30.11.1981
Sameinað þing: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

21. mál, votheysverkun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir, að ég mun styðja þessa till. þó að mér finnist raunar að það mætti í sjálfu sér kanna fleiri leiðir til heyverkunar vegna þess hve aðstaða á landinu er misjöfn. Menn hafa t. d. á nokkrum bæjum, ég skal ekki segja hvað mörgum, sett upp súgþurrkun þar sem er heitt vatn og látið blása í gegnum element með mjög góðum árangri þrátt fyrir mikil votviðri. Þar sem ég er kunnugastur telja bændur að það komi yfirleitt betur út hjá sér að þurrka heyið og nota súgþurrkun en setja í vothey.

Það er á margt að líta í þessu efni. Það er mjög dýrt að hafa t. d. tæki bæði til votheysverkunar og þurrheysverkunar. Þar sem eru gamlar byggingar og ekki hefur verið gert ráð fyrir að gefa vothey er í mörgum tilvikum mjög óþægilegt að koma slíku við öðruvísi en breyta þá byggingunum, og það er oft erfitt og kostnaðarsamt. Þannig þarf að athuga þetta frá mörgum sjónarhornum. En séu menn að byggja upp t. d. gripahús og hlöður, ekki síst á þeim stöðum þar sem úrkoma er veruleg og hætta á óþurrkum, á þeim landssvæðum þar sem votviðri eru meiri en t. d. þar sem ég þekki til, þá er auðvitað sjálfsagt að hvetja menn til að byggja fyrst og fremst á votheysverkun og byggja þannig upp frá grunni. En hitt getur verið álitamál, hvernig eigi að fara með þar sem búið er að byggja upp áður, bæði vegna þeirra gripahúsa, sem eru fyrir hendi, og eins vegna heyhlöðu.

Mér kemur það mjög á óvart, sem kom fram hjá 1. flm. þessarar till., að styrkir og lán út á votheyshlöður væru minni en út á þurrheyshlöður. Það var árið 1977 sem við munum hafa breytt þessum reglum. Þá lágu fyrir útreikningar um þetta. Ef ég man rétt var talið að styrkurinn væri um 27% þegar við færðum lánin niður í 40%, þannig að styrkur og lán voru þá talin vera 67%. Mér koma þessar tölur því mjög á óvart og ég mun láta athuga þetta og fá nýjar upplýsingar hvernig þessi mál standa. Eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan eiga sæti í stjórn Stofnlánadeildar bæði formaður Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands og hafa aldrei komið frá þeim athugasemdir eða upplýsingar um þær breytingar sem hljóta að hafa orðið á styrknum á þessu tímabili. Ég get ekki skýrt hvernig á þessu stendur. En ef það kemur í ljós, að þessar tölur eru réttar, og ég veit að hv. 1. flm. stendur í þeirri trú, þá verður þetta athugað og því verður breytt í það horf sem við töldum að við hefðum gert 1977.

Ég hefði sem sagt talið að þessi till. hefði mátt vera með almennari orðum, þ. e. að athuga alla möguleika til að gera heyið — þetta fer eftir því hvar það er á landinu — þannig að það hafi meira fóðurgildi. Nú er t. d. verið að prófa nýja aðferð norður í Eyjafirði: að köggla þurrhey og blanda í það ýmsum efnum. Það er talið af fóðurfræðingum að búpeningur geti þannig umsett miklu meira fóður. Hver veit nema þarna sé komin leið til þess að við þurfum minna á kjarnfóðri að halda. Ég vil ekki fullyrða þetta, en þeir, sem standa að þessum tilraunum núna, telja að þarna sé mjög álitleg aðferð. Þórarinn Lárusson sagði í útvarpi eða sjónvarpi hér á dögunum, að hann hefði trú á að þessi aðferð mundi verða almenn innan tíðar í landinu.

Þessa till. styð ég heils hugar, en samt hefði ég verið enn þá ánægðari með hana ef hún hefði náð til annarra heyverkunaraðferða einnig, að það væri kannað hvaða leiðir væru bestar fyrir bændur í sambandi við almenna heyverkun.

Ég vil taka undir margt af því sem kom fram hjá 1. þm. Suðurl. áðan um misjafna reynslu bænda af að gefa vothey, sérstaklega sauðfé. Ég man eftir því, að þegar þessi heyverkunaraðferð ruddi sér til rúms fyrst í Eyjafirði voru ýmsir tregir til að gefa votheyið vegna þeirrar lyktar sem af því er. Á þeim stöðum var það oft sem votheysturnarnir voru ekki notaðir eða jafnvel sett þurrhey í þá. Þetta var sú reynsla sem Eyfirðingar höfðu af votheysverkun. Hins vegar hef ég talað við marga Vestfirðinga sem nota einvörðungu vothey og láta mjög vel af. En þegar er um sauðfé að ræða verða fjárhúsin að vera góð og með grindum. Það er margt á að líta í þessu efni. Það er ekki einungis nóg að breyta þurrheyshlöðunum. Það er misskilningur. Það þarf líka að kaupa tæki, það þarf líka að athuga húsin, og fleira kemur til. En allt, sem stuðlar að bættri heyverkun á hvaða sviði sem er, er stórt framfaraspor.