20.10.1981
Sameinað þing: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

33. mál, veðbókarvottorð í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við þessari spurningu, og tek undir það með honum, að í starfsemi eins og þessari, þar sem svo mikið er um hvers konar vottorð sem einstaklingar þurfa á að halda, bæði að því er varðar húsnæði þeirra, bifreiðar og annað slíkt, er auðvitað afar brýnt að beitt sé tölvutækni til að flýta fyrir allri vinnslu. En hins vegar þykja mér satt að segja þau svör, sem hann las frá borgarfógetanum í Reykjavík, vera afar léttvæg.

Þess er getið, að bankar og fasteignasalar, held ég a. m. k. að hafi verið talið upp, geti pantað veðbókarvottorð símleiðis og þurfi ekki að bera þessa fyrirhöfn, en hins vegar megi allur almenningur það ekki. Honum er ekki treystandi. Þetta, þó að í smáum stíl sé, þykir mér enn eitt dæmið um hið dæmalausa virðingarleysi sem ríkisvaldið iðulega gerir sig bert að gagnvart einstaklingum. Jafnvel þó að svo hafi verið á einhverjum gefnum tíma að 1450 pappírar hafi ekki verið sóttir, — og ég veit ekki nákvæmlega eða náði því ekki, ég held að það hafi ekki verið sagt á hve löngum tíma það var, — þá sýnist það vera sem dropi í hafið þegar þess er gætt að það eru á annað hundrað umsóknir á dag hjá þessu tiltekna embætti. Hvers á allur sá mikli fjöldi að gjalda, langoftast fólk í vinnu? Þá hugi menn bara að vinnustundunum sem tapast við það að vera að fara yfir hálfa eða heila borgina eftir þessum lítilvæga pappír sem menn samt þurfa á að halda. Þetta er því miður svar af því tagi; þó að hér eigi miklir heiðursmenn í hlut, bæði ráðh. og yfirborgarfógetinn í Reykjavík, að það er dæmi um valdhroka að geta ekki létt þessari fyrirhöfn af fólki og leyft því að hringja eftir þessum pappírum og sækja þá daginn eftir. Það er þá hægt að rukka hina, sem um þessa pappíra sækja, en þurfa svo af einhverjum ástæðum ekki á þeim að halda og sækja þá væntanlega ekki af þeim ástæðum, hafa þá í reikning og láta þá greiða. Einhvern tíma þurfa þeir á þessum pappírum að halda.

Svör yfirborgarfógetans í Reykjavík, sem hæstv. ráðh. gerir að sínum, eru ákaflega léttvæg. Og enn á ný kemur fram þetta virðingarleysi gagnvart fólki. Reykjavík er enginn smábær lengur. Hún er orðin stórborg. Hér er um miklar vegalengdir að fara. Þetta veldur fjölmörgum einstaklingum óþarfaamstri og virðist vera handhægt að breyta þessu, aðeins að menn geti hringt í þetta embætti og pantað þennan pappír og greitt hann þegar hann er sóttur. Ef menn sækja hann ekki verða þeir væntanlega í reikningi hjá embættinu, svo að það kemur fyrr eða seinna að því að þeir borga fyrir þennan pappír sinn.

Íslenska ríkið stendur ekki og fellur með þessu máli, mér er það mætavel ljóst, en engu að síður eru það mál af þessu tagi sem gera fólk bæði reitt og leitt gagnvart ríkisvaldinu. Það er alger óþarfi að hafa þetta með þessum hætti og ég vil beina þeirri áskorun til dómsmrh. — ég hygg að það þyrfti ekki nema eitt símtal frá honum til þess að kippa þessu í liðinn og gera þessu embætti að koma fram við fólk af reisn og virðuleika, en ekki eins og gert er í þessum efnum. Það er ástæðulaust af ríkisvaldinu að vera að egna fólk á móti sér með þessum hætti þegar að fyrirhafnar- og kostnaðarlausu er hægt að gera miklu betur við almenning í landinu.

Ég endurtek því áskorun mína til hæstv. ráðh., að þetta, sem virðist nú vera algert smámál, er það þó ekki fyrir hinn, sem þarf að fara yfir hálfa borgina tvo daga í röð. Vonast ég til að þessu verði kippt í liðinn og ráðh. láti embættismanninn segja sér fyrir um hvað sé hægt og hvað sé ekki hægt. Þetta er hægt og hægt með lítilli fyrirhöfn. Úr því að þetta er hægt fyrir banka og fasteignasala, eins hér var lesið, er þetta líka hægt fyrir almenning hér í borginni.

Ég segi því enn og aftur að þetta er hægt að laga. Þetta er lítið mál, en getur varðað miklu.