess er 13%, Ungmennafélags Grindavíkur, eignarhluti er 6%, og Verkalýðsfélags Grindavíkur, eignarhluti er 6%.

Í úrskurði ríkisskattanefndar kemur fram að ríkisskattanefnd hefur klofnað í þessu máli. Meiri hluti nefndarinnar segir svo í sínu áliti, með leyfi hæstv. forseta:

„Kærandi fellur undir lög nr. 107/1970, um félagsheimili, en í 8. gr. þeirra laga segir að sérhvert félagsheimili, sem byggt er með styrk úr Félagsheimilasjóði, skuli vera sjálfstæð stofnun og skuli settar reglur um rekstur og afnot þess hvers og eins og menntmrh. staðfesta þær.

Um kæranda hefur verið sett reglugerð nr. 260/1972, en í lokamgr. 4. gr. hennar segir að kærandi skuli rekinn sem sjálfstæð stofnun með sérstöku reikningshaldi og skuli almanaksárið vera reikningsár þess.

Að þessu virtu verður að telja kæranda falla undir ákvæði e-liðs 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, en honum hefur ekki verið veitt skattfrelsi með sérlögum. Þegar litið er til reglna þeirra, sem um kæranda gilda, svo og til þeirra upplýsinga, er fram koma í ársreikningi kæranda fyrir árið 1978 um starfsemi hans á því ári, þá verður ekki séð að í 5. eða 6. gr. nefndra laga séu nein ákvæði sem leysi hann undan skattskyldu vegna gjaldársins 1979. Er því úrskurður skattstjórans staðfestur að öðru leyti en því, að eigi þykir rétt, eins og hér stendur á, að beita viðbótarálagi, sbr. 47. gr. sömu laga, við ákvörðun stofna til tekjuskatts, eignarskatts og aðstöðugjalds.“

Minni hl. ríkisskattanefndar skilaði svofelldu áliti: „Í 1. gr. laga nr. 107 28. okt. 1970, um félagsheimili, er tekið fram að með félagsheimilum í lögunum sé átt við samkomuhús, sem ungmennafélög, verkalýðsfélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög, kvenfélög, búnaðarfélög og hvers konar önnur menningarfélög, er standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana, eiga og nota til fundahalda eða annarrar félagsstarfsemi. Sama skal gilda um samkomuhús sveitarfélaga.

Megintilgangur laga þessara er að setja reglur um ráðstöfun fjár úr Félagsheimilasjóði til styrktar byggingu slíkra húsa, er lögin taka til, svo og um fjárhagslegan stuðning við menningarstarfsemi félagsheimila. Þá eru í lögunum ákvæði um afnot húsa þessara og aðgang að þeim, hömlur á sölu og veðsetningu þeirra húsa er styrki hafa verið úr Félagsheimilasjóði, ráðstöfun húsa, þegar aðildarfélög eru lögð niður, og forgang sveitarstjórna til rekstrar slíkra húsa. Lúta ákvæði laganna mjög að því að tryggja hagsmuni styrkveitanda, Félagsheimilasjóðs, og þá opinberu hagsmuni sem styrkveitingum þessum er ætlað að styðja. Þessa eðlis sýnist og vera það ákvæði, er greinir í 8. gr. laganna, um að sérhvert félagsheimili, sem byggt hefur verið með fjárstuðningi úr Félagsheimilasjóði, skuli vera sjálfstæð stofnun og settar um það reglur er ráðherra staðfestir.

Hluttaka sveitarstjórna í byggingu og rekstri félagsheimila sýnist falla undir lögbundið hlutverk sveitarfélaga samkv. sveitarstjórnarlögunum. Þá fellur starfsemi sú, sem ætlað er að fari fram samkv. lögunum í félagsheimilum, að tilgangi þeirra félaga sem greind eru í 1. gr. laganna, að því er best verður séð.

Að öllu framansögðu virtu tel ég að ekki beri að líta á hús þessi sem sjálfstæða skattaðila, enda ekki fært að mínu mati að niðurstaða að því er þetta snertir ráðist af því, hvort samkomuhús þessi hafa notið byggingarstyrks úr Félagsheimilasjóði eða ekki. Þegar af þessari ástæðu tel ég að fella beri niður álagðan tekjuskatt og eignarskatt á kæranda.

Þá tel ég að fella beri niður álagt aðstöðugjald þegar af þeirri ástæðu, að svo sem atvikum er háttað verður eigi séð að samrekstur um hús þetta geti talist sjálfstæður aðili varðandi hugsanlega aðstöðugjaldsskyldu.“

Þetta var álit minni hl. ríkisskattanefndar, en eins og ég tók fram klofnaði nefndin og meiri hlutinn vísaði kærunni frá.

Eins og ég tók fram og kom fram í bréfi stjórnar Félagsheimilasjóðs voru einnig lögð gjöld á félagsheimilið Tjarnarborg á Ólafsfirði. Þar kemur fram að skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra hefur krafið félagsheimilið um efnahagsreikninga og rekstrarreikninga til álagningar og gert félagsheimilinu aðvart um að á það muni verða lögð gjöld. Kemur það fram í bréfi sem skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra skrifar 27. júlí s. l. Þar segir:

„Skattstjóri hefur móttekið rekstrar- og efnahagsreikning vegna félagsheimilisins Tjarnarborgar, en þar sem telja verður að rekstur félagsins sé skattskyldur samkv. 5. tölul. 2. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, er yður hér með gert viðvart um að fyrirhugað er að skattleggja félagið samkv. því. Er yður því gefinn kostur á að senda framtalsblað og önnur nauðsynleg gögn innan 14 daga frá dagsetningu þessa bréfs. Berist ekki umbeðin gögn innan þessa frests munu skattstofnanir áætlaðir og gjöld lögð á félagið samkvæmt því.“

Þessu svaraði stjórn félagsheimilisins með bréfi 19. ágúst s. l. Segir í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta: „Félagið er stofnað og rekið samkv. lögunum um félagsheimili, nr. 107/1970, og er hús félagsins félags- og menningarmiðstöð kaupstaðarins. Stjórn hússins hefur ætíð litið svo á, að þar væri ekki rekin atvinnustarfsemi önnur en sú sem eðlileg verður að teljast til að viðhalda góðu félags- og menningarlífi og viðhaldi hússins, og telur því að félagið falli sem fyrr undir 6. tölul. 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekju- og eignarskatt.

Þá bendum vér á að hömlur eru lagðar á ráðstöfun á eignum félagsins, en þeim ber að ráðstafa í samræmi við lög nr.107/1970, um félagsheimili. Jafnframt segir svo í 19. gr. laga fyrir sameignarfélagið Tjarnarborg í Ólafsfirði, sem samþykkt voru 17. apríl 1955:

„Arður skal eigi greiddur félögum. Sé um tekjuafgang að ræða skal hann fyrst um sinn renna til að greiða byggingarskuldir, en að þeim greiddum renna að hálfu í varasjóð til að mæta rekstrarhalla, en að hálfu í endurbótasjóð, er nota má til endurbóta eftir því sem þurfa þykir.“

Samkv. þessu teljum vér einnig að félagið heyri undir 5. tölul. 4. gr. laga nr. 40/1978.

Samkv. framansögðu mótmælum vér algerlega fyrirhugaðri skattlagningu.“

Þessu svaraði skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra 1. sept., þar sem hann tekur þetta ekki til greina, en ákveður að áætla skatt á félagið. Segir í bréfi hans m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki verður fallist á sjónarmið yðar í bréfi, dags. 19. ágúst s. l., varðandi það, að undanþáguákvæði frá skattskyldu samkv. ákvæðum 4. gr. fyrrnefndra laga eigi hér við. Telja verður að starfsemi félagsins sé byggð upp sem atvinnurekstur, þar sem aðaltekjur félagsins séu af veitingasölu og kvikmyndasýningum auk leigutekna, tekna af dansleikjum o. s. frv. Verður því ekki séð að starfsemi félagsins skuli vera undanþegin skyldu til greiðslu tekjuskatts og eignarskatts, enda þótt starfsemin sé tengd félagslegri þjónustu í þágu byggðarlagsins.

Samkv. því hefur skattstjóri Norðurlands eystra lagt áætluð gjöld á félagsheimilið Tjarnarborg, sem nú eru í innheimtu, þ. e. tekjuskattur 19 500 kr., eignarskattur 20 400 og aðstöðugjald 6 500 kr.“

Á s. l. hausti kom einnig álagningarseðill á félagsheimilið Breiðablik á Snæfellsnesi, þar sem skattstjóri Vesturlands áætlar eignarskatt á félagið 15 885 kr. og segir að í skattalögunum séu ekki nægilega skýr ákvæði um undanþágu frá skatttöku á félagsheimilið. Eigendur félagsheimilisins að Breiðabliki í Miklaholtshreppi eru sveitarfélagið með 50%, kvenfélagið 25% og ungmennafélagið 25%. Félagsheimilið að Breiðabliki er rekið algerlega á ábyrgð og kostnað sveitarsjóðs og hefur verið rekið með halla undanfarin ár.

Herra forseti. Það væri freistandi að rekja hér fleiri dæmi um þessa skatttöku. En yfirleitt hafa skattstjórar litið svo á á undanförnum árum, að félagsheimili væru undanþegin tekju- og eignarskatti, og þess vegna hefur ekki verið um mikla álagningu að ræða á slík félagsheimili. Það má því skoða sem nokkurs konar prófmál á vissan hátt að fara inn á þessa braut, og ef ekki verður skýrt kveðið á um þetta má reikna með því, að skattstjórar muni gera almenna ráðstöfun til þess að leggja á félagsheimili. Og raunar veit ég um skattstjóra í einu skattumdæmi, sem nú hefur skrifað öllum félagsheimilum á viðkomandi svæði og gert þeim aðvart um það, að svo gæti farið að tekin verði upp skattheimta á þessa aðila, og viljað fá þá ákveðnar upplýsingar þar um.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að víkja hér að einum úrskurði sem hefur fallið um skattheimtu á félagsheimili. Að vísu er það annars eðlis. Þar er um að ræða fasteignaskatt af fasteign hér í Reykjavík, félagsheimili. Það er húseign Ungmennafélags Íslands að Mjölnisholti 14. Þar hefur yfirfasteignamatsnefnd kveðið upp úrskurð 29. sept. s. l. sem mér finnst ástæða til að vekja athygli hv. alþm. á, þó að það sé ekki beint í sambandi við lögin um tekju- og eignarskatt. En það sýnir hvernig ábyrgir aðilar hér í þjóðfélaginu túlka lögin um félagsheimili nokkuð vel og vísa þar í lög um tekjustofna sveitarfélaga. Í þessum úrskurði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1981, þriðjudaginn 29. sept., var í málinu nr. 6/1981 kveðinn upp af yfirfasteignamatsnefnd svohljóðandi úrskurður:

Mál þetta er risið af ágreiningi Ungmennafélags Íslands og Reykjavíkurborgar um skyldu nefndra samtaka til að svara fasteignaskatti af fasteign þeirra að Mjölnisholti 14 í Reykjavík. Telja samtökin fasteignina undanþegna fasteignaskatti, en borgaryfirvöld telja 5. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, ekki verða skýrða svo rúmt að undanþáguákvæði þeirrar greinar taki til umræddrar fasteignar.

Húsakynni Ungmennafélags Íslands að Mjölnisholti 14 hafa notið framlaga og hlotið viðurkenningu með þeim hætti sem ráð er fyrir gert í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 107/1970, um félagsheimili. Verða þau því að teljast félagsheimili í skilningi 5. gr. laga nr. 73/1980, sbr. áður 5. gr. laga nr. 8/1972 og 6. gr. reglugerðar nr. 320/1972, um fasteignaskatt. Samkv. þessu og öðrum upplýsingum, sem fyrir liggja er fasteignin undanþegin fasteignaskatti.

Úrskurðarorð: Ungmennafélagi Íslands er óskylt að svara fasteignaskatti af fasteign sinni að Mjölnisholti 14 í Reykjavík.

Gaukur Jörundsson.

Pétur Stefánsson.

Guðmundur Magnússon.“

Þó að ekki sé beint í sambandi við tekju- og eignarskatt, þá sýnir þetta skilning þessara merku manna á lögum um félagsheimili að því er varðar ákvæði í lögum um tekju- og eignarskatt.

Það er skoðun okkar flm. þessa frv., herra forseti, að nauðsynlegt sé að taka þarna af allan vafa í sambandi við skattheimtu á félagsheimili. Hér er ekki um að ræða stórar fjárhæðir fyrir ríkissjóð, en hér er um að ræða mjög óþægilega skattheimtu á aðila, sem eru að reyna að reka félagsheimili víðs vegar um landið sem hafa ekki tekjustofna nema mjög takmarkað og flest þeirra rekin með tapi sem er jafnað út með framlögum úr sveitarsjóði. Í mörgum tilfellum og sennilega flestum, öllum nýrri félagsheimilum, eru sveitarsjóðir meirihlutaaðilar, í sumum tilfellum einu aðilar að slíkum húsum og ákvæði undanþágugreina í skattalögum verða ekki túlkuð öðruvísi en þar sé ekki um skattamöguleika að ræða að því er varðar tekju- og eignarskatt. Þess vegna ætti þetta í raun og veru ekki að vefjast fyrir skattayfirvöldum. En það gerir það og vegna þess að það gerir það tel ég nauðsyn bera til að Alþingi kveði hér upp úr og setji inn í skattalögin þetta ákvæði, að félagsheimili, sem byggð eru samkv. félagsheimilalögum, séu algerlega undanþegin þessari skattheimtu.

Ég vil í þessu sambandi fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að meðan ekki er sýnt hvaða úrslit þetta mál fær hér á hv. Alþingi verði gefin út af hálfu fjmrn. fyrirmæli til innheimtumanna ríkissjóðs um að innheimta ekki að sinni þá skatta, sem hafa verið lagðir á þau félagsheimili sem ég hef þegar minnst á, og ef um fleiri slík er að ræða, þar til úrslit þessa máls eru til lykta leidd. Mér finnst það eðlilegt og vil nota tækifærið hér til að fara fram á með fullri vinsemd að svo verði gert.

Ég vil svo, herra forseti, fara fram á að þessu máli verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.