26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vildi í örfáum orðum þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér. En tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs að nýju var það, að hv. þm. Ólafur Þórðarson, 5. þm. Vestf., sem hefur þann hæfileika að koma mönnum sífellt á óvart og þeim mun meir sem hann oftar kveður sér hljóðs, bar hér fram spurningar. Auðvitað ber þessi till. það með sér eins og hún er orðuð, að spurningum hans er á þessu stigi ekki hægt að svara, ekki frekar en það er hægt að nafngreina ákveðin skip sem ættu að fara til slíkra veiða. Það er fyrst þegar það kemur í ljós hvort möguleikar eru á öflun veiðileyfa og veiðiaðstöðu fyrir íslensk skip annars staðar sem það kemur til athugunar hverjir hafa áhuga á að stunda slíkar veiðar eða hvort einhverjir hafa yfirleitt áhuga á því. Þess vegna er auðvitað ekki hægt að svara þessum spurningum hans nú. En það vita auðvitað allir, þótt hv. þm. Ólafur Þórðarson hafi kannske ekki hugmynd um það, að fiskiskipafloti okkar er of stór og það viðurkenna allir og það hefur ríkisstj. mjög rækilega viðurkennt, bæði í orði og verki, nú að undanförnu. Þetta hefur hins vegar farið fram hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að því er virðist. Og ef fiskiskipafloti okkar er allt of stór, eins og allir viðurkenna nú, hvað er þá fyrst til ráða? Það er auðvitað að reyna að finna þessum flota verkefni á öðrum slóðum en okkar fiskislóð. Það er of nærri gengið ýmsum okkar stofnum þeir eru fullnýttir eða ofnýttir, og þá blasir það auðvitað beint við að finna þessum flota verkefni annars staðar. Þar er það sem menn hljóta að hugsa fyrst um.