18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er, að nú skil ég ekki málflutning hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, sem ætíð áður hefur stýrt störfum félmn. með mikilli sæmd og réttlátlega að mínum dómi. Í áliti n. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt.“ Það kemur þess vegna alveg skýrt fram í því áliti, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson skrifar undir, að menn hafa átt von á að brtt. yrðu fluttar. N. boðar það í áliti sínu.

Í öðru lagi tel ég það ekkert rof á neinu samkomulagi, sem hér hefur verið gert um þingstörfin, þó að menn endurflytji hér í Ed. orðréttar sömu brtt. og voru fluttar í Nd. Ég nefni sem dæmi að fyrir nokkrum mínútum fluttu þm. Alþfl. brtt. við frv. sem félmn. hafði líka fjallað um og voru þær orðréttar eins og till. fluttar í Nd. Enginn gerði aths. við það né taldi það brot á neinu samkomulagi. Það hefur alltaf verið l jóst að fluttar kynnu að verða sömu brtt. í seinni deild og voru fluttar í fyrri deild. Að fara að túlka samkomulag þingflokkanna um afgreiðslu mála hér á þann veg, að þar með hafi menn afneitað rétti sínum til að flytja í seinni deild sömu brtt. og voru fluttar í fyrri deild, er skilningur sem ég hef aldrei heyrt og get ekki með nokkru móti talið í samræmi við þær venjur sem við höfum almennt beitt. Þess vegna gerði ég enga aths. við það þó að þm. Alþfl. flyttu hér í Ed. sömu brtt. og þm. Alþfl. fluttu í Nd. og tel á engan hátt óeðlilegt þó að ég geri það sama varðandi þetta frv., með sérstakri tilvísun til þess, að það er þegar boðað í nál. að einstakir nm. ætli að flytja brtt.

Varðandi fundartíma félmn., þá stóð svo á að ég þurfti að stýra þingflokksfundi Alþb. í um það bil klukkustund eftir að deildarfundi lauk hér í gær, en formaður n. kaus að halda fund í n. á þessari sömu klukkustund. Ég geri ekki aths. við það, en tel það ósanngjarnt að hv. formaður n. sé að gera eitthvert mál úr því hér, að ég hafi ekki getað mætt á nefndarfundi, vegna þess að honum var fullkunnugt um að ég var að stjórna fundi míns þingflokks. Ég sagði honum um leið og ég var boðaður á nefndarfundinn að ég þyrfti að stjórna þingflokksfundi og gæti ekki komið.