20.10.1981
Sameinað þing: 6. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

33. mál, veðbókarvottorð í Reykjavík

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Út af orðum hv. fyrirspyrjanda vil ég aðeins taka það fram, að ég held að það sé hvorki um að kenna virðingarleysi né valdhroka þó að þessi háttur sé hafður á um afgreiðslu veðbókarvottorða við borgarfógetaembættið í Reykjavík. Auk þess stendur þetta til bóta. En það má geta nærri að það er nokkur munur á því þegar um fasta viðskiptavini embættisins er að ræða. Það er þó alltaf nokkurn veginn öruggt að þeir koma og sækja vottorðin, en þau leggjast ekki upp í hrúgur vegna þeirra sem panta þau símleiðis og hirða síðan ekki um að sækja þau. Það er sjálfsagt, eins og í öðrum efnum, að taka þessi orð til greina, enda sagði ég að það væru uppi athuganir á því að bæta hér um betur.

Ég vil að lokum geta þess, að borgarfógetaembættið hefur nú alla aðstöðu til að þjóna viðskiptavinum sínum vel. Það er komið í stórt og gott húsnæði til margra ára á öruggan stað. En þegar ég tók við ráðherraembætti átti að fara að bera borgarfógeta út á götu. Það var svo að því saumað, sjálfu borgarfógetaembættinu í Reykjavík, að það var húsnæðislaust og lá við að það yrði borið út. Varð að hafa hröð handtök á því að koma því undir þak og útbúa bærilega aðstöðu til að það gæti gegnt hlutverki sínu.