02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

109. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 1. flm og frsm fyrir þessu frv. er innihald þess einn þátturinn í því að jafna aðstöðu fólks þannig að minnkaður sé sá mikli munur sem nú er á lífskjörum eftir því hvar einstaklingar búa á landinu. Þetta mál kemur mjög inn á samningamál þeirra aðila innan verkalýðshreyfingarinnar sem hafa ekki nú þegar kokgleypt ASÍ samkomulagið eins og frá því var gengið, t. d. Alþýðusambands Vestfjarða. Það kemur mjög inn á þetta svið einmitt, og það hefur óskað eftir viðræðum við hæstv. ríkisstj. og svörum um tiltekin efni. Ég hefði því gjarnan viljað, herra forseti, að hæstv. forsrh. væri viðstaddur umr. um þetta mál. Sé hann ekki nálægur vildi ég gjarnan að umr. yrði frestað.