02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv. til laga, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er staðfesting á brbl. með ýmsum viðaukum sem hafa tekið breytingum á undanförnum vikum. Það er skemmst frá að segja, að þetta frv. ásamt þeim brtt., sem við það eru fluttar, felur í sér enn eina bráðabirgðaaðgerðina af hálfu stjórnarinnar, ríkisstj. og stjórnarsinna. Með því er ætlunin að fleyta atvinnulífinu í fáeinar vikur en jafnframt að heimila ríkisstj. að framvísa reikningum fyrir stjórnleysið til skattborgaranna einhvern tíma síðar.

Í þessu frv. og þeim brtt., sem við það eru fluttar af meiri hl. nefndarinnar og að efnisatriðum til hafa áður verið fluttar af hæstv. forsrh., eru í raun þrjú atriði: Í fyrsta lagi upptaka á gengismun af framleiðslu sem kemur til útflutnings. Í annan stað opin heimild til fjmrh. til þess að veita ríkisábyrgðir á lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Og í þriðja lagi millifærsla á endurkeyptum afurða- og rekstrarlánum, sem endurgreidd yrðu af Seðlabanka Íslands milli deilda í Verðjöfnunarsjóðnum eða kannske nánar tiltekið frá einstökum framleiðendum í mismunandi greinum og fyrst og fremst til deildar í Verðjöfnunarsjóðnum sem hefur með frystingu að gera.

Í þessu síðasttalda atriði felst það, að eignir verða fluttar frá einni verkunargrein í sjávarútvegi til annarrar, saltfisks- og skreiðarframleiðslan er látin greiða með frystingunni. Með þessu munu saltfisksneytendur í Portúgal og þeir, sem kaupa skreiðina og neyta hennar í Nígeríu, í rauninni standa undir niðurgreiðslu á frystum fiski ofan í ríkustu þjóð álfunnar, ríkustu þjóð veraldar vildi ég sagt hafa — standa undir niðurgreiðslu á frystum fiski handa Bandaríkjamönnum.

Það þarf tæpast að taka það fram, að aldrei fyrr hefur það verið gert að flytja til verðmæti á milli deilda sjávarútvegsins með þessum hætti. Fyrir því er ekkert fordæmi. Lög Verðjöfnunarsjóðsins og eðli hans gera ekki ráð fyrir því, að menn hagi sér með þessum hætti. Í þessu felst jafnframt eignaupptaka hjá verkendum í einni grein til styrktar framleiðslu í annarri grein. Í þessu felst jafnframt niðurgreiðsla á frystingunni. Undir henni eru verkunaraðilar í saltfiski og skreið látnir standa. Þetta er með öllu ótækt og stefnir grundvelli Verðjöfnunarsjóðsins þar að auki í voða.

Í annan stað eru ákvæði um skil á gjaldeyri með þeim hætti, að gera skuli upptækan gengismun upp á 2.286% á framleiðslu sem hefur verið framleidd fyrir 9. nóv. 1981, en þar á eftir 2.136%,. Upptaka á gengismun af þessu tagi á sér fordæmi, en það hefur þá verið gert við þær aðstæður að um verulega gengisbreytingu hafi verið að ræða og þannig hugsanlega verulegan hagnað hjá einstökum aðilum sem ástæða þætti til að jafna út yfir greinarnar.

Þegar ákveðið var að afurðalán yrðu veitt með viðmiðun í erlendri mynt eða í erlendri mynt, þá var því heitið, að upptöku á gengismun af þessu tagi yrði hætt. Það eru ekki heldur fordæmi fyrir því að upptaka fari fram með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, þ. e. þegar um svo óverulegan mun er að ræða miðað við það, að hér er í rauninni og hefur verið gengissig og sveiflur í gengi svo miklar sem raun ber vitni, enda hefur þurft að fikta með þessar tölur fram og aftur, og þá eru engin eðlileg rök fyrir því að taka upp þennan gengismun og flytja hann í Verðjöfnunarsjóðinn og ástæðulaust með öllu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að fjmrh. geti veitt heimild til ríkisábyrgðar fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðsins og ef slík ríkisábyrgð liggi fyrir sé stjórn Verðjöfnunarsjóðs heimilt að taka lán í því skyni að gera einstökum deildum sjóðsins kleift að standa undir greiðslum.

Þessar aðgerðir eiga sér ekkert fordæmi. Í lögum um Verðjöfnunarsjóðinn kemur skýrt fram að honum er ekki ætlað að greiða umfram getu sína á hverjum tíma, honum er ekki ætlað að taka lán. Tilganginum með Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er breytt a. m. k. og sem hagstjórnartæki verður hann tiltölulega gagnslítill þegar farið er inn á þessa braut. En það sem meira er, varðandi þetta tiltekna atriði og hvernig nýta skuli í því tilviki sem þegar hefur komið upp, þá er upplýst að skilmálarnir fyrir því, að greinin endurgreiði það lán sem hér á að veita með ríkisábyrgð, eru slíkir, að það verður að teljast útilokað með öllu að til endurgreiðslunnar komi. Þá mun greiðsla lánsins falla á ríkissjóð.

Þeir forsvarsmenn í greininni, sem best þekkja til og hafa um þessi mál vélað, töluðu afdráttarlaust um að þannig mundi fara að ríkissjóður stæði undir þessu láni. Þar með er reikningnum framvísað til skattborgaranna, þar með er sjávarútvegurinn kominn á sömu braut og landbúnaðurinn um það, að landsmenn séu skattlagðir til þess að greiða niður verð á útflutningsafurðum. Fordæmið úr landbúnaðinum er nógu slæmt, en út yfir tekur ef þetta á nú að gerast í sjávarútveginum líka.

Ég ítreka það, að þær aðgerðir, sem hér er ætlunin að lögfesta, eru í algjörri andstöðu við eðli og tilgang Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og algjört fráhvarffrá þeim lögum sem um hann hafa gilt. Þetta frv. leysir engan vanda, en það frestar því að leitað sé raunhæfra úrlausna. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. leggur til að þetta frv. verði fellt.