18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

1. mál, fjárlög 1983

Frsm. 2. minni bl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Við 2. umr. þess frv. sem hér er nú til lokaafgreiðslu gerði ég grein fyrir afstöðu Alþfl. til þess og forsendum sem þar liggja að baki. Ég skal ekki fara mikið út í frekari tölur þar um við þessa umr. Þó er sérstök ástæða til að ítreka að meginforsendur frv. eru vægast sagt hæpnar. Tel ég að í ljós eigi eftir að koma fljótlega á næsta ári hve mjög hæpnar þær eru.

Ég hef áður bent á það, og hefur það raunar komið fram víðar, að með fjárlagaafgreiðslu eins og hér er nú verið að leggja síðustu hönd á er meira og minna stefnt í að setja upp við hliðina á hinum eiginlegu fjárlögum ríkisins önnur fjárlög með alls konar aukafjárveitingum sem framkvæmdavaldið hefur að meira eða minna leyti alveg í sínum höndum.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því við síðustu umr. þessa frv. að það eru vægast sagt ólíkar forsendur sem gengið er út frá. Annars vegar er hin svokallaða reiknitala lögð til grundvallar hækkunum á ýmsum liðum. Hins vegar virðist afgreiðsla á ýmsum B-hluta fyrirtækjum ríkisins, t.d. Pósti og síma, Rafmagnsveitum ríkisins, Ríkisútvarpinu og Skipaútgerðinni grundvallast á verulega hærri forsendum en frv. sjálft gerir ráð fyrir. Þetta átti eftir að koma í ljós.

Ég ítreka það sem raunar hefur komið fram við þessa umr. af hálfu Alþfl., að hann telur brýnustu nauðsyn á því að breytt verði bæði um stefnu og vinnubrögð varðandi fjárlagagerðina. En það eru örfá atriði sem mér finnst ástæða til að víkja að örfáum orðum við lokaafgreiðslu þessa máls. Það hefur komið fram hjá meiri hlutanum sem að þessu frv. stendur að tekjuhækkunin sem á frv. verður er 230 millj. kr. Þykir ýmsum sem forsendur fyrir þeirri tekjuaukningu séu ærið hæpnar, að ekki sé meira sagt.

Fyrir röskum hálfum mánuði komu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar á fund fjvn. þar sem þeir gerðu eins og venjulega grein fyrir þeim spám sem fyrir liggja á þessum tíma. Kom það fram hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar að eftir að fyrstu sjö mánuðir ársins voru liðnir hefðu menn metið þær niðurstöður sem þá lágu fyrir. Forstöðumaðurinn upplýsti að ekkert hefði komið fram á þeim tíma sem þá var liðinn af árinu sem gæfi vísbendingu um að tekjuaukning yrði umfram hinar fyrri spár Þjóðhagsstofnunar. Ef eitthvað væri, þá benti ýmislegt frekar til þess að tekjur ríkisins minnkuðu en yxu ekki á næsta ári. Þannig var útlitið fyrir u.þ.b. hálfum mánuði. Eigi að síður er nú komin hér á borð hv. þm. tekjuspá meiri hlutans um þessa aukningu frá því sem frv. gerir ráð fyrir.

Það var spá Þjóðhagsstofnunar að fremur mundi síga niður á við á tekjuhliðinni en að um auknar tekjur yrði að ræða. Var þar m.a. bent á nýjustu spár Hafrannsóknarstofnunar um aflamagnið. Markaðshorfur væru einnig þrengri en gert hafði verið ráð fyrir og í heild tekið mætti frekar gera ráð fyrir að þetta færi allt niður á við. Það kom einnig fram að ef þær forsendur ættu að vera réttar sem hér er byggt á yrði ekki annað séð en að á næsta ári yrði um 7% rýrnum kaupmáttar að óbreyttu ástandi. Forsendur frv., sem byggt er á, þýddu um 7% kaupmáttarrýrnum á árinu 1983. Það er ekkert lítið.

Það er við þessar aðstæður sem hæstv. ríkisstj. leggur til að frv. til fjárlaga ársins 1983 verði samþykkt. Það upplýstist líka af hálfu Þjóðhagsstofnunar að spáð er að hækkun framfærsluvísitölu milli áranna 1982 og 1983 verði um 60%. Menn sjá þá, eins og ég hygg að menn séu yfirleitt búnir að koma auga á fyrir löngu, hversu óraunhæft er að vera með reiknitölu upp á 42% þegar augljóst er, eins og mál standa í dag, að hækkunin verður a.m.k. á bilinu 58–60%.

Ég vek enn athygli á því, að eigi þessar forsendur fjárlagafrv. hjá hæstv. ríkisstj. að standast, þá er hér verið að stefna inn í meiri kjaraskerðingu og kaupmáttarrýrnun en um getur um langt árabit. Það er ástæða til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh. eða hæstv. forsrh. hvað til eigi að koma til þess að forða því að slík kaupmáttarrýrnun og kjaraskerðing eigi sér stað. Frv. til fjárl. fyrir árið 1983 gerir ráð fyrir þessu.

Það er athyglisvert sem fram kom hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar, og hefur raunar komið fram víðar, en kannske frekar eftir því tekið þegar það kemur frá slíkri stofnun. Það var orðað svo af hálfu forsvarsmanna þeirrar stofnunar að augljóst væri að við hefðum haldið uppi útgjöldum og atvinnu með lánum. Það á enn að halda áfram á þeirri braut. Nú er svo komið að hér liggur fyrir till. frá hæstv. ríkisstj. í sambandi við heimildargrein fjárlaga um að þar verði tekið inn ákvæði í sambandi við lántökur sem ég held að ekki séu mörg fordæmi fyrir. Og engin vitneskja hefur enn fengist um innihald lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga sem hér átti í raun og veru að afgreiða samhliða fjárlögum.

Þessi nýjasta spá stjórnarliða um tekjuaukningu upp á 230 millj. hefði alveg eins getað orðið einhver allt önnur tala og hægt að fá hana á sama hátt og þá tölu sem hér hefur verið lögð til, því að hér eru engin sérstök vísindi á ferðinni eða forsenda sem gefur tilefni til að ætla að þessi tekjuaukning eigi sér stað. Á þessu ber hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluti ábyrgð hér á Alþingi. Það eru kannske illar gersakir að láta sér detta í hug að hæstv. ríkisstj. og stjórnarlið séu frjálslegri í þessum efnum nú, er þeir sjá fram á að þurfa ekki að bera ábyrgðina nema hluta þess árs sem í hönd fer, þ.e. umboð þeirra til stjórnar á landinu verði ekki framlengt að næstu kosningum afstöðunum.

Ég vil að síðustu, herra forseti, endurtaka og ítreka það, að Alþfl. telur að við uppbyggingu fjárlagaafgreiðslunnar, undirbúning hennar og framgang allan þurfi gerbreytt vinnubrögð. Það þurfi gerbreyttar forsendur, raunhæfar forsendur til að fara eftir og byggja á og hverfa frá því sem viðgengist hefur um áratuga skeið, að byggja fjárlagagerðina að meira eða minna leyti á röngum forsendum. Það hefur sýnt sig að það stefnir óðfluga í þá átt að fjárlögin sem slík verði ómarktækari en þau hafa verið. Þessi fjárlagagerð held ég að komi til . með að sýna að enn fer þar á verri veg, hér sé verið að afgreiða óraunhæfari fjárlög en áður hefur gerst hjá íslenska ríkinu.