07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. e. skal ég reyna að svara honum nokkru. Hins vegar býst ég við að hæstv. fjmrh. hefði getað leyst úr fsp. hans nákvæmar en ég get hér án þess að afla mér upplýsinga þar að lútandi.

Hv. þm. nefndi það í upphafi síns máls, að oft hefði verið gagnrýnt varðandi verðjöfnunargjald af raforku að það væri lagt sem prósentugjald á söluskattsstofn. Ég get út af fyrir sig tekið undir þau orð og hef gert það stundum áður þegar þetta gjald hefur verið til umræðu. Ég stóð að því að leita leiða til þess að finna annað form á þessu með gjaldi sem til athugunar var að leggja á allar tegundir orku í landinu, en ekki varð að ráði að framkvæmt yrði. Það kom hins vegar fram hjá sérfróðum aðilum hjá rafveitum, að mjög erfitt væri að finna form fyrir jafna álagningu slíks gjalds, krónuálagningu slíks gjalds, án þess að það hefði skekkjandi áhrif á taxtauppbyggingu fyrr en varði, og þeir réðu frá þessu m. a. af þeim sökum. En segja má að þegar mismunur á heimilistaxta og töxtum almennt, sem gjaldið leggst á, er þó ekki meiri en hann er, þá er þetta ekki lengur eins tilfinnanlegt og það var þegar mismunurinn á heimllistaxta í gjaldskrám var 80–90%, eins og hann var mestur á árinu 1978.

Einnig má vissulega benda á að gjaldið rennur til tiltekinna fyrirtækja og er notað til að halda niðri hækkunarþörf þeirra, en þeir aðilar, sem greiða gjaldið og njóta þess ekki í endurgreiðslu, eru margfalt, margfalt fleiri en hinir sem eru aðnjótandi gjaldsins. Þannig er það út af fyrir sig notað til jöfnunar þó að auðvitað komi alltaf spánskt fyrir sjónir þegar menn sjá þetta sem hærri tölu á orkueiningu hjá þeim sem hærri útgjöld hafa fyrir. Ekki meira um þetta atriði. Hv. þdm. er eflaust öllum ljóst hvernig þetta verkar.

Hvað viðvíkur fsp. hv. 3. þm. Norðurl. e. varðandi byggðalínugjaldið, þá er af minni hálfu um það að segja, að um það hafa engar ákvarðanir verið teknar, hvort sú heimild verður notuð eða ekki. Það hefur ekki mikið verið um það rætt til þessa. Ég vil hins vegar ekki útiloka í því sambandi, að þessi heimild verði notuð, en í mínum huga kemur það einkum til álita í sambandi við þá samninga sem nú standa yfir milli ríkisins og Landsvirkjunar um hugsanlega útfærslu þess fyrirtækis og yfirtöku þess á byggðalínum sem er til umræðu. Í tengslum við það getur þurft að koma til ýmissa fjárhagslegra skuldbindinga af ríkisins hálfu og samninga um fjárhagsleg atriði við Landsvirkjun í sambandi við stofnkostnað og fjárhagsbyrðar þessara stóru mannvirkja. Þá gæti komið til álita m. a. að nota þessa heimild varðandi byggðalínugjaldið til þess að auðvelda þá samningsgerð. Þetta vildi ég aðeins nefna sem ábendingu, en taka fram að engar ákvarðanir hafa verið teknar um notkun þessarar heimildar.

Hitt gjaldið, sem hv. þm. nefndi, orkujöfnunargjaldið sem kallað var og lagt var á, að mig minnir, fyrri hluta árs 1980, var í reynd hækkun á söluskattsstofni um 1.5%. Ég hefði gjarnan viljað á þeim tíma sjá þann tekjustofn markaðan með skýrara hætti til orkumála og orkujöfnunar en þá var gert af hv. Alþingi. En strax og gjaldið var lagt á var nokkuð ljóst að tekjum af því yrði ekki með beinum hætti varið í því skyni nema að hluta til, og þannig hefur það verið síðan. Þessi tekjuliður hefur runnið, má segja, saman við söluskattinn sem tekjustofn fyrir ríkissjóð, en stendur þó að hluta eftir sem áður undir verjöfnunaraðgerðum, sem betur fer, og gjarnan mætti meira renna til þeirra.

Hvað snertir olíustyrkina og að dregið hafi verið úr þeim, eða að viðskrn. hafi talið fært að lækka áætlaða upphæð vegna olíustyrkja, þá þarf það út af fyrir sig ekki að koma á óvart miðað við að styrkirnir væru óbreyttir. En ég hygg að þau mál séu nú til athugunar. Þeim fækkar sem betur fer frá mánuði til mánaðar, frá ársfjórðungi til ársfjórðungs, sem þurfa á olíustyrkjunum að halda, þannig að þörfin fyrir niðurgreiðslu á olíu til þeirra, sem þar eiga hlut að máli, fer minnkandi, væntanlega einnig að raungildi, á meðan ekki eru teknar ákvarðanir um að hækka þessar greiðslur eitthvað verulega til þeirra sem enn búa við olíukyndingu. Ég ætla ekki að ræða það efnislega frekar.

Ég tel að ég hafi með þessu reynt að leysa eitthvað úr fsp. hv. þm. Eftir stendur þó lántaka sem hann spurði um til Rafmagnsveitu Reykjavíkur, hvort rétt væri að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefði tekið erlent lán eða sótt um að taka erlent lán til starfsemi sinnar. Ég hef það ekki nógu fast í minni til þess að fuliyrða það. Þó man ég eftir slíkri lántöku hjá Hitaveitu Reykjavíkur, og má vera að slík umsókn liggi fyrir frá Rafinagnsveitu Reykjavíkur þó að ég vilji ekki fullyrða um það. Slík lántaka hjá þessum fyrirtækjum getur sumpart verið vegna rekstrar. En þess skulum við minnast, að þessi fyrirtæki standa vissulega í verulegum fjárfestingum. Við vitum að Rafmagnsveita Reykjavíkur er að byggja yfir sig allmyndarlegt húsnæði, og dreg ég ekkert úr þörfinni fyrir það að búið sé vel að þessum fyrirtækjum. Þegar verið er að líta á verðlagningarmál orku í landinu almennt tel ég einmitt þörf á stefnubreytingu að því leyti, að bæði meginorkuöflunarfyrirtækin og eins smásölufyrirtækin geti aflað meiri tekna, náttúrlega til að standa undir rekstri, en einnig til sinna framkvæmda, og það þurfi því að endurskoða þessi mál nokkuð róttæki og í heild sinni.