18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

1. mál, fjárlög 1983

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki verða langorður um fjárlagafrv. sem nú er hér til 3. umr. Hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, hefur þegar gert grein fyrir viðhorfum Sjálfstfl. til þeirra efnahagsforsendna sem fjárlagafrv. hvílir á og jafnframt sérstaklega gert grein fyrir því hvernig breytingar á tekjuáætlun eru fundnar. En að baki þeim breytingum stendur ekkert nema hugmyndaflug meiri hl. fjvn. Jafnframt hefur hann lýst því að frv. til lánsfjárlaga og fjárfestingaráætlun liggur ekki fyrir, en með því frv. er auðvitað verið að marka umfang ríkisumsvifanna ekki aðeins á næsta ári heldur um alla framtíð, því að auðvitað hljóta fjárlögin að taka mið af því hve mikil lán verða tekin á næstunni.

Þar á ofan kemur það í ljós — og kom fram í máli hans — að ef standa á við vegáætlun, eins og samið var um á milti þingflokkanna að gert yrði og samþykkt var í þál. á síðasta þingi, þá þarf að finna nýjar tekjur. Og það var ekki fyrr en seint í gærkveldi sem boð komu um það frá hæstv. samgrh. að leitast ætti við í samráði við stjórnarandstöðuna að finna slíkar tekjur til þess að hægt væri að standa við þál. sem samþykkt var einróma á hv. Alþingi. Þannig er einn liðurinn tekinn út úr og nú á að leita samráðs og samstarfs við stjórnarandstöðuna um hann. En það hefur ekki verið gert í öðrum málum þrátt fyrir þá vitneskju að hæstv. ríkisstj. hefur þegar tapað starfhæfum meiri hluta á Alþingi og hefur ekki afl atkvæða til að fylgja lagafrv. fram.

Við 2. umr. fjárlaga var talsvert deilt hér um verðlagsforsendur eða reiknitölu frv. Þar var sýnt rækilega fram á að reiknitalan sem notuð var í frv., 42%, er ekki í neinu samræmi við verðbólguspá. Ef taka á mark á reiknitölunni og jafna henni til verðbólguspár eða eðlilegra verðlagsforsendna þá gerir hún ráð fyrir því að verðbólga frá upphafi til loka næsta árs verði 20–25%. Á þessu þarf að vekja athygli, einkum og sér í lagi vegna þess að forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Ólafur Davíðsson, hefur á opinberum vettvangi látið hafa eftir sér að líkast til verði verðbólgan á bilinu 60-80% á næsta ári, mæld frá upphafi til loka árs í auknum framfærslukostnaði. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir á hvers konar grundvelli þessi fjárlagagerð stendur.

Ef vikið er frá ummælum Ólafs Davíðssonar, sem miðuðust við það að ekki yrðu gerðar sérstakar efnahagsráðstafanir til þess að færa verðbólguna niður umfram þær sem gerðar voru í ágúst í sumar má benda á plagg sem kallað er þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. lýsti í haust. Í þjóðhagsáætlun kemur fram að verðbólgan á næsta ári er áætluð mun hærri en 20–25%. Samkvæmt þjóðhagsáætluninni eða í samræmi við hana hefði reiknitalan þurft að vera 58% til þess að hún næði því að vera það sem kalla mætti verðlagsforsendur fyrir fjárlagagerð. Það er því hægt að segja þá sögu um þetta atriði, að hæstv. ríkisstj. tekur greinilega ekki mark á sjálfri sér, fylgir ekki fram þeirri stefnu sem kemur fram í þjóðhagsáætlun við gerð fjárlagafrv.

Auðvelt yrði að reikna það út að það vanti u.þ.b. 1 milljarð til þess að tekjur mæti gjöldum í þessu frv. ef frv. er fært upp á verðlag sem fengið er úr þjóðhagsáætluninni. En við gerum ráð fyrir að í stað reiknitölunnar 42% verði sett 58% kemur sem sagt í ljós að talsvert vantar á að fjárlögin standist. Auðvitað verður dæmið ekki gert upp með þeim hætti að halli verði á ríkissjóði um 1 milljarð á næsta ári. Þetta verður ugglaust leyst annaðhvort með hærri sköttum eða nýjum eyðslulánum eða niðurskurði.

Reyndar mátti ráða það af máli hæstv. fjmrh. að ætlunin er að láta reiknitöluna skera niður. Gerist það þá með þeim hætti að aðeins laun í frv. verða verðbætt. Aðrir liðir, önnur rekstrargjöld og stofnkostnaður, verða ekki verðbættir. Þannig gerist það enn á ný sem gerðist á s.l. ári og árið þar áður, að mikil tilfærsla verður á milli útgjaldaliða fjárlagafrv. Smám saman stefnir í það að þær tekjur sem ríkið aflar standa aðeins undir rekstri en engan veginn undir stofnkostnaði. Sú meginstefna ríkisstj. hvílir að miklu leyti á svokallaðri niðurtalningu, en það hugtak var fundið upp af Framsfl. fyrir síðustu kosningar.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. er það nákvæmlega rakið hvernig átti að ná verðbólgunni niður með því að setja fyrst hámark á hækkun m.a. gjaldskrár opinberra fyrirtækja og verðlags í landinu. Þessari stefnu var reynt að fylgja fram á s.l. ári, árið 1981, og framsóknarmenn, þ. á m. hæstv. viðskrh., hældu sér af því að einmitt á því ári hefði verið fylgt fram þeirri stefnu sem Framsfl. hefði barist hvað mest fyrir.

Á þessu ári kemur í ljós hver afleiðing þeirrar stefnu er. Flestöll opinber fyrirtæki eru rekin með bullandi halla. Hjá Áburðarverksmiðjunni vantar 80–100 millj. kr., sem verður að ná með lánum, Sementsverksmiðjan er stórskuldug, hjá Rafmagnsveitum ríkisins vantar 30–40 millj. kr. og veitustofnanir eins og Hitaveita Reykjavíkur eru nánast komnar undir hamarinn. Það er furðulegt að fyrirtæki sem gæti verið eitt besta fyrirtæki landsmanna, Hitaveita Reykjavíkur, líður önn fyrir það í ár að fylgt hefur verið óraunsærri niðurtalningarstefnu Framsfl. Fyrir vikið hefur það gerst að myndast hefur eins konar uppistöðulón verðbólgunnar, stundum kallaður uppsafnaður vandi, sem gerir það að verkum að á næsta ári er ráðgert að mörg opinber fyrirtæki þurfi gjaldskrárhækkanir langt umfram almennar verðlagshækkanir.

Þetta vildi ég sérstaklega taka fram því að af þessu sést glöggt hvernig ríkisafskipti af verðmyndun hafa leitt til þess að opinber fyrirtæki berjast nú í bökkum. Þetta er jafnframt ein besta sönnun þess, að sú stefna sem Framsfl. boðaði fyrir síðustu kosningar, niðurtalningarstefnan, stenst ekki raunveruleikann.

Herra forseti. Með tilvísun til ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárusar Jónssonar, tel ég ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um fjárlagafrv. hér við 3. umr. Það hefði þó vissulega verið ástæða til að ræða fremur um nýjar aðferðir og ný vinnubrögð við fjárlagagerð, en það verður látið bíða betri tíma. Jafnframt hefði þurft að leggja meiri áherslu á það hvernig fjárveitingavaldið hefur smám saman verið að færast til framkvæmdavaldsins frá Alþingi. Í því sambandi má benda á að aukafjárveitingar eru líklega þrisvar til fjórum sinnum hærri tala en fjárlagafrv. hækkar hverju sinni í meðförum Alþingis.

Slík vinnubrögð þarf auðvitað að endurskoða. Tel ég að það hljóti að vera eitt af brýnustu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar, sem tekur við á næsta ári, að athuga þessi vinnubrögð vandlega. Það er ekki hægt að ætlast til að hæstv. ríkisstj., sem hlýtur að hverfa af vettvangi innan tíðar, taki þetta í sínar hendur.

Aðalatriðið í minni ræðu var þó að undirstrika afleiðingar niðurtalningarstefnunnar, hvernig sú stefna hefur leikið opinber fyrirtæki, einkum og sér í lagi vegna rangra gjaldskrárákvarðana.

Að allra síðustu vil ég nota tækifærið til að þakka meðnm. mínum í hv. fjvn. fyrir ánægjulegt samstarf sem hefur verið mjög gott í vetur eins og fyrri ár. Vil ég sérstaklega færa formanninum þakkir fyrir frábæra verkstjórn. Það er ljóst að hv. þm. Geir Gunnarsson hefur stýrt þessu starfi nú sem endranær með þeim hætti að fáir fara þar í hans föt.