18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Í raun og veru hrakti hv. 11. þm. Reykv. ekki neitt af því sem ég sagði í þeim fáu aths. sem ég gerði áðan. En ég undirstrika það, sem ég sagði þó þar, að þetta mál var afgreitt til félmn. í gær og nefndin afgreiddi málið í fljótheitum vegna beiðni ríkisstj. um að flýta málinu. Ég segi fyrir mig: Ég gekk út frá því að af hálfu ríkisstj. kæmu ekki upp tillögur um breytingar frá því sem málið lá þar fyrir. (ÓRG: Þetta er ekki till. frá ríkisstj.) Það er till. frá formanni þingflokks Alþb., sem mun vera næststærsti þingflokkurinn sem styður ríkisstj. Félmn. ræddi ekki þessa brtt., sem fram kom í Nd. og hafði verið felld þar, og hv. 11. þm. Reykv., sem á sæti í félmn., mætti ekki á fundi n. N. var ekki á neinn hátt tilkynnt eða hún aðvöruð um að það kæmu fram slíkar brtt. Með tilliti til þessa ítreka ég ósk mína að umr. verði frestað og félmn. fái tækifæri til að líta á málið.