02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður. Hæstv. ráðh. var nokkuð úrillur og talaði um að við ömuðumst við skammtímalausnum. Við höfum þurft að horfast í augu við margar skammtímalausnir á undanförnum árum í efnahagsmálum, bæði í sjávarútvegi og öðru. Þetta er hárrétt hjá hæstv. ráðh. En það er eins og mig minni að hans flokkur hafi lumað á einhverjum varanlegum úrræðum í efnahagsmálum og haldið því fram upp á síðkastið, að þessi úrræði væru nú að sýna árangur. Í ljósi þess, að niðurtalningin er í fullu gildi, að mér skilst, að ná verðbólgunni niður í sama stig og í nágrannalöndunum, og hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir þessari stefnu, þá hélt ég að hæstv. ráðh. þyrfti ekki að amast við því, þótt bent sé á að hæstv. ríkisstj. hefði vikið út af þessari niðurtalningarleið sinni með þessum bráðabirgðalausnum sí og æ.

Hæstv. ráðh. hélt því fram að við hefðum talað um óguðlega millifærslu og að það væri fordæmi fyrir gengisupptöku, upptöku gengismunar í janúar árið 1978, þegar Matthías Bjarnason hefði verið sjútvrh., — gengismunar sem þá hefði verið greiddur í Verðjöfnunarsjóð. Það er talsverður munur á því ef gengismunur einstakra sjávarafurða er gerður upptækur og færður í viðkomandi deildir. (Gripið fram í.) Það kann að vera að hæstv. ráðh. hafi þar eitthvað um fjallað. Ég skal ekkert um það segja. En á hinn bóginn er þar um að ræða grundvallarmun ef um það er að ræða að hver deild fái sitt í sinn hlut. Ég hygg nú að gengið hafi verið þannig frá því á þessum tíma, að þar hafi hver fengið sitt, að út úr því hafi verið reiknað að deildirnar fengju sinn gengismun. En ég er fús til þess að hafa það sem sannara reynist í þessu og fús til þess að fá upplýsingar um það.

Formaður Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins mætti á okkar fundi í fjh.- og viðskn. og hann staðfesti það, þegar við spurðum hvort þarna væri um að ræða nokkurt fordæmi, að svo virtist ekki vera, og ég vil trúa því þangað til annað kemur í ljós, að hann hafi sagt okkur satt og rétt frá. Eins og kemur fram í till. okkar Eyjólfs Konráðs teljum við síður en svo við það að athuga, hvort sem gengismunur er tekinn á þann hátt sem gert er ráð fyrir í brtt. meiri hl. n., úr Seðlabankanum, eða hann er tekinn eins og gert er samkv. 1. gr. — þá teljum við síður en svo við það að athuga, að framleiðendur einstakra sjávarafurða njóti þessa gengismunar, annaðhvort með því að fá hann í hendur sjálfir eða þá að viðkomandi deild Verðjöfnunarsjóðs njóti þessa gengismunar, vegna þess að okkar grundvallarskoðun er sú, að hver og einn framleiðandi sé eigandi þess fjármagns sem hver deild Verðjöfnunarsjóðs á þá og þá. Þess vegna talaði ég um eignaupptöku.

Ég vil upplýsa hvernig þessu fjármagni hefði verið ráðstafað samkv. þessari till., ef hver og einn framleiðandi hefði fengið gengisuppfærslunni skipt í hlutfalli við það sem hann hafði flutt út af sjávarafurðum. Þá hefðu skreiðarframleiðendur fengið 10.9 millj. og saltfisksframleiðendur 7.5 millj. En þeir fá samkv. þessu frv. 5 millj. í sinn hlut af þessari gengisuppfærslu sem á að vera uppbót á þeirra óhagræði vegna gengistryggðra afurðalána. Þeir fá 5 millj. í staðinn fyrir það, að ef reiknað hefði verið af þeirra útflutningi hefðu þeir fengið 18 millj. kr. rúmlega. Það er þetta sem við erum að gagnrýna. Það er þarna sem er verið að færa í milli. Nákvæmlega sama væri að ákveða að taka gengismun sjávarútvegsins og nota hann til þess að styðja við bakið á ullariðnaðinum. Hér er um að ræða tilfærslu milli greina sem hefur ekkert fordæmi. Með þessum lagafyrirmælum er verið að taka fé af skreiðar- og saltfisksframleiðendum og raunar fleirum og færa yfir til Verðjöfnunarsjóðsdeildar frystiiðnaðarins, gera þetta fjármagn að þeirra eign.

Ég skal ekki orðlengja þetta miklu frekar. Ég lagði áherslu á það í mínum málflutningi, að í 1. gr. væri komið inn á nýmæli sem aldrei hefði sést í lögum áður. Það er sjálfdæmi ríkisstj. um það, hvort hún tekur gengismuninn eða ekki. Mér skilst að hæstv. ríkisstj. hafi notað þessi ákvæði brbl. þannig að hún hafi ekki tekið gengismun af frystum sjávarafurðum. Þar er um að ræða nýmæli. En ég endurtek það, að hefði sú grein verið eingöngu um að taka gengismun í réttu hlutfalli af framleiðendum og greiða með því skuldir Verðjöfnunarsjóðs, þá hefðum við út af fyrir sig ekki haft neitt við það að athuga.

Ég vil svo að lokum segja það, að oft á tíðum hafa ýmsar greinar sjávarútvegsins lent í vandræðum. Hvað skeði þegar ekki var hægt að flytja skreið úr landinu á annað ár eða jafnvel þriðja ár? Var þá gripið til þess ráðs að taka gengismun af frosnum fiski og greiða til skreiðarframleiðenda? Ég held að hæstv. ráðh. geri sér grein fyrir því, á hve hálum ís hann er í þessu efni. Hann hlýtur að hafa þau tengsl við framleiðendur sjávarafurða og við þá sem standa yfirleitt í sjávarútvegi, að hann hlýtur að vita það — og það skulu vera mín lokaorð, að allir hagsmunaaðilar, sem ég hef rætt við um þetta mál, telja þetta vera á ystu nöf um það að leggja núverandi verðákvörðunarkerfi og kerfið, sem við höfum komið okkur upp, Verðjöfnunarsjóð fiskiðttaðarins, leggja það hreinlega í rust.