30.11.1981
Sameinað þing: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

330. mál, útboð verklegra framkæmda

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur hér gefið. Víst er að þessi lestur var nokkuð tormeltur, en engu að síður held ég að af honum megi þó draga ákveðnar ályktanir.

Ég held að það sé óhætt að segja, og ég fagna því, að hjá þessum ríkisstofnunum virðist gæta vaxandi tilhneigingar til að fara útboðsleiðina. Hins vegar er engan veginn nægilega að gert í þeim efnum. Það kom t. d. fram varðandi Vegagerð ríkisins, að um 18.8% verka ársins 1980 og 20.2% verka ársins 1981 voru boðin út eða unnin af verktökum samkv. samningi, sem reyndar er ekki það sama, en það er nokkru meira en bæði árin 1978 og 1979, þótt það sé lægra en hæst hefur orðið, sem var 1970, eins og hæstv. ráðh. gat um. Hins vegar fagna ég því, að það kom fram sem stefnuyfirlýsing af hálfu Vegagerðarinnar í þessu svari hæstv. ráðh. að hún hefði áhuga á að auka útboð á sínu sviði.

Sannleikurinn er sá, að þótt um smáverk sé að ræða, eins og vafalaust er oft hjá Vegagerðinni, og þó að áhugi sé að að heimamenn sitji fyrir verkum, sem ég skil, er þar með ekki sagt að útboðsleiðin sé útilokuð. Ég vil í þessu sambandi aðeins geta mjög nýlegs dæmis um tilboð, sem barst í vegagerð, en þar var um að ræða að Landsvirkjun bauð út stuttan vegarkafla að Sultartanga, sem er lagður í tengslum við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir þar og stíflugerð. Áætlun sérfræðinga við þessa vegagerð hljóðaði upp á 555 þús. kr., en lægst tilboð, sem barst, var upp á 380 500 kr. eða um 70% af kostnaðaráætlun við þetta verk. Þetta er ekki stórt verk, en það kom í ljós, þegar í það bárust allnokkur tilboð, að heimamenn stóðu þar best að vígi og komu með lægsta tilboðið. Hæsta tilboðið var hins vegar upp á 777 500 kr. Með því að bjóða út þetta litla verk sparaði Landsvirkjun sér allverulegt fé, eins og sjá má af þessum tölum. Þetta er dæmi um framkvæmdir eins og Vegagerð ríkisins framkvæmir úti um allt land á ári hverju og á að vera mjög auðvelt að bjóða út ef áhugi er fyrir hendi. Ég skil mætavel, að til þess verður Vegagerðin með nokkrum fyrirvara að vita í hvaða verk hún hefur fjármagn til framkvæmda. En það vill brenna við að þær ákvarðanir séu teknar mjög seint, og enginn vafi er á að mikið fjármagn fer forgörðum þegar þannig er að verki staðið.

Hjá Vita- og hafnamálaskrifstofunni virðast vera tiltölulega litlar útboðsframkvæmdir miðað við heildarframkvæmdir, og sama er reyndar að segja um Póst og síma, þó að þar sé greinilega vaxandi tilhneiging til útboðs í ákveðnum verkþáttum, eins og t. d. í sambandi við húsbyggingar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég minni í þessu sambandi á að ég og hv. 10 þm. Reykjv. höfum flutt frv. sem á að gera það ótvíræðara en áður að útboðsleiðina skuli fara. Enginn vafi er á að ríkisstofnanir hafa tilhneigingu til að skjóta sér bak við óljós ákvæði í núgildandi lögum og hafa þess vegna ekki farið útboðsleiðina í eins ríkum mæli og æskilegt væri. Við viljum taka af öll tvímæli um það þótt að sjálfsögðu hljóti að verða undantekningar frá því, en undantekningarnar eiga ekki að verða aðalreglan eins og oft hefur viljað brenna við.