18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Félmn. hv. Ed. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 43 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Hér er um að ræða stjfrv., sem hefur tekið grundvallarbreytingu í meðferð félmn. hv. Nd. Þar er um að ræða 4. gr. upphaflega frv., sem er felld út. Ég fagna þessari breytingu á frv., sem er viðurkenning hv. Alþingis á því að fasteignagjöld eru samkv. lögum alfarið tekjustofn sveitarfélaga og álagning þeirra því alfarið á ábyrgð kjörinna sveitarstjórnarmanna. Afskipti ríkisvaldsins af þessum tekjustofni umfram það sem lög heimila ganga gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda um sjálfstæði sveitarfélaga.

Það upplýstist jafnframt í meðförum málsins í félmn. hv. Nd. að öll þau sveitarfélög sem 4. gr. frv. tók til höfðu þá þegar ákveðið lækkun fasteignagjalda sem gengur lengra en ákvæði frv. gerði ráð fyrir. Félmn. hv. Ed. mælir með að frv. verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Ólafur Ragnar Grímsson.