26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er flutt till. til þál. um athugun á möguleikum íslenskra fiskiskipa til veiða í erlendri fiskveiðilandhelgi. Þegar flm. hefur talað fyrir málinu stendur upp samflokksmaður hans til að vekja á því sérstaka athygli að þessa till. beri að taka alvarlega og hann margítrekar þetta hér í púltinu. Annaðhvort litur hann svo á að almennt beri ekki að taka þær tillögur sem koma frá hans samflokksmönnum alvarlega eða hann telur að þarna sé um heiðarlega undantekningu að ræða og þess vegna sé alveg sérstök nauðsyn að vekja á því athygli.

Þessi till. hlýtur að vekja ýmsar spurningar og ég vil koma að þeim síðar, en halda áfram að vekja athygli á málflutningi seinasta ræðumanns. Hann gat þess, sem alþjóð veit, að aflamagn á hvern sjómann á Íslandi er það mesta í heimi. Engu að síður slær hann því föstu að það sé stærsta þjóðarnauðsyn að auka nú mjög aflamagnið á hvern sjómann. Sem sagt: Það er verið að koma því hér á framfæri að það séu íslenskir sjómenn á allt of mörgum skipum sem séu aðaldragbíturinn á hagvöxtinn í landinu. Hver trúir nú þessu rugli, hver trúir því? Ef við færum og ræddum við íslenska sjómenn, þá væru þeir fljótir til að benda á að það væri yfirbyggingin í þessu þjóðfélagi sem væri að sliga útgerðina. Það væru komnir of margir sem lifðu á þessari útgerð. Það væri vandamálið, en ekki hitt, að íslenskir sjómenn kæmu með of lítinn afla að landi.

Það liggur alveg ljóst fyrir að við getum bætt gæði þess afla mjög verulega sem við komum með að landi, en það er spurning hvort hægt sé að leggja það á íslenska sjómannastétt að koma með jafnmikinn afla að landi og nú er komið með pr. mann og jafnframt að bæta gæði aflans eins og vert væri.

Ég ætla ekki að fara hér út í hugmyndirnar um fiskimiðlunina, sem átti að koma sem björgun í þau byggðarlög þar sem skipin færu burtu. Það er kenning sem ég vildi gjarnan sjá betur útfærða. Auðvitað er sjálfsagt að miðla fiski á milli sé það hægt, það vita allir.

En flm. tillögunnar vil ég spyrja þessarar spurningar og óska eftir að fá efnislegt svar, af því að ég lít ekki á þessa till. sem neitt gamanmál og taldi að það þyrfti engan sérstakan ræðumann hingað upp í pontuna til að segja þingheimi það: Frá hvaða svæðum á Íslandi telja þeir að hægt sé að fara með skip til veiða á fjarlæg mið án þess að atvinnuleysi skapist í landinu?

Ég er hlynntur því að kannað verði hvort hægt sé að fá veiðiheimildir fyrir íslensk skip, þá fyrst og fremst í nágrenni okkar þannig að aflinn mætti nýtast til vinnslu hér á landi. Ef það væri hægt teldi ég það sjálfsagt. En ég er ekki búinn að sjá að þeir togarar sem hafa verið framleiddir hér innanlands og kosta 40–50% meira en skip á heimsmarkaðsverði séu samkeppnisfærir í veiðum einhvers staðar úti í löndum til að skila okkur arði. Ég er ekki búinn að sjá rekstraryfirlit yfir slíkar hugmyndir. Það má vel vera að það liggi fyrir hjá flm., en hvað um það. Hitt er brýnt, að fá fram heiðarlegt svar við þessu: Frá hvaða svæðum á Íslandi telja flm. að hægt sé að fara með skip til veiða á fjarlæg mið án þess að atvinnuleysi skapist í landi?