02.12.1981
Efri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að í umræddum lagagreinum, sem hér hefur verið vitnað til, er hvergi sagt að það, sem renni til Verðjöfnunarsjóðsins, sé tekið áður en skipt er milli greinanna. Eins og greinarnar hljóða er verið að tala um skuld Verðjöfnunarsjóðs við ríkissjóð eðu hugsanlega skuld. Þessar skuldir er hugmyndin að greiða af þeim gengismun sem þarna er tekinn upp. Það er ekkert samkv. þessum greinum sem segir að það skuli gert án tillits til þess, úr hvaða grein sjávarútvegsins um er að ræða gengismun.

Það stendur í 2. gr. t. d. í brbl. frá 1978: „Enn fremur skal endurgreiða ríkissjóði það, sem hann kann að þurfa að greiða“ — þetta var ekkert nýtt eins og þegar hefur verið upplýst, — „til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til þess að gera honum mögulegt að standa við greiðslu bóta í samræmi við viðmiðunarverð.“ Og síðan kemur í 3. gr. „að fé það, sem kemur á reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum samkv. 2. gr. umfram greiðslur samkv. 4. og 5. mgr. þeirrar lagagreinar“ — sem eru um annað —„ skal lagt í sérstakan gengismunarsjóð sem varið skal í þágu sjávarútvegsins með eftirgreindum hætti.“ Þess vegna er ekkert í þessum lögum sem segir að það sé ekki tekið af einni grein fyrir aðra grein, ef skuldir séu í frystingu, þá sé tekið af frystingunni til að greiða þær skuldir. Ég stend eindregið á þeirri skoðun, að þannig hafi þetta verið framkvæmt. Þar styðst ég við það, að þeir, sem hafa starfað í greininni og í Verðjöfnunarsjóðnum, hafa einmitt talað um það alveg afdráttarlaust á nefndarfundum, að aldrei hafi verið flutt á milli deilda með þeim hætti sem brtt. við 2. gr. felur í sér. Það má reyndar upplýsa líka, að í bréfi frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins kemur fram að stjórn sjóðsins hafi ekki mælt með því, að tekin yrðu lán, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. þessa frv.

Það má enn fremur vitna til þess, að í bókun fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins frá 7. nóv. 1980 bókar formaðurinn afdráttarlaust, „að samkv. lögum sjóðsins sé hvorki heimilt að færa fjármagn á milli afurða né greiða umfram innistæðu.“ Hér er því greinilega verið að fara inn á nýja braut. En það er ekki bara það sem ég vil vekja athygli á vegna þessarar umr., heldur ekki síður hitt, að það ákvæði, sem hér er sérstaklega gert að umtalsefni, fjallar ekki um gengismunarsjóð í þeim skilningi sem við höfum verið að fjalla um hann áður, heldur fjallar það um endurgreiðslu á gengisuppfærslu á afurðaog rekstrarlánum. Afurða- og rekstrarlánin eru samningur milli bankanna og framleiðandans. Síðan er ákveðið að breyta þeim samningi. Það fé, sem þarna er verið að taka, er í rauninni frá framleiðandanum sjálfum, og þar er farið inn á það að flytja milli greina með þeim hætti sem ekki eru fordæmi fyrir.