18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

1. mál, fjárlög 1983

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það liggur nú orðið ljóst fyrir hvernig frá þessum fjárlögum verður gengið og það dylst engum að hér er um kreppufjárlög að ræða. Ég hygg að þau framlög sem eru til verklegra framkvæmda hafi aldrei verið jafnlítil og nú, ef miðað er við heildartekjur ríkissjóðs. Þessa sér auðvitað víða stað, enda er sannleikurinn sá, að á mörgum stöðum verður í rauninni varla um nokkrar opinberar framkvæmdir að ræða þrátt fyrir brýna þörf. Ég get tekið þar sérstaklega hafnarmálin út úr, en einnig á öðrum sviðum hefur hlutur ríkisins verið látinn liggja eftir.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs er m.a. sú, að á Akureyri hefur verið mjög alvarlegt ástand í byggingariðnaði. Í endaðan ágústmánuð skrifaði atvinnumálanefnd Akureyrar ríkisstjórninni bréf, hæstv. forsrh., og bað þar um fund með atvinnumálanefnd, þm. og ríkisstj. um hvort nokkur vegur væri til þess að aukin áhersla yrði lögð á opinberar framkvæmdir á Akureyri á næsta ári til að koma í veg fyrir mjög alvarlegt ástand í byggingariðnaði, en ég held að engum dyljist að til verulegs atvinnuleysis hlýtur að koma þar, eins og nú horfir, ef ekkert nýtt kemur til sögunnar. Þess hefur orðið vart að leitað hefur verið eftir byggingarmönnum frá Akureyri hingað til Reykjavíkur, þar sem opinberar framkvæmdir hafa verið verulegar, og þá gjarnan með þeim skilyrðum að viðkomandi menn ílengdust hér.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvað líði þessu erindi atvinnumálanefndar Akureyrar frá því í ágústmánuði s.l., hvort ríkisstj. hafi tekið þann sérstaka vanda, sem byggingariðnaðurinn á Akureyri er í, til meðferðar.

Ég vil í því sambandi minna á að hæstv. menntmrh. skrifaði hæstv. forsrh. bréf af þessu tilefni þegar hann hvarf til Bandaríkjanna til þess að vera þar viðstaddur „Scandinavia today“ og var alllengi í burtu. Hann fullvissaði okkur um það, bæði þm. kjördæmisins og fólk fyrir norðan, að brotthlaup sitt til Bandaríkjanna mundi engu breyta um það að ríkisstj. tæki þessi mál upp. Ég vil af þessu tilefni beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvort hugmyndin sé að taka málefni Akureyrar til sérstakrar athugunar t.d. í sambandi við lánsfjáráætlun.

Það liggur fyrir að ríkisstj. hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í sambandi við byggingarhraða sjúkrahússins þar, nema síður sé, og hið sama er að segja um byggingu verkmenntaskólans, sem mjög hefur dregist aftur úr, þó skammt sé liðið síðan hafist var handa um byggingu hans. Ef við lítum á framlög til grunnskóla kemur einnig í ljós að hlutur Akureyrar er fyrir borð borinn og vantar töluvert mikið á til þess að Akureyrarbær fái í sinn hlut einungis þær skuldir sem ríkissjóður er í varðandi þær framkvæmdir sem þegar hefur verið við lokið.

Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. kunni einhver svör að gefa um hvernig atvinnumálum Akureyringa hefur reitt af innan ríkisstj. og vil nota þetta tækifæri til þess að leiða í ljós hvaða hugmyndir ríkisstj. hefur um það. Ég efast ekki um að vilji hæstv. forsrh. standi til þess að bregðast vel við þessu erindi, og ég veit að hæstv. menntmrh. hefur knúið á það í ríkisstj. að bréfi hans verði fylgt eftir, og þar sem ég hef ekki frétt af neinum sérstökum ráðstöfunum sem eigi að gera af opinberri hálfu vil ég á þetta minnast nú.

Ég vil benda á að á því ári sem nú er að líða hafa opinberar framkvæmdir í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu verið svo miklar að segja má að iðnaðarmenn hafi lagt nótt við dag til að ljúka verkefnum sínum. Þess vegna er nauðsynlegt að reyna að stilla svo til á næsta ári að opinberum framkvæmdum á þessu svæði verði í hóf stillt, en á hinn bóginn verði þeim beint á þá staði sem hafa hæpnasta stöðu í atvinnulegu tilliti og þar sem mestu munar um atvinnuskapandi framkvæmdir.

Við 2. umr. þessa máls fluttum við nokkrir sjálfsfæðismenn brtt. varðandi húsnæðismálin. Gegn von minni var sú brtt. felld. Það hefur legið fyrir að allir stjórnmálaflokkar vilja í orði kveðnu koma til móts við húsbyggjendur. Öllum þm. er um það kunnugt að ungt fólk treystir sér ekki lengur til að ráðast í byggingu íbúða á hinum almenna markaði, miðað við þá knöppu fyrirgreiðslu sem því er veitt úr Byggingarsjóði ríkisins, en aðrir lánamöguleikar eru raunar engir fyrir utan lífeyrissjóðina, nema þá á verðtryggðum vöxtum og þá til svo skamms tíma að útilokað er að rísa undir þeim. Það segir nokkra sögu um verðtryggðu lánin að þau hafa nú á síðustu sjö mánuðum hækkað um 72%, hvorki meira né minna, og það er að sjálfsögðu algerlega ógjörningur fyrir venjulegt launafólk að ætla að koma þaki yfir höfuðið með slíkum lánakjörum, þegar lánin eru þar að auki ekki nema til tveggja, þriggja eða fjögurra ára.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lýst því yfir að hún vilji auka íbúðalánin á næsta ári. Hvergi sér þess þó stað í verki. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt mesta áherslu á hinn félagslega þátt íbúðabygginga, eins og það er kallað, sem hefur í raun orðið að forréttindum ákveðins hóps til þess að komast yfir íbúðarhúsnæði. Nú fer því víðs fjarri að hægt sé að standa við eftirspurn eftir slíkum íbúðum á næsta ári. Það má segja að það sé borðleggjandi að naumast verði hægt að fullnægja nema kannske helmingi eftirspurnarinnar.

Þetta verkar líka inn á byggingariðnaðinn, svo ég víki aftur að honum. Mikill samdráttur í opinberum framkvæmdum ásamt enn frekari samdrætti í byggingariðnaði hlýtur að valda mjög miklum erfiðleikum einmitt á sviði byggingariðnaðarins, eins og ég veit að hæstv. ríkisstj., sérstaklega hæstv. forsrh., hefur kynnt sér og fengið glöggar hugmyndir um. Auðvitað hefði þörfin á því að gera sérstakt átak í opinberum framkvæmdum fyrir norðan verið minni en ella ef komið hefði verið til móts við húsbyggjendur, þannig að þeir hefðu treyst sér til þess að fara í framkvæmdir á næsta ári, en því miður eru ekki horfur á því. Ég þekki það af gamalli reynslu og ég veit að hæstv. forsrh. meinar það þegar hann segir að hann vilji ekki haga stjórn landsins með þeim hætti að til atvinnuleysis komi. Ég virði vel þann vilja hans og er mjög þakklátur fyrir að hann skuli hafa þær skoðanir, sem ég er öldungis sammála, og skal ég þess vegna ekki fjölyrða meira um þennan þátt málsins, en það hvarflar ekki að mér annað en hæstv. ríkisstj. hafi, eins og ég sagði áðan, farið sérstaklega ofan í vandann á Akureyri, sem til hennar var beint og fékk góðar undirtektir þegar við einstaka ráðh. hefur verið talað.

Við sjálfstæðismenn kusum að láta á það reyna við 2. umr. hvort ríkisstj. hefði raunverulega vilja til þess að rétta hlut húsbyggjenda. Atkvæðagreiðslan þá sýndi að ríkisstj. hafði ekki þann vilja. Það er auðvitað alvarlegt þegar við höfum í huga að húsbyggjendur eru verr settir nú en þeir hafa áður verið að minnsta kosti í sögu lýðveldisins, ég skal ekki fara lengra aftur. Þá er þetta auðvitað kjaftshögg með blautum sjóvettling framan í það unga fólk sem nú er að reyna að koma sér áfram og skapa sér það öryggi sem aðrir þegnar hafa búið við, það fólk sem hefur eignast híbýli við lágum vöxtum á verðbólgutímum og verðbólgan hefur greitt lánin fyrir. Þetta er auðvitað þeim mun harðara fyrir þetta unga fólk þegar við höfum í huga að það hefur ekki beðist undan því að skila jafnverðmiklum peningum til baka. Það eina sem það fer fram á er að fá lán til það langs tíma að það sé einhver vegur að standa undir þeim. Það er sem sagt reiðubúið að greiða hús sín fullu verði, sem aðrar kynslóðir á undan því hafa ekki gert á síðustu áratugum.

Við þessa umr. nú, 3. umr. fjárlaga, ætlum við sjálfstæðismenn að láta á það reyna hvort vilji ríkisstj. standi til þess að leiðrétta það mikla misræmi sem er í orkumálum í landinu. Nú liggur það fyrir að húsnæðismálin verða að liggja eftir. Vegna þess treystum við okkur til þess að stíga stærra skref í orkumálum en ella mundi. Nú reynir á hver vilji ríkisstj. er til þess. Ég er með hér fyrir framan mig reikninga sem ég hef fengið senda úr mínu kjördæmi, frá mönnum sem mjög eru uggandi um sinn hag eftir jólasendinguna, síðustu raforkureikninga frá Rafmagnsveitum ríkisins. Það hefur fjöldi manns hringt í mig og segir mér að t.d. á Þórshöfn, þar sem þeir fengu rafmagnsreikningana fyrir skömmu, liggi það fyrir að þeim er gert að greiða í rafmagn, sem hafa rafmagnskyndingu, frá 7000 og upp í 13 000 kr. fyrir síðustu 70 daga sem reikningurinn nær til. Þetta er auðvitað gífurleg hækkun. Þriðjungurinn af þessu er — á þeim reikningum sem ég er með hér fyrir framan mig — til heimilisnota 3200 kr. og húshitunin er 6570 kr. Það er að vísu myndarlegt hús, en sama er þó um hin smærri hús sem við er miðað. Orkureikningarnir eru orðnir mjög tilfinnanlegir á þeim svæðum þar sem ekki er um hitaveitur að ræða og fer að verða að miklu byggðamáli.

Eins og sakir standa nú er atvinnuöryggi mest á orði. Menn gera sér grein fyrir að mjög hefur fjarað undan atvinnuvegunum og undirstöðuatvinnuvegirnir eru reknir með miklum halla, sem ég skal ekki rekja hér við 3. umr., en það gefst kannske tími til þess síðar í dag. Þessir reikningar eru það háir að venjulegur verkamaður getur naumast risið undir þeim. Ef þetta ástand helst er óhjákvæmilegt að það hefur í för með sér mjög alvarlega byggðaröskun. Nú skulum við sjá hvernig þetta hefur þróast á þessu ári.

Mönnum þótti nóg um hæð rafmagnsreikninganna fyrir ári, þegar við hittumst þá, en hvernig skyldi þróunin hafa orðið á þessu ári? Ef við tökum húshitunina, þá kostaði kílóvattstundin 33 aura í aprílmánuði. Í nóvember var hún komin upp í 48 aura og 10, þrátt fyrir þær ráðstafanir sem gerðar voru til þess að lækka húshitunarkostnað og ríkisstjórnin hefur svo mjög gumað af. Á þessu hálfa ári hefur húshitunarkostnaður þeirra sem hafa rafmagnskyndingu því hækkað um 45.8% frá því í apríl fram í nóvember. Það er á ári yfir 90%. Ef við tökum rafmagn til heimilisnota, þá var kílóvattstundin í aprílmánuði á 74 aura og 20. Í nóvember er hún komin upp í 140 aura og 30. Það er hækkun á þessu rúma hálfa ári um 89%. Á heilu ári yrði það eitthvað í kringum 178% eða nær tvöföldun. Þetta eru auðvitað gífurlega háar tölur. Það er alveg þýðingarlaust að bera þessa hækkun saman við þó fyrirtæki eins og Hitaveita Reykjavíkur hækki sín afnotagjöld um 100% á ári. Það munar ekki svo miklu af því að þau hafa legið eftir og eru óeðlilega lág, en bæði forsvarsmenn Hitaveitunnar og Reykvíkingar sjálfir gera sér grein fyrir að þetta getur ekki gengið til lengdar og það er óeðlilegt að slíkt fyrirtæki skuli safna erlendum lánum til að standa undir sínum rekstri.

Þar komum við inn á vísitölumálin og þann leik allan, þegar húshitunarkostnaðurinn er miðaður við Hitaveitu Reykjavíkur og þeim taxta er haldið niðri. Hins vegar vex húshitun úti á landi upp úr öllu valdi. Það er í rauninni verið að stela fé frá því fólki sem þar býr gegnum kaupgjaldsvísitöluna.

Nú hefur það komið víða fram, hjá einstökum ráðh. í stefnuræðum og víðar, að í rauninni vilji ráðherrarnir hæstv. minnka það misræmi sem er í orkusölunni. Við sjálfstæðismenn höfum tekið þann kostinn að leggja höfuðáhersluna á það nú við 3. umr. Ég efast ekki um að að minnsta kosti samflokksmenn okkar innan ríkisstjórnarinnar hafi skilning á því og vil vænta þess af mínum flokksbræðrum, sem nú sitja í ríkisstjórn, að þeir ljúki nú þessu ári með því að standa með okkur hinum um að leiðrétta misræmið í orkumálunum. Við höfum ekki beðið þá oft um mikið og mér fyndist nú ekki til of mikils mælst þó þeir gerðu þetta lítilræði fyrir okkur svona rétt fyrir jólin. Það mundi koma okkur mjög á óvart og satt að segja gleðja okkur mjög mikið, þannig að við mundum fyrirgefa mikið ef þeir gerðu þetta núna.

Ég verð að víkja nokkrum orðum að lokum að sveitarafvæðingunni, og þykir slæmt og sakna þess raunar að engir samþingsmenn mínir að norðan skuli vera við þessa umr. Það er náttúrlega rétt að sveitarafvæðingin hefur verið mjög dýr, og það hlýtur að vera mikið álitamál hversu hratt eigi að ganga í henni, því að vitaskuld er þar um óarðbæra fjárfestingu að ræða ef þannig er á það litið. Sveitarafvæðingin er ekki arðbær í sjálfu sér, heldur er þar um mannréttindi að tefla, um að skapa mönnum svipaðar aðstæður hvar sem þeir búa.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, að menn á þessum afskekktu stöðum sætti sig við að nokkur dráttur verði á því að þeir fái rafmagn frá samveitum, ef þeir fá að vita hvenær þeir megi vænta rafmagns og geti treyst því að við það verði staðið. Þeir hafa ekki verið heimtufrekari en svo. Nú hefur það á hinn bóginn komið í ljós, að stjórnvöld hafa verið afskaplega kærulaus í loforðum sínum varðandi sveitarafvæðinguna. Svo ég taki sérstaklega til umræðu Melrakkasléttu, en þar eru nokkrir bæir sem ekki hafa rafmagn frá samveitu, þá fengu þeir loforð um það frá hæstv. iðnrh. fyrir tveimur eða þremur árum að þessir bæir yrðu tengdir á næsta sumri. Síðan hafa þessi loforð komið á hverju ári. Ég fékk loforð um það frá hæstv. iðnrh. við 3. umr. fjárlaga fyrir tveim árum að við fyrirheit ríkisstj. yrði staðið ef nokkurt fé til viðbótar fengist til sveitarafvæðingar. Þetta fé hefur síðan fengist, þó það yrði á öðru ári, en ekki bólar á línunum fyrir norðan. Framkvæmdastofnun, sem var á þeim tíma með stuðningsmenn ríkisstj. í meiri hluta í stjórn, veitti lán til þess í vor að unnt yrði að ráðast í sveitarafvæðinguna og sendisveinar frá Framsfl. fóru þá norður og fullvissuðu menn á Sléttu um að rafmagnið mundi koma í sumar. Það má auðvitað segja að þeim framsóknarmönnum sé ekki láandi þó þeir haldi að ríkisstjórnin vilji standa við fyrirheit sín í raforkumálunum, en einhverra hluta vegna var nú þetta stöðvað í ríkisstjórninni samt. Rafmagnið, sem lofað var í vor, er ekki komið og eins og málum er háttað nú hafa þessir menn enga tryggingu fyrir því að það komi jafnvel á næsta ári. Þetta er svo alvarlegt mál að á einum bæ þar réðst ungur maður í miklar framkvæmdir, reisti íbúðarhús og undirbjó sig undir að koma upp nokkrum iðnaði af því hann trúði fyrstu loforðunum um rafvæðinguna. Síðan hafa árin liðið og rafmagnið kemur ekki. Húsið stendur autt.

Nú vil ég mjög beina því til hæstv. ríkisstj. að hún sýni í verki að hún vilji standa við þessi loforð, sem búið er að gefa um allt, um rafvæðinguna. Enginn knúði á ríkisstj. að gefa loforðin. Það voru einstakir ráðherrar sem gáfu loforðin sjálfir. Enginn knúði á þm. úr stjórnarliðinu að gefa loforðin. Þeir gáfu þau sjálfir. Og nú er komið að því að menn vilja að það sé staðið við þau. Auðvitað er ekki hægt að standa við þau héðan af því þau eru margsvikin, en það er þó að minnsta kosti hægt að sýna þann lit að standa við að þetta komi á næsta ári. Það er ekki svo mikið fé sem fer í aðrar framkvæmdir. Þær eru ekki svo rausnarlegar þessar fjárveitingar til strjálbýlisins að það sé ekki að minnsta kosti hægt að sýna lit þarna.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða sé til að orðlengja þetta frekar. Það er satt að segja eins og að skvetta vatni á gæs að biðja hæstv. ríkisstj. um að standa við sín loforð. En mér þótti rétt „prinsippsins“ vegna að minna á þetta og líka til að undirstrika þann leikaraskap sem var á bak við till. framsóknarmanna um sveitarafvæðinguna, sem lögð var fram fyrr á þessu þingi.