07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að ræða aðalefni þessa frv. Það er eins og hæstv. ráðh. sagði, að þetta er gamall kunningi sem kemur hér í heimsókn á jólaföstu á ári hverju og stundum hefur hann fitnað yfir árið, en því er sem betur fer ekki til að dreifa í þetta skiptl. Hins vegar hefur þetta mál batnað og það er þess vegna sem ég stend hér í pontunni til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur nú tekið af skarið um að Rafveita Siglufjarðar fái nokkrar úrbætur á því óréttlæti, sem ég vil kalla, sem viðgengist hefur gagnvart því fyrirtæki. Því er þannig varið, eins og menn vita, að Siglfirðingar sjá sjálfir fyrir sinni raforkuþörf. En allan þann langa tíma, sem þetta orkugjald hefur verið á lagt, hafa þeir þurft að greiða gjald af eigin orkuöflun og ekkert fengið í staðinn. Nú er sem sagt lagt til að þessu verði breytt og ráðh. verði heimilað að greiða upphæð sem svarar til þess gjalds sem Siglfirðingar greiða á næsta ári og væntanlega næstu árum og sé sambærilegt við að endurgreiða það, má segja. Ég efast ekki um að hæstv. ráðh. muni nota þessa heimild, enda væri hann ekki að leggja til að hún yrði í lög sett nema hann hygðist nota hana. Því ber að fagna.

Það er alveg rétt, sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðh. og fram kemur í grg., að hagur Rafveitu Siglufjarðar hefur verið mjög bágborinn. Virkjunin í Fljótaá varð dýrari en á horfðist og áætlað var og erfiðleikar nokkrir hafa verið í rekstrinum. Við þekkjum öll orsakir þess að mannvirki verða hér dýrari en ætlað var. Síðan koma til þeir háu vextir sem verið hafa. Rn. og hæstv. ráðh. hafa aðstoðað við lánaútvegun og leyst brýnasta vanda, en það nægir engan veginn og þess vegna er nauðsynlegt að lögfesta ákvæði 2. mgr. 1. gr. þessa frv. Þá ætti hagur þessa fyrirtækis að vera nokkuð góður, því að auðvitað verður lánum að einhverju leyti breytt líka til samræmis við það sem er hjá öðrum orkustofnunum. Þetta hef ég að sjálfsögðu rætt við forustumenn á Siglufirði. Formaður veitustjórnar, Knútur Jónsson, sem þetta mál hefur að sjálfsögðu einna mest mætt á, samhllða því að rafveitustjórinn, Sverrir Sveinsson, hefur auðvitað haft af þessu þungar áhyggjur, — Knútur hefur leyft mér að skýra frá því, að þeir Siglfirðingar muni sæmilega við þetta una eins og málum er nú háttað. Þess vegna er ég hér til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa tillögugerð hans.