30.11.1981
Sameinað þing: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

21. mál, votheysverkun

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur mælt hér fyrir þáltill. um votheysverkun. Í upphafi tillgr. segir svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstöfunum til að stuðla að almennari votheysverkum en nú er.“ Þar sem hér er um þýðingarmikið mál að ræða fyrir íslenskan landbúnað og um leið alla íslensku þjóðina vil ég fara nokkrum orðum um þessa þáltill.

Allar tillögur, sem ganga í þá átt að gera heyöflun og heyverkun betri og öruggari, tel ég að styðja beri svo sem framast er unnt. Það kemur bæði framleiðendum og neytendum til góða, ef rétt er að unnið, og þá er vel farið.

Till. gerir ráð fyrir að kynna bændum reynslu þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða mestu leyti á votheysverkuninni.

Votheysverkun hefur verið notuð hér á landi um margra ára skeið. Flestir eða allir bændur þekkja þessa heyverkun og hafa notað hana meira og minna á búum sínum, þ. á m. ég sem þekki þessa heyverkun vel. Ég notaði þessa heyverkun í nær 30 ár og tel mig því hafa nokkra reynslu þar sem ég verkaði tæplega helming heysins í vothey öll þessi ár til fóðurs handa á annað hundrað nautgripum. Reynsla mín hefur verið sú, að oftast tókst að verka vothey sem reyndist gott fóður til fóðrunar á nautgripum, en það kom greinilega í ljós að tíðarfar og grastegundir höfðu hér mikil áhrif á og hygg ég að flestir, sem verkað hafa vothey, geti staðfest það.

Mikil úrkoma gerir votheysverkun erfiðari og mun óvissari að því leyti að góð verkun fáist. Á Suðurlandi mælist úrkoma yfirleitt helmingi meiri en um norðanvert landið og mun það valda nokkrum erfiðleikum á verkun góðs fóðurs, jafnvel þó að íblöndunarefni séu notuð til að bæta heyverkunina. Mín skoðun er því sú, að misjöfn verkun hafi valdið mestu um að bændur nota ekki meira votheysgerð en nú er og að aukning hefur ekki orðið á þessari heyverkunaraðferð víðast hvar um landið. Einnig má benda á það, að ef verkun votheys misheppnast fylgir votheyi óþægileg og sterk lykt sem allflestir eða allir, sem umgangast fóðrun með votheyi, kunna illa og eiga erfitt með að losa sig við og eru því á móti notkun þess. Mun það hafa valdið miklu um að ekki hefur orðið meiri aukning á verkun votheys, að mínum dómi.

2. liður till. gerir ráð fyrir að kynna bændum nýjungar og tækniframfarir í votheysverkun og votheysfóðrun. Þetta atriði, að kynna bændum nýjungar og tækniframfarir, er mjög mikilsverður þáttur, því öll vinna og þá sérstaklega fóðrun er þyngri og erfiðari ef verkað er vothey, nema tækni verði stóraukin frá því sem nú er víðast hvar á landinu.

3. og 4. liður till. gera ráð fyrir að veita hærri stofnlán og framlög til byggingar votheyshlaðna en þyrrheyshlaðna og veita sérstök stofnlán og framlög til að breyta þurrheyshlöðum í votheyshlöður. Tel ég þennan lið till. nauðsynlegan ef hann gæti orðið hvatning til betri heyverkunar og um leið til meira öryggis og nýtingar verðmæta sem búið er að kosta til stórkostlegum fjármunum með kaupum á tilbúnum áburði og fleira.

Þessi þáltill. er áminning um þann vanda sem við eigum við að búa hvað heyöflun varðar. Þar sem tíðarfar er mjög breytilegt og óstöðugt í okkar landi gerir það íslenskum landbúnaði oft mjög erfitt um vik, þó að tæki og vélar hafi stuðlað að meiri öryggi í heyöflun á undanförnum árum. Er því þörf á hvatningu og að leitað sé að nýjum og öruggari leiðum ásamt því að fullkoma þær heyverkunaraðferðir sem fyrir eru í landinu.