07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs út af þeim umr. sem hér hafa farið fram utan við beint efni frv., en vegna þess að ég stend hér vil ég samt nota tækifærið til að lýsa ánægju minni með þetta frv. Ég hef fagnað því árlega þegar það hefur komið, og ég geri það enn. Ég sé líka sérstaka ástæðu til að lýsa ánægju minni með þau ákvæði frv., að 3% af verðjöfnunargjaldinu skuli varið til þess að greiða sérstakan kostnað Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða af keyrslu vararafstöðva vegna rafmagnsskorts á s. l. vetri. Af því að ég er að tala um þetta vil ég einnig lýsa mig samþykkan því ákvæði sem hér er um Rafveitu Siglufjarðar. Rafveita Siglufjarðar og hennar mál hafa komið til umræðu við framlengingu verðjöfnunargjaldsins á undanförnum árum, og okkur eru vel kunnir þeir erfiðleikar sem Rafmagnsveita Siglufjarðar hefur staðið í. Ég verð að segja það, að mér finnst eftir atvikum að það sé eðlileg leið sem farin er með þessu frv., þ. e, að gera cáð fyrir að Rafveitu Siglufjarðar verði endurgreitt það verðjöfnunargjald af raforku sem fyrirtækið greiðir.

Það gæti verið tilefni til að ræða mikið um þau mál sem hér hafa verið rædd utan við beint efni frv., en ég skal neita mér um slíkt. Hér var verið að tala um orkujöfnunargjald. Það var vel að orði komist hjá hæstv. iðnrh. þegar hann sagði áðan að þetta gjald hefði verið „kallað því nafni“, eins og hann komst að orði. Það var lítið meira en kalla það því nafni, vegna þess að í raun og veru var þetta ekki annað en almenn skattheimta, nýr skattur lagður á söluskattsstofn. Þetta var ljóst þegar gjaldið var lagt á, og ég og fleiri gerðum okkur satt að segja ekki miklar vonir um að skattgjald þetta yrði til sérstaks gagns fyrir framkvæmdir í orkumálum.

Um olíustyrkinn, sem hér hefur sérstaklega borið á góma, væri ástæða til að fara nokkrum orðum. En hv. 11. lands. þm., sem var að ljúka máli sínu, tók ómakið af mér í því efni, því að hann lagði áherslu einmitt á þau atriði sem ég hefði viljað leggja áherslu á.

Hér var vikið að því, að ekki yrði ráðstafað á þessu ári, ef fram héldi sem nú horfir, nema um helmingnum af því fjármagni sem Alþingi ætlaði í olíustyrki á þessu ári, um helming af 50 millj. sem áætlað var. Þessi staðreynd er í sjálfu sér mjög ámælisverð. Í raun og veru er þetta í mínum huga stórhneyksli. Það er vegna þess að fá dæmi eru um meiri ójöfnuð í þessu þjóðfélagi en ójöfnuðinn sem er milli þeirra, sem hita híbýli sín með olíu, annars vegar og þeirra hins vegar, sem hafa hagkvæmari upphitun. Þetta þarf ekki að fara að ræða hér, en það er með ólíkindum að olíustyrkirnir skuli ekki hafa verið hækkaðir. Samkv. lögum um lækkun og jöfnun hitunarkostnaðar frá 1980 var gert ráð fyrir að hver olíustyrkur næmi 200 kr. á ársfjórðungi. Einnig var gert ráð fyrir því í lögunum, að það væri heimilt að hækka þennan styrk í hlutfalli við breytingar á olíuverði. Þessi styrkur hefur verið á ársfjórðungi 200 kr. frá því 1. jan. 1980 og fram á þennan dag. Ef þessi styrkur hefði verið hækkaður í hlutfalli við hækkaða olíu hefði hann átt að vera 360 kr. á ársfjórðungi. Fyrir nokkrum dögum varð verðhækkun á olíu þannig að miðað við það ætti styrkurinn að vera enn þá hærri. Styrkurinn ætti m. ö. o. að vera nálægt því að vera tvöfaldur á við það sem hann er. Alþingi hefur tekið ákvörðun um að veita fjármagn til að jafna mismuninn í upphitunarkostnaðinum og þessu fjármagni er ekki ráðstafað nema að hálfu leyti. Þó eru allir að tala um við hvert tækifæri að það sé óþolandi að horfa upp á þann ójöfnuð sem viðgengst á þessum vettvangi.

Ég ætla ekki að fara að ræða um það hér, en ég vil aðeins gefa þær upplýsingar, að ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um það, hverjar ástæður kynnu að geta legið fyrir því, að ekki hafi verið notað og ekki hafi verið ætlunin að nota allt það fé sem ráðstafað hefur verið til niðurgreiðslnanna. Í öðru lagi hef ég viljað leggja áherslu á það, að ríkisstj. sæi um að allt þetta fé yrði notað á þessu ári. Það mundi verða með þeim hætti, að það væri eðlilegt að hækka upphæð olíustyrksins fyrir síðasta ársfjórðung þessa árs sem ekki hefur verið greiddur út, en auk þess ætti að veita viðbót við olíustyrki á fyrri ársfjórðungum þessa árs. Það væri góður jólaglaðningur fyrir það fólk sem hefnr orðið að bera uppi byrðar olíuupphitunarinnar og þann ójöfnuð sem viðgengist hefur. Ég sagði að það yrði góður jólaglaðningur, en auðvitað væri ekkert gert í þessu efni, ef þetta væri gert, nema það sem ríkisstj. ber skylda til að gera.