18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabóta vegna vöru- og fólksflutninga á hinum einstöku svæðum, svo sem Ísafjarðardjúpi, Breiðafirði, Faxaflóa og til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð allt til Grímseyjar og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Ennfremur hefur n. fjallað um erindi, er borist hafa, vegna vetrarflutninga á landi, svo sem til rekstrar snjóbifreiðar eða vegna mikils snjómoksturs, þar sem erfitt reynist viðkomandi byggðarlögum að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar.

Þrátt fyrir að reglurnar hafi verið verulega rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs fjárframlög til þeirra sem að dómi n. eru verst settir að þessu leyti.

Þótt ekki verði komist hjá fjárstuðningi við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, ber nauðsyn til að endurskipuleggja ýmsa þætti þessara mála, þar sem flutningaþörfin er á sumum svæðum önnur en áður var. Ennfremur er nauðsynlegra að halda uppi nokkurn veginn reglulegum samgöngum. Leggur n. áherslu á að þessi mál séu öll skoðuð í því augnamiði að reyna að koma á meiri hagræðingu og meira samræmi á þessa flutninga en hefur verið og einnig að það komi fram hvernig það fjármagn sem er veitt á vegum n. nýtist.

Í þessu sambandi er rétt og nauðsynlegt að vekja athygli á þeim mikla aðstöðumun sem menn búa við í þessu efni, sem m.a. kemur fram í því, að Vegagerðin heldur opnum aðalleiðum alveg á sinn kostnað, þó að það sé mismunandi marga daga í hverjum mánuði á hinum ýmsu leiðum sem hún mokar þessa vegi, en aukavegirnir eru ekki opnaðir öðruvísi en sveitarfélögin á hverjum stað standi undir þeim kostnaði að hálfu leyti. Hafa ber í huga að í sumum sveitarfélögum er það þannig, að aðalleiðin liggur eftir endilangri byggðinni, en önnur sveitarfélög hafa alls ekki aðalleiðir innan sinna marka og verða þess vegna íbúar þeirra héraða að halda uppi snjómokstri einvörðungu með þeim hætti sem að framan greindi eða að því leyti að borga helminginn af kostnaði við moksturinn.

N. bárust rúmlega 60 umsóknir. Halldór S. Kristjánsson, deildarstjóri í samgrn., og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu á fundi n. og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu n. að verulegu gagni. Fyrir hönd n. vil ég færa þeim sérstakar þakkir fyrir þeirra störf.

Skal nú gerð grein fyrir hinum einstöku þáttum, sérstaklega að því er hin stærri verkefni varðar, þ.e. flutninga á sjó. Hvort tveggja er, að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns, sem n. úthlutar, og svo hitt, að um allt það, sem lýtur að sjóflutningum, hefur n. mjög góðar upplýsingar, þótt ýmsir aðrir aðilar, er styrks til landflutninga njóta, hafi einnig sent n. greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina varðar, og er það raunar breyting til verulegra bóta.

Ennfremur hafði n. þann hátt á að ræða við og fá frekari upplýsingar hjá þm. hvers kjördæmis um þær umsóknir, sem lágu hjá n. og voru ekki að dómi n. nægjanlegar upplýsingar um, og í mörgum tilvikum hafði n. samband við þá aðila, sem sendu umsóknirnar, til frekari upplýsinga.

Í mörgum þessum umsóknum kemur glöggt fram hvað aðstöðumunurinn er geysilega mikill í sambandi við þessi mál og er n. fullkomlega ljóst að full ástæða væri til þess að þessir styrkir væru verulega hærri til að minnka þennan aðstöðumun. En hitt ber einnig að líta á, að margir munu þeir sem ekki eru miklu betur settir, sem enga umsókn hafa sent.

Þá ætla ég aðeins að ræða um hina stærstu þætti, fyrst Akraborg.

Á árinu 1981 var hagnaður af rekstri Akraborgar 205 þús. kr., sem er nokkru lakari niðurstaða en var 1980. Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok var eigið fé félagsins neikvætt um tæpar 5 millj. kr. Í lok október á þessu ári var hagnaðurinn af rekstrinum 425 þús. kr. og þá búið að taka tillit til vaxtagjalda að fjárhæð 2.6 millj. Rétt er að benda á að tveir síðustu mánuðir ársins eru erfiðir í rekstri, minni flutningar og aukinn tilkostnaður.

Nýtt skip, nýja Akraborgin, var tekin í notkun í júní á þessu ári, en gamla skipið er enn óselt.

Skallagrímur hf. fer fram á verulegan styrk á næsta ári. Í bréfi fyrirtækisins kemur fram að samkomulag hefur náðst við Ríkisábyrgðasjóð um að ríkisstyrkurinn skuli renna óskiptur til greiðslu lána hjá sjóðnum. Hér er því í rauninni um stofnstyrkbeiðni að ræða. Í fjárlögum í ár er veittur 1 millj. kr. rekstrarstyrkur og 800 þús. kr. í stofnstyrk. Af þessari fjárhæð fékk Ríkisábyrgðasjóður 2.1 millj. Samkvæmt upplýsingum Ríkisábyrgðasjóðs nema skuldir vegna gömlu Akraborgarinnar 1. nóv. s.l. um 11 millj. kr. Búið er að ganga frá samningi vegna hluta þessara skulda. Vegna kaupa á nýju Akraborginni eru nú vextir af erlendu láni í vanskilum 11 millj. 959 kr., en lánið allt er um 39 millj. í íslenskum krónum. Afborgun er ekki fallin í gjalddaga. Hætt er við að fyrirtækið stefni í svipuð vanskil við Ríkisábyrgðasjóð og var vegna kaupa á gömlu Akraborginni á sínum tíma. Ákvörðun var tekin hér í Alþingi um þessi kaup og er alveg sýnilegt að það þarf að taka þetta mál allt saman til skoðunar.

Baldur er nú eingöngu í ferðum á Breiðafirði eftir að útgerð bátsins hætti Reykjavíkurferðum. Ferðir þessar, sem Baldur fór, voru samtals 125 tíu mánuði þessa árs. Farþegum hefur aðeins fjölgað og einnig bifreiðum.

Nýtt skip var og er hugsað að reyna að kaupa í staðinn fyrir Baldur. Það kom fram í fyrra í umr. um þetta mál að þetta skip væri mjög dýrt og mjög óhentugt í öllum rekstri. Það verður ekki komist hjá því, til þess að þessi rekstur geti gengið og sú þjónusta sem ákveðin hefur verið og hefur verið veitt undanfarin ár, að veita þarna verulegan rekstrarstyrk, en til viðbótar mun svo koma, ef um ný kaup verður að ræða, að ríkið mun þurfa eins og hvað snertir hin skipin, bæði Hríseyjarferju og Drang, að standa undir stofnkostnaði að öllu leyti.

Það má segja að það hafi komið fram í sambandi við áætlanir allra þessara báta á undanförnum árum að þeirra áætlanir, þegar upp er staðið, hafa algerlega staðist. Í því sambandi má benda á það með Fagranesið, að sú áætlun stóðst á yfirstandandi ári fullkomlega. Það voru skorin 6% af styrknum, en fyrirtækið þurfti að fá aukafjárveitingu sem því nam á þessu ári.

Í sambandi við Hríseyjarferjuna voru á fjárlögum yfirstandandi árs 375 þús. kr. í greiðslu, en það kemur í ljós að rekstur Hríseyjarferjunnar var mjög erfiður og hefði þurft að hækka þennan styrk meira en n. leggur til. Hún leggur til að þessi styrkur verði tvöfatdaður á þessu ári, en sýnilegt er að það er ekki nóg miðað við reynslu liðinna ára og sérstaklega þessa árs. Í því sambandi er rétt að undirstrika að olíukostnaður hækkar um helming eða um það bil. Þar sem þarf að standa undir erlendum lánum hefur t.d. Bandaríkjadalur hækkað á árinu um tæplega 100%, en aðrir gjaldmiðlar minna.

Aðalvandamálið í sambandi við þessa báta alla er þó Herjólfur. Í fjárlögum síðastliðins árs var í 6. gr. heimilað að semja við bæði Herjólf og Skallagrím vegna þeirra vanskila sem eru hjá Ríkisábyrgðasjóði. N. er ekki kunnugt um að þessi heimild hafi verið notuð gagnvart Herjólfi, en hins vegar, eins og fram kom áðan, var hún notuð gagnvart Akraborg. Samkvæmt upplýsingum Ríkisábyrgðasjóðs 14. desember námu skuldir Herjólfs við Ríkisábyrgðasjóð 1. desember 61.2 millj. Með áföllnum vöxtum til áramóta yrði skuldin 66.7 millj. eða hækkaði í þessum mánuði um 5.5 millj. eða um 177 600 kr. hvern dag. Hér er mál sem þýðir ekki að víkja sér undan að taka á. Kom fram í n. að menn voru sammála um að það mundi ekki þýða annað en ríkið tæki á sig þessa skuld. Þó að nú séu ætlaðar til Herjólfs 7.9 millj. í styrk, þá er það einvörðungu til rekstrar. Nauðsynlegt er því að ganga frá þessu máli eða reyna finna leiðir, því það þýðir ekki að láta þetta standa svona.

Það er ekkert nýtt að segja um Mjóafjarðarbátinn. Hann hefur haldið uppi ferðum allan ársins hring milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar og ennfremur til Dalatanga þegar ófært er landleiðina þangað, sem er að jafnaði 5 til 6 mánuði á ári hverju.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að fara ofan í þessa liði frekar. Ég vitna aðeins til þess nál. sem n. hefur skilað hér og hv. þm. hafa fengið. Ég vil taka fram að mjög ítarlega var fjallað um hverju umsókn og full samstaða náðist í n. um hverja fjárveitingu. Frá fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, sem er sú tala sem var sett í fjárlög núna, leggur n. til að þarna verði um verulega hækkun að ræða eða um 79% hækkun á þessum lið. Í staðinn fyrir 17 millj. 296 þús. komi 30 millj. 961 þús., sem skiptist og er sundurliðað á þskj. 207. Ég sé ekki ástæðu til að vera að lesa upp hina lægri styrki, aðeins bátana. Menn hafa þessar tölur fyrir framan sig.

Það er till. n. að Akraborgin fái í styrk á næsta ári 3 millj., Baldur 4 millj., Fagranesið 3 millj. og 700 þús. og Hríseyjarferjan 1 millj. 850 þús., en af þeirri upphæð fer til rekstrar, eins og ég sagði áðan, 750 þús. Hitt er samkvæmt uppgefnum tölum frá Framkvæmdastofnun ríkisins út af þeim skuldum sem stofnað var til vegna smíði bátsins. Þá er Drangur. Það kom nýtt skip á árinu og vegna stofnstyrks þess þarf 5 millj. og 500 þús., en til rekstrar 1 millj. og 800 þús., en sá liður hækkar minnst af öllum þessum rekstrarliðum eða aðeins um 28%. Það er vegna þess að það þarf færri menn á nýja skipið en á gamla Drang. Til Mjóafjarðarbátsins leggur n. til að fari 630 þús. og, eins og ég sagði áðan, til reksturs Herjólfs 7 millj. og 900 þús.