18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu fulltrúa félmn. er hér um að ræða stjfrv., sem flutt var hér fyrir nokkru. Einhugur var um það innan ríkisstj. að nauðsynlegt væri að frv. af þessu tagi væri flutt. Markmiðið með frv. var að tryggja að hagsmuna íbúa nokkurra sveitarfélaga væri gætt við álagningu fasteignaskatts á næsta ári.

Síðan hefur það gerst að nokkrir sveitarstjórnarmenn hafa risið upp gegn þessu ákvæði og meiri hl. Nd. ákveðið að fara að vilja nokkurra sveitarstjórnarmanna. Ég tel hins vegar engu að síður nauðsynlegt að Alþingi reyni áfram að tryggja hagsmuni íbúa þessara sveitarfélaga og gangi þannig tryggilega frá málum að hagsmunir íbúanna séu ekki fyrir borð bornir. Þrátt fyrir yfirlýsingar þær sem vitnað var hér til að hefðu komið fram í sveitarstjórnum liggur ekkert fyrir um það endanlega að íbúarnir hafi tryggingu fyrir því að álagningin verði ekki með öðrum hætti.

Herra forseti. Það mætti hafa fleiri orð um þetta, en ég ætla ekki að gera það hér. Málið liggur nokkurn veginn ljóst fyrir. Ég tel að það sé nauðsynlegt, eins og ríkisstj. taldi þegar hún lagði þetta frv. fram, að setja þessa tryggingu í þágu íbúanna sem búa í þessum sveitarfélögum. Þess vegna leyfi ég mér að flytja við umr. brtt., sem ég mun afhenda forseta, á þann veg, að 4. gr. orðist svo:

„Á eftir ákvæði til bráðabirgða IV komi nýtt bráðabirgðaákvæði, nr. V, er hljóði svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, er óheimilt að hækka fasteignaskatta milli áranna 1982 og 1983 um meira en 65%.