02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

80. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera nokkra athugasemd við þetta frv. til laga á þskj. 83. Tek ég þó strax fram að ég er samþykkur efni frv. og byggingu flugstöðvarinnar, sem þar getur. En ég tek undir með 1. flm. og frsm. að það kemur ekki til mála, eins og ég hef áður getið um í þingnefnd, að einn flokkur eða hópur manna á Alþingi eða í nefnd Alþingis geti komið í veg fyrir þann rétta framgang mála, að mál verði rædd á opnum þingfundum og afstaða til þeirra mála tekin þar. Í mínum huga getur því enginn málefnasamningur ráðið um vilja Alþingis, heldur er málefnasamningur eingöngu sáttmáli milli þeirra, sem hann samþykkja, og ekkert annað. Hann bindur ekki Alþingi eða alþm. í heild. Þess vegna tel ég eðlilegt að þetta mál, eins og önnur lík sem hugsanlega geta komið upp, verði rætt á opnum fundum Alþingis og alþm. taki þar afstöðu.

Við frv. sjálft vil ég leyfa mér að gera athugasemd, — ekki við 1. gr., ég get fellt mig við hana óbreytta. En ég vil gera athugasemd við 2. gr., með leyfi forseta, en hún hljóðar svo: „Utanrrh. hefur stjórn á byggingu og rekstri stöðvarinnar.“ — Ég tel, eins og margundirstrikað er af flm. og öllum þeim sem eru hlynntir byggingu flugstöðvarinnar nýju, að hún eigi samkv. íslenskum lögum að heyra undir samgrn. og Flugmálastjórn á sama hátt og allir aðrir flugvellir og flugstöðvarbyggingar á Íslandi og þar með líka talin sú flugstöð sem nú er á Keflavíkurflugvelli þó þar sé um að ræða samnotkun varnarliðsins og íslenskra aðila. Ég legg áherslu á að þetta er ekki vantraust á utanrrh. né heldur embættismenn utanrrn. né varnarmálanefnd sem slíka, en varnarmálanefnd er íslenski hlutinn af þeim sem ráða varnarmálum á Keflavíkurflugvelli og fyrir landið allt. Ef við tengjum utanrrn. við byggingu og rekstur á þessari stöð erum við ekki að aðskilja íslenskan flugrekstur og varnarliðið. Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að taka vel eftir þegar ég undirstrika að það er ekki af vantrausti á hann eða embættismenn hans að ég geri þessa athugasemd, heldur eingöngu vegna þess að ég tel að íslensk lög séu þess eðlis, að samgrn. eigi að fara með stjórn á flugstöðvarbyggingunni eða Flugmálastjórn undir samgrn. og ráðh. þess.

Þá er einnig athugasemd við 3. gr. Þar segir: „Flugstöðin skal undanþegin öllum sköttum og opinberum gjöldum.“ Ég er ekki reiðubúinn að samþykkja að flugstöðin verði undanþegin þessu eftir að hún er byggð. Ég get fellt mig við að allt, sem þarf að nota af tækjum og efni til að koma henni í endanlegt rekstrarhorf, verði undanþegið sköttum og opinberum gjöldum. Það heyrir þá undir þau lög sem ná yfir varnarliðið sjálft núna. Það borgar engin aðflutningsgjöld af þeim tækjum sem það notar, enda koma þessi nýju tæki í staðinn fyrir önnur sem varnarliðið er að taka við í gömlu byggingunni. En að byggingartímabilinu loknu og þegar rekstur er hafinn veit ég ekki hvort er rétt að undanþiggja þann rekstur frekar en annan rekstur í landinu þeim sköttum og skyldum sem á hvíla gagnvart opinberum aðilum. Er ég þá m. a. og ekki síst með sveitarfélagið og tekjur þess í huga.

Með leyfi forseta vil ég enn fremur benda á að í 4. gr. er tekið fram að utanrrh. setji reglugerð um rekstur stöðvarinnar. Ég vil ekki gera neina sérstaka athugasemd við það, en ég tel að samgrh. ætti þar að koma inn í, a. m. k. með utanrrh.

Ég undirstrika að í grg. kemur fram að mannvirkið skuli vera undir alíslenskri stjórn og aðskillð frá athafnasvæði varnarliðsins. Með Þessum orðum í grg. hljóta flm. að vera að undirstrika að tengslin við varnarliðið verði engin í rekstri á eftir. Það undirstrikar enn betur þann málflutning sem ég er hér með, að samgrh., en ekki utanrrh., á að fara með þessi mál.

Það kemur líka fram í grg., að sú flugstöð, sem nú er í notkun, er gömul timburbygging sem meira hefur þegar verið byggt við en reglur leyfa. Ég held að ekkert hafi verið byggt þarna án heimilda. Reglunum hefur þá verið breytt með leyfunum. Varnarliðið er að taka yfir þessa stöð og ég lít á það sem sölu til varnarliðsins, ekki framlag varnarliðsins til nýju byggingarinnar. Ég hefði helst ekki viljað kalla það að það fjárfesti í nýju flughlaði og öðru sem þarf til flugrekstrar og rekstrar stöðvarinnar og leggi þar að auki 20 millj. dollara til sjálfrar byggingarinnar. Þetta er ekki framlag. Við erum að selja gömlu stöðina með flughlaði og öllu saman og fá fyrir það þessa greiðslu. Hér er því ekki um framlag að ræða, heldur hreina sölu. Hvort hægt er að meta söluna góða fyrir okkur og slæma fyrir þá eða öfugt skal ég ekkert dæma um. Ef hún er góð fyrir okkur og við getum byggt með eigin fé og 20 millj. dollurum að viðbættu því, sem kostar að gera flughlað, erum við að selja á góðu verði og ættum að fagna því, en ekki að reyna að flækja það með öðrum málflutningi um að hér sé eitthvert framlag erlendra aðila sem séu óhreinir peningar sem við eigum ekki að taka við. Ég vil breyta hugsunarhættinum í þessu, því það fer ekkert á milli mála að alveg er sama hvort hús er sérhannað eða ekki sérhannað. Ef hús eða skýli er til þar sem slys á sér stað er það notað hvernig sem það er útbúið. Það er skjól. Og ef við getum útbúið þessa nýju byggingu sem betra skjól og fullkomnara til að taka við slösuðu fólki og veita því fyrstu aðstoð ber okkur skylda til að hafa þá framsýni að geta búist við því að einhvern tíma verði slys, jafnvel flugslys, á Keflavíkurflugvelli og að stöðin gæti þá hugsanlega verið vel undir það búin að taka við þeirri starfsemi sem þá þarf skyndilega að setja í gang.

Ég vil undirstrika að í síðustu linum í þessari grg. stendur, með leyfi forseta:

„Flugstöðin verður alíslenski mannvirki, rekið eingöngu af Íslendingum og mun bera þann svip, sem Íslendingar setja á hana.“

Með þessum orðum vil ég undirstrika enn þá einu sinni að okkur ber að hafa hvorki varnarliðið, varnarmáladeild né utanrrn. með í þessu. Ef þetta verður samþykkt á Alþingi erum við að slíta starfsemi íslensku flugfélaganna, íslenska starfsemi í alislensku mannvirki, frá starfseminni eins og hún er nú á Keflavíkurflugvelli.