03.12.1981
Sameinað þing: 30. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

115. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það kemur að vísu nokkuð flatt upp á mig, að mál þetta skuli vera tekið til umr. nú á þessum örstutta fundi, 25. eða 26. mál eða hvar það nú er á dagskránni. Engu að síður ætla ég að segja hér nokkur orð.

Ég þarf auðvitað ekki að hafa um það mörg orð, að Sjálfstfl. styður þetta samkomulag. Ef aðdragandi þess er rakinn í örstuttu máli, þá vita allir hv. þm. að á haustþingi 1978 var flutt þáltill. um að samningar yrðu teknir upp við Norðmenn um hafréttarmálefni og Jan Mayensvæðið. Það voru raunar þrjú fyrstu mál þess þings sem öll fjölluðu um hafréttarmál, og það er upphaf þess að nú er þetta mál komið á lokastig.

Ég held að engum geti blandast um það hugur, að við Íslendingar höfum unnið mjög mikinn pólitískan sigur sem mun til þess fallinn að gæta þýðingarmestu hagsmuna okkar um alla framtíð. Menn sjá það kannske nú, þegar loðnustofninn virðist vera mjög á undanhaldi, hvaða gífurlega þýðingu það hefur að við skyldum ná samkomulagi um loðnuveiðarnar á Jan Mayen-svæðinu og að við skyldum fá að ákveða hámarksafia loðnunnar. Það eitt hefði verið nægilegt til að réttlæta að þessi barátta var tekin upp.

Við skulum ekki fara í neina flokkadrætti um það, hverjum sé að þakka sá ávinningur sem náðst hefur. Undir lokin stóðu menn meira og minna saman, og þegar menn fóru að átta sig á því, að við Íslendingar ættum réttindi á þessum svæðum og að við gætum haldið á okkar málstað gagnvart frænd- og vinaþjóð okkar, þá bættust ætíð fleiri og fleiri í hópinn sem vildu halda þessum rétti til haga og gera heilbrigða og skynsamlega samninga við okkar nánustu vina- og frændþjóð. Og eins og hæstv. utanrrh. hefur réttilega lýst hefur þessi lokaáfangi nú náðst og annar stór áfangi vorið 1980, eins og mönnum er enn í fersku minni.

Það er einnig rétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að það samkomulag, sem nú liggur fyrir til samþykktar, hefur mikla þýðingu að þjóðarétti. Því var haldið fram á upphaflegum fundi Norðmanna og Íslendinga hér í Ráðherrabústaðnum sumarið 1980, 30. júní minnir mig að það hafi verið, af hálfu norskra ráðamanna, að ef um sameign eða sameiginlega nýtingu yrði að ræða, þá kynni að vera um að ræða nýja þjóðréttarreglu og jafnvel brot á anda hafréttarsáttmálans. Þetta var auðvitað alrangt. Þetta var einmitt í anda hafréttarsáttmálans, að þjóðirnar reyndu að leysa sín deilumál með hverjum þeim hætti sem skynsamlegt væri.

Hitt er alveg augljóst, að þetta samkomulag, sem staðfest verður nú væntanlega, gerir það að verkum að ýmsar aðrar þjóðir víða um veröld munu skoða hug sinn á ný og vita hvort þær geti ekki leyst sín deilumál út af sundum, út af eyjum, út af hafsbotni, út af veiðum o. s. frv. með einhvers konar svipuðum aðgerðum og Íslendingar og Norðmenn nú hafa gert.

Ég hygg að það sé rétt sem Hans G. Andersen ambassador, sem á auðvitað gífurlega mikinn þátt í þessu máli öllu, sagði í blaðaviðtali, að það væri leitun að þjóðum sem hafa leyst sín deilumál með slíku samkomulagi, en það verður kannske ekki leitun að þeim þjóðum þegar fordæmið er fengið.

Svo ég víki nú frá Jan Mayen-málinu beint og að því sem er miklu mikilvægara nú — því að Jan Mayen-málið heyrir fortíðinni til — þá er það Roehall-málið svonefnda. Það kom fram í viðræðum við fulltrúa Breta á Genfar-ráðstefnunni í sumar, að þeir höfðu mjög rækilega kynnt sér Jan Mayen-samkomulagið og töldu það hið merkilegasta, því að þar er verið að leysa deilumál nágranna- og vinaþjóða með samkomulagi um samnýtingu og í rauninni sameign. Ég lít svo á að hin sameiginlega nýting hafsbotnsins sé í rauninni sameign, þar er um helmingaskipti að ræða, og það eru einnig helmingaskipti að því er varðar fiskveiðar. Það eru ótalmörg ákvæði í upphaflega Jan Mayen-samkomulaginu sem styrkja það að Íslendingar eigi helmingsrétt á Jan Mayen-svæðinu öllu, jafnt til fiskveiða sem hafsbotns, og þetta nýja samkomulag um helmingsréttindi styrkir auðvitað hið upphaflega samkomulag. Og nú þegar við höfum samþykkt einróma á Alþingi á s. l. vori að taka upp samninga við Breta, Íra og Færeyinga — eða Dani fyrir þeirra hönd — um hagnýtingu Rochall-svæðisins, þá ber auðvitað mjög að halda á lofti þessu samkomulagi, þessu fordæmi sem fengið var í samningunum við Norðmenn.

Það var haldinn einn fundur fulltrúa Breta og Íslendinga á Genfar-ráðstefnunni. Það var fyrsti formlegi fundurinn til þess að reyna að leysa Rochall-deiluna og nú er nauðsynlegt að vinda að því bráðan bug að halda fleiri slíka fundi með Bretum einmitt fyrir næstu hafréttarráðstefnu og knýja á um einhvers konar sameiginlega lausn þessa máls áður en endanlega er gengið frá hafréttarsáttmálanum. Það er hagsmunamál allra þessara fjögurra þjóða að þetta geti auðnast áður en endanleg samþykkt verður gerð á þeirri merku ráðstefnu. Að vísu hafa Írar færst undan því að svara tilmælum íslenskra stjórnvalda um viðræður nú á þessu stigi, en það gerir að mínu mati ekki mjög mikið til, því að réttindi Íra hygg ég að muni vera minnst þegar metnar eru landfræðilegar aðstæður og náttúruleg framlenging landa, eins og það er kallað í hafréttarsáttmálanum eða uppkastinu að honum. Samvinna er hins vegar við Færeyinga, með þeim hafa allmargir fundir verið haldnir og þeir vilja halda því samstarfi áfram. Það hefur orðið misbrestur á því, því miður, allt frá því í ágústmánuði, að þessi fundur var annars vegar með Bretum og hins vegar með Dönum og Færeyingum, að halda málinu gangandi og halda nægilega miklum hraða á því. Ég veit að það hefur verið í ýmsu að snúast, og það var svo með Jan Mayen-málið og er með Rochall-málið nú, að menn eru lengi að taka við sér, segja jafnvel fyrst í stað: Við eigum þarna engin réttindi, þetta þýðir ekki neitt. Þeir eiga þetta allt saman. Hvað erum við að reyna að teygja okkur yfir það sem okkur varðar ekki um og við eigum ekki? Eru þetta landvinningar, er þetta einhvers konar imperialismi?

En það er aldeilis ekki svo. Ég tel að réttindi Íslendinga á Roehall-svæðinu séu örugglega meiri en réttindi Íra, meiri en réttindi Breta, mundi ég halda, kannske ekki meiri en réttindi Færeyinga. Hvað sem því öllu líður eru þarna fjórar þjóðir sem gera tilkall til yfirráða yfir landgrunninu. Þessar fjórar þjóðir eiga í anda uppkastsins að hafréttarsáttmála að leita samninga, þær eiga að leitast við að ná samkomulagi. Um það höfum við Íslendingar haft forustu og samþykkt einróma á síðasta þingi að fylgja málinu fram með þessum hætti. Það hefur verið gert að nokkru, eins og ég gat um áðan, með viðræðum á Hafréttarráðstefnunni, en því hefur ekki verið fylgt nægilega eftir. Þess vegna leyfi ég mér nú að spyrja hæstv. utanrrh, — ég ætlaði raunar ekki að gera það fyrr en á fundi í utanrmn. á mánudaginn kemur, en af því tilefni að þetta mál er tekið á dagskrá nú í dag leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti svarað því nú, hvenær næsti fundur með Bretum verði haldinn um Rochall-málið, hvort hugsanlegt sé að koma honum á fyrir áramót eða hvort utanrrn. muni beita sér fyrir því, að formlegur fundur Íslendinga og Breta verði haldinn ekki síðar en strax í byrjun næsta árs.

Þetta mál, Rochall-málið, er ekki þýðingarminna en Jan Mayen-málið. Ég hygg að hver einasti Íslendingur geri sér nú grein fyrir því, hve gífurlega þýðingarmikið Jan Mayen-málið er og hve gífurlega miklum árangri við höfum náð þar, því að það voru ótalmargir sem sögðu: Þetta þýðir ekki neitt, Norðmenn eiga þetta allt saman, — og töluðu jafnvel um miðlínur í því sambandi. En auðvitað er það svo í þessu eins og öðru að hver gætir sinna hagsmuna. Þannig er það á Hafréttarráðstefnunni. Það er enginn að gæta hagsmuna annarra þar, það verður hver og einn að gæta eigin hagsmuna. Ef við berum okkur ekki eftir b jörginni, ef við höldum ekki fram okkar réttindum, þá gera ekki aðrir það. Við höfum lýst því yfir, að við viljum hafa samvinnu við Færeyinga og styrkja málstað þeirra, en þá ætlumst við líka til að þeir hafi samvinnu við okkur og við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Alveg á sama hátt ætlumst við til að Bretar ræði málin við okkur, enda hafa þeir fallist á að gera það og við höfum þegar haldið einn formlegan fund. En þeir hafa ekki átt frumkvæði að öðrum fundi og þess vegna eigum við að gera það. Það er meginmálið. Það er fyrst og fremst þess vegna sem ég kom hér í ræðustól til að spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvort utanrrn. muni ekki beita sér fyrir að formlegur fundur bresku og íslensku ríkisstjórnanna, Breta og Íslendinga, verði haldinn hið allra bráðasta til að knýja á það, reyna á það, hvort unnt sé að leysa deilumálið um Rochall-svæðið með samningum a. m. k. milli tveggja þjóða, Íslendinga og Færeyinga, sem eiga þarna mest réttindi, og einnig Breta, sem hugsanlega eiga réttindi, og leyfa Írum að koma inn í þá samninga síðar ef þeir óska, en ella að þessar þrjár þjóðir komi sér saman um hagnýtingu þessa gífurlega víðáttumikla hafsbotnssvæðis sem talið er mjög líklegt að geti verið auðugt af olíugasi, jafnvel málmum. En það er ekki aðalatriðið að við ætlum að vinna þessa málma eða olíu. Þess er líka að gæta, að öll botnlæg dýr, sem fylgja hafsbotninum, krabbadýr, skeldýr og slíkt, sem hreyfa sig ekki öðruvísi en með snertingu við botn, fylgja hafsbotninum eftir skilgreiningu hafréttarsáttmála. Þar geta verið gífurleg auðæfi. Þar að auki er kannske aðalatriðið að við Íslendingar eigum slíka hlutdeild í þessu hafsvæði að við getum hindrað jarðrask þar, að við getum hindrað að þar verði farið ógætilega að, eins og við nú höfum tryggf okkur á Jan Mayen-svæðinu. Þess vegna er ófyrirgefanlegt að draga þetta mál á langinn.