30.11.1981
Neðri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég tel það þakkarvert að vakin hefur verið athygli á þessu máli og málið verið borið hér inn á hv. Alþingi í frv.-formi. Í 4. gr. skattalaga er komist svo að orði, að þeir aðilar skuli ekki greiða tekjuskatt eða eignarskatt, sem eru lögaðilar samkv. 2. gr. laganna og eiga hér heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkv. samþykktum sínum. Síðan segir í 6. tölul. sömu greinar, að félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr., sem ekki reka atvinnu, skuli ekki greiða tekjuskatt eða eignarskatt.

Rekstur félagsheimila hefur valdið ágreiningi í þessu sambandi milli skattyfirvalda og rekstraraðila. Vissulega eru félagsheimili rekin í landinu með ýmsum hætti og víst má telja að til séu þau félagsheimili sem rekin eru með verulegum hagnaði, ef vel tekst til um dansleikjahald, og veit ég þá ekki hvað verður um þann hagnað í slíkum tilvikum. Hitt þykir mér þó líklegra, að almenna reglan sé sú, að rekstur félagsheimila sé ekkert gróðafyrirtæki og að þau séu fyrst og fremst rekin til almenningsheilla og verji hagnaði sínum öllum í þágu almennings og þau geti því vel fallið undir þær skilgreiningar sem ég áður nefndi.

Það hefur þó ekki orðið mat ríkisskattanefndar, að tekjuskattslög séu nægilega ótvíræð hvað þetta atriði snertir, og því hefur ríkisskattanefnd úrskurðað að félagsheimilum beri að greiða tekjuskatt. Þessu má að sjálfsögðu breyta með ótvíræðu ákvæði í skattalögum og að því stefnir þessi brtt. við lögin.

Ég tel mjög gott að þetta mál kemur til sérstakrar athugunar hér í þinginu. Mér sýnist fljótt á litið að í yfirgnæfandi fjölda tilvika eigi það fyllsta rétt á sér, að tekjuskattur og eignarskattur sé ekki krafinn af slíkum húsum, og kannske getur það verið alveg ótvíræð almenn regla. Það er sjálfsagt að athuga það nánar í nefnd.

En varðandi það atriði sem hv. þm. nefndi, að innheimta færi ekki fram á álögðum tekjuskatti, þá vil ég upplýsa í þessu sambandi að fjmrn. gerir almennt enga tilraun til að stöðva innheimtu löglegra aðila á skatti. Skattur er lagður á samkv. lögum og síðan fer innheimta fram í samræmi við álagningu. Við teljum það ekki vera í okkar verkahring að gefa þessum lögskipuðu aðilum fyrirskipanir um það, hvenær skuli innheimta skatt og hvenær ekki, og breytir þar engu þótt fram komi tillögur á Alþingi um að breyta tilteknum ákvæðum skattalaga. Hins vegar kemur það fyrir, ef mál eru komin þannig í hnút að um er að ræða fógetaaðgerðir, uppboð eða önnur stórvandræði, að talið er eðlilegt að fresta slíku þar til málið hefur fengið endanlega úrlausn. Ég held að sjálfsagt sé að koma í veg fyrir að sú skattaálagning, sem þarna fer fram, valdi stórfelldum vandræðum. En ég treysti mér ekki til að gefa fyrirskipanir um það, þó að fram komi hér á Alþingi till. um að breyta ákveðnu ákvæði skattalaga, að innheimtan skuli með öllu stöðvuð í slíkum tilvikum.