26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. leyft mér að flytja hér þáltill. sem fjallar um athugun á möguleikum íslenskra fiskiskipa til veiða í erlendri fiskveiðilandhelgi. Till. þessi var einnig flutt á Alþingi í fyrra eða shlj. till., en náði þá ekki umr. Með leyfi forseta er þessi till. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna möguleika á kaupum veiðileyfa og öflun veiðiaðstöðu fyrir íslensk fiskiskip í fiskveiðilögsögu ríkja í Norður-Ameríku og Vestur-Afríku.“

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hver vandi blasir við íslensku þjóðarbúi vegna ofvaxtar fiskiflotans, sem svo hefur verið nefndur, eða vegna þess hve hömlulítill skipainnflutningur hefur verið leyfður hér þar til nú að ríkisstj. hefur áttað sig og boðað stöðvun innflutnings fiskiskipa um takmarkaðan tíma. Það er búið að lýsa og hefur oft verið lýst hverjar afleiðingar þessi mikla fjölgun fiskiskipa hefur haft fyrir íslenskt þjóðarbú og á það verið bent að a.m.k. 17 togarar hafa í tíð núv. sjútvrh. bæst við flotann — 17 togarar sem munu kosta í kringum 850 millj. ísl. kr. Allir vita hvernig rekstrargrundvöllur hinna nýju skuttogara af þessari gerð er. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Hv. þm. eru því mætavel kunnugir. Þá má þess geta að loðnuflotinn hefur ekki haft verkefni við sitt hæfi frá því að loðnuveiðar voru úr sögunni, hversu lengi sem það kann að standa.

Vitað er að nokkur ríki hafa aflað sér tímabundinnar heimildar til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi annarra ríkja. Má þar t.d. nefna bæði Japani, Kóreumenn og Austur-Evrópuþjóðir. Það er t.d. alkunna, að pólsk fiskiskip höfðu heimild til þorskveiða út af austurströnd Bandaríkjanna fram að þeim tíma er herlög voru sett í Póllandi og Bandaríkjamenn sviptu Pólverja þessum veiðileyfum. Pólsk fiskiskip seldu þá aflann a.m.k. að einhverju leyti til bandarískra fyrirtækja. Annað dæmi, sem kunnugt er, er þátttaka íslenskra nótaveiðiskipa í veiðum á vegum eigenda norska verksmiðjuskipsins „Norglobal“, sem hér kom töluvert við sögu loðnuveiða á sínum tíma. Þær veiðar áttu sér stað innan fiskveiðilögsögu Máritaníu.

Sovétríkin hafa t.d. stundað fiskveiðar í fiskveiðilögsögu ýmissa ríkja í Vestur-Afríku og hafa fiskiskip þeirra, a.m.k. að einhverju leyti, landað afla sínum þar, þ.e. í Vestur-Afríku.

Þá má enn geta þess, að fyrir fáeinum árum voru hér á landi á ferð fulltrúar stjórnvalda í Líberíu, sem vildu efna til samvinnu við erlendar þjóðir um fiskveiðar í landhelgi síns heimalands.

Það mætti nefna ýmis fleiri dæmi til að gefa vísbendingu um að enn séu e.t.v. möguleikar til að nýta íslensk fiskiskip á fjarlægum veiðislóðum.

Tilgangur þessarar þáltill. er fyrst og fremst sá, að það verði gengið úr skugga um hvort finna megi þessum flota okkar, sem auðsjáanlega hefur of lítil verkefni hér, verkefni á fjarlægum miðum. Víst er það vitað að samfara því eru auðvitað ýmis vandamál, en það er skoðun okkar flm. að íslenskir útgerðarmenn og íslenskir sjómenn muni geta sigrast á þeim vanda. En fyrsta skrefið í þeim efnum er auðvitað að kanna, hvort möguleikar eru á því að nýta íslenska fiskiskipaflotann eða hluta hans með þeim hætti að hann fái veiðileyfi í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Þetta er, eins og ég hef áður minnst á, ekkert einsdæmi. Það eru ýmis ríki sem fara að með þessum hætti, þó að mjög hafi auðvitað þrengst um þar á seinni árum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til að þessari till. verði vísað til hv. allshn. til nánari umfjöllunar og athugunar.