18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

1. mál, fjárlög 1983

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 4. þm. Vestf. sem hér komu fram við umr. að því er varðar sveitarafvæðinguna vil ég aðeins koma þeirri aths. á framfæri, að í þeirri brtt. sem liggur fyrir á þskj. 203 felast breytingar í sambandi við framkvæmdir við sveitarafvæðingu, sem eru í fullu samræmi við þá ákvörðun sem þm. Framsfl. hafa lýst yfir og raunar flutt þáltill. um hér í Sþ., um að þessu verkefni verði lokið á næstu tveimur árum. Á þskj. 203 er fjárveiting til sveitarafvæðingar hækkuð úr 4.5 millj. í 7.5 millj. og á sama þskj. er lántökuheimild hækkuð úr 7 millj. í 13 millj. Samkv. þeim upplýsingum sem við höfðum í fjvn. frá forstöðumanni Rafmagnsveitna ríkisins mun þessi fjárhæð samanlögð nægja til þess að ná því markmiði sem að er stefnt, að ljúka þessu verkefni á næstu tveimur árum. Það er eindreginn vilji fyrir því hér á hv. Alþingi að standa þannig að verki og ég vona að samstaða náist um að þetta nái fram að ganga.

Mér þótti rétt að láta þetta koma hér fram því að vera má að hv. þm. hafi ekki áttað sig á því, að þskj. 203 var prentað upp nú í dag vegna leiðréttinga sem þurfti á því að gera, og þá var einmitt kaflinn um lántöku vegna sveitarafvæðingar í þeirri uppprentun.

Ég tel ástæðu til að láta þetta koma hér fram til þess að fyrirbyggja misskilning. Ég vonast til þess að eðlileg samvinna verði áfram um að ná þessu markmiði því að vissulega er það til vansæmdar að til skuli vera fólk ennþá hér á landi sem ekki nýtur þeirra sjálfsögðu réttinda að eiga kost á rafmagni til sinna nota.

Af því að ég er kominn hér í ræðustól vil ég einnig geta þess vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. í sambandi við Námsgagnastofnun að fjvn. hefur fjallað mjög ítarlega um málefni stofnunarinnar. Við 2. umr. var tekin ákvörðun um að bæta þar nokkuð um, sérstaklega að því er varðaði einn þátt í starfsemi hennar, sem er mikilvægur fyrir skólastarfið í landinu, þ.e. þá nýjung sem er nú að ryðja sér til rúms, myndbandavæðingu. Var veitt myndarleg fjárhæð til að koma þessari starfsemi í gang.

Einnig gerði fjvn. nú við 3. umr. till. um að styrkja útgáfu sérkennslugagna, sem stofnunin hefur með höndum, eins og hér hefur verið minnst á.

Ég vil undirstrika það, að auðvitað er þörf á því að þessi stofnun fái meira fjármagn en hún þegar hefur. Hún hefur núna um 18.5 millj. kr. En ég vil líka vekja athygli á því, að þessi stofnun er í þróun og það er margt í hennar áætlun, sem er ekki sannfærandi, og margt í hennar áætlun, sem þarf að taka til frekari skoðunar, eins og gjarnan er um margar nýjar stofnanir, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna en þurfa að byggja sig upp á skynsamlegan hátt. Og ég vænti þess að einmitt sú fyrirgreiðsla sem fjvn. hefur lagt til nú verði til þess að eðlileg þróun í þessari stofnun geti haldið áfram.