18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

1. mál, fjárlög 1983

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala við þessa umr. um fjárlagafrv., en breytti þeirri ákvörðun þegar á borð okkar var dreift brtt. á þskj. 244 frá tveimur stjórnarsinnum úr tveimur stjórnarflokkanna og þremur sjálfstæðismönnum.

Hér er áferðinni brtt. um að ríkið taki á sig útgjöld sem nema jafnhárri upphæð og greiða á í bætur til láglaunafólks nú fyrir jólin. Og í hvaða skyni á ríkissjóður að taka á sig þessi útgjöld? Í því skyni að tryggja það, að áhugamenn um uppgröft „gullskipsins“ svokallaða sleppi skaðlausir frá þeirri framkvæmd sinni, ef ekkert skyldi finnast, og almenningur í landinu borgi kostnaðinn. Þetta er svo dæmalaus till. að ég efast stórlega um að hún sé þingleg eins og hún er fram flutt, enda er þetta í algeru ósamræmi við allar almennar reglur um ríkisábyrgðir, þegar gert er ráð fyrir því, eins og í till. segir, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast lán án þess að nokkur raunveruleg trygging komi á móti ábyrgðinni. Og ekki aðeins það, heldur er ríkisstj. heimilað að endurlána lán sem tekið yrði í þessum tilgangi. M.ö.o., að gerast ekki aðeins ábyrgðaraðill heldur milligönguaðili um fjármagnsútvegun í þessu skyni. Og þess er vandlega gætt í till. — sem þrír flokkar virðast standa að eða forustumenn úr þremur stjórnmálaflokkum — þess er vandlega gætt í till. að halda þannig á málinu, að íslenskir skattborgarar eigi ekki nokkurn möguleika á því að taka neina tryggingu hjá þeim ævintýramönnum sem þennan uppgröft stunda fyrir því að fá þetta fé aftur, ef illa tekst til.

Þessi brtt. á þskj. 244 er fádæmi. Ég hef ekki setið lengi á Alþingi, en þó lengur en margur annar. Ég hef á þeim ferli aldrei séð slíka till. við afgreiðslu fjárlaga eins og hér er færð upp. Menn skyldu huga að því í hvaða sambandi þetta er sett fram. Þarna er lagt til að skattborgarar ábyrgist fjárupphæð allt að 50 millj. kr. til einstaklinga til þess að grafa eftir gullskipi, sem grunur leikur á að sé grafið í sand í Suðurlandskjördæmi einhvers staðar, einhvers staðar á Skeiðarársandi. (Gripið fram í.) Ja, einhvers staðar á Skeiðarársandi alltjent. Þetta er sennilega ekki í Suðurlandskjördæmi, en það skiptir nú ekki meginmáli vegna þess að hag Suðurlands hefur heldur hrakað á síðustu mánuðum, eftir þá atburði sem hafa orðið í stjórnmálasögu okkar Ís lendinga. En það skiptir nú kannske ekki meginmáli.

Þess má geta, að talið er að ankerið af þessu skipi liggi einhvers staðar grafið undir brekkunum undan bænum í skaftafelli í Öræfum. Hvernig stendur á því, að ríkissjóður ábyrgist ekki fjárútvegun til manna sem hafa áhuga á að ná ankerinu upp líka? Okkur er það fullljóst, sem hér erum inni, að ýmis skip hafa sokkið við okkar strendur sem forvitnilegt væri að ná upp. Er ríkissjóður tilbúinn til þess að veita lánsábyrgðir til manna sem hafa áhuga á slíku?

Póstvagnar, póstlestir hafa horfið í jökul, póstpokar hafa horfið í jökul með merkilegum bréfum. Er ríkissjóður reiðubúinn til þess að veita ábyrgð fyrir því að menn fari að leita að póstpokum upp um jökla landsins, í þeirri von að þar kunni að finnast eitthvað af merkilegum bréflegum gerningum, og gegn hverjum tryggingum? Gegn tryggingum þá væntanlega í jöklum landsins, með sama hætti og eina tryggingin, sem gefin er í þessari till., er tryggingin í Skaftársandinum. Hugsið ykkur það, ef þetta verður nú með þeim hætti sem til er stofnað í þessari till., ef þarna finnast nú einhver verðmæti sem greiða kostnaðinn og kannske ríflega það af þeim framkvæmdum sem eiga sér stað. Þá hlotnast væntanlega þeim aðilum sem stunda þarna uppgröft a.m.k. hluti þeirra verðmæta sem upp úr sandinum koma.

Ef leitin ber engan árangur og ekkert finnst sem neitt verðmæti er í, þá verður gengið að íslenskum skattborgurum. Og hver er tryggingin samkv. brtt. þessari hver er tryggingin sem á að veita íslenskum skattborgurum fyrir því að fá eitthvað af fé sínu til baka? Það er í verðmæti hins bjargaða, þ.e. skipsins sem ekki fannst. Ef skipið finnst, þá segja menn að það sé líklegt að þeir sem uppgröftinn stundi þurfi ekki á aðstoð ríkisins að halda. En ef skipið finnst ekki, þá á að ganga í ríkissjóð. Og tryggingin er verðmæti skipsins sem ekki fannst.

Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi heyrt aðra eins dómadags vitleysu og þessa. Það sem á að vernda íslenska skattborgara, tryggingin sem á að veita þeim sem á að leggja þetta fé fram, ef ekkert finnst, er skipið sem ekki fannst. Af hverju tóku menn bara ekki veð í loftköstulum eða skýjaborgum? Er það ekki miklu sniðugra? Er ekki miklu betra að segja í tillgr.: gegn samningum um tryggingu í loftköstulum og skýjaborgum, eins og að segja að tryggingin fyrir því að þetta fé fáist einhvern tíma endurgreitt eigi að vera verðmæti hins bjargaða, sem ekki var bjargað. Hvað eru menn að gera hér? M.ö.o. í fyrsta lagi, ef vel gengur, ef skipið finnst og einhver verðmæti skyldu þar fyrir vera, þá áætla menn að það sé mjög líklegt að þau verðmæti nægi til þess að tryggja að áhugaaðilar um uppgröftinn sleppi skaðlausir frá og ekki verði gengið að ríkissjóði. En verði gengið að ríkissjóði og finnist ekki neitt, þá er tryggingin gagnvart ríkinu það sem ekki fannst.

Hvernig er þessi fjárþörf saman sett? Hvað er það sem er verið að leggja með einum eða öðrum hætti á herðar skattborgara? T.d. launakostnaður þeirra sem við þetta verk starfa. Það er gert ráð fyrir því í plöggum, sem okkur bárust í gær, að hver einasti maður, sem við þetta starfar og þiggur laun fyrir, fái 51 þús. kr. á mánuði, sé á ráðherralaunum eða jafnvel meira. Og það er gert ráð fyrir því að íslenska ríkið ábyrgist að þessi laun verði greidd, 51 þús. kr. á mánuði til þeirra manna sem við þetta vinna, ef ekkert finnst. Og það vill svo undarlega til, að það er gert ráð fyrir því að á þessum launakjörum starfi að jafnaði 10 manns við uppgröftinn, jafnmargir og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. M.ö.o., á meðan að þessu er unnið kostar það íslenska skattborgara jafnmikið að halda þessu úti eins og það kostar að halda ríkisstjórn landsins uppi. (Gripið fram í: Það eru jafnmargir og þm. Alþfl.) Nei, þeir eru nú ekki nema níu lengur, og þeir eru alls ekki á þeim launum sem gert er ráð fyrir að menn hafi við þennan uppgröft, hæstv. iðnrh. En þetta eru öllu færri og meira að segja miklu færri en starfa við bréfaskriftir á vegum hæstv. ráðh.

Hvaða framkvæmdir skyldi síðan eiga að vinna við þetta? Það er gert ráð fyrir 4 millj. kr. framkvæmd við vegagerð að þessum stað. Það er gert ráð fyrir því að reisa í kringum „fundarstaðinn“ — fundarstaðinn í gæsalöppum því að ekkert liggur fyrir um að neitt sé þar fundið — hafnarmannvirki sem eiga að kosta 19 millj. kr. Það er jafnmikil fjárhæð og varið er til hafnarframkvæmda á vegum ríkisins á næsta ári á öllum höfnum á Vestfjörðum. Þá peninga getur ríkissjóður lagt fram án nokkurra trygginga í öðru en loftköstulum til þess að reisa höfn uppi á þurru landi á Skaftárfjöru. Það er gert ráð fyrir að verja 5 millj. kr. til fyrirhleðslna til þess að árnar á sandinum renni nú ekki ofan í gryfjuna sem á að grafa með þessum hætti á kostnað ríkisins. Það er hærri upphæð, eftir því sem ég best veit, heldur en varið er til fyrirhleðslna á landinu öllu.

Herra forseti. Það er með slíkum eindæmum að svona till. skuli vera hér flutt, að ég stórefa að þinglega sé hér rétt að verki staðið. Sé ríkisábyrgð veitt í þessu sambandi, sem ég tel vissulega meira en vafasamt, tel ég ekki rétt að aðrar reglur gildi um þá ábyrgð en almennt eru látnar gilda gagnvart þeim aðilum sem ríkissjóður fær heimild til að ábyrgjast lán fyrir, þ.e. þeir verði að leggja fram tryggingar sem Ríkisábyrgðasjóður metur gildar samkv. þeim almennu reglum sem þar gilda.

Eftir að hafa hlustað hér fyrir einu ári á mílnalangt raus þm. Sjálfstfl. um að það væri bæði ólöglegt og ósiðlegt að afgreiða fjárlagafrv. frá Alþingi með lántökuheimildum af þessu tagi, í staðinn fyrir að stefna þeim á þann vettvang þar sem slík mál eiga heima, þ.e. á vettvang lánsfjárlaga, furða ég mig á því að þeir sömu þm. sem ástunduðu slíkt margra klukkutíma raus í fyrra skuli leyfa sér nú að flytja við afgreiðslu fjárlaga jafn dæmalausa lántökuheimildartillögu eins og hér er gert. Þetta er eitt dæmið enn um þann tvískinnungshátt sem ríkir í herbúðum þessa flokks. Einn daginn er haldið fram skynsamlegri skoðun, án þess að menn þurfi þá að standa ábyrgir fyrir henni, og hinn daginn, næsta dag á eftir, er síðan labbað með tillögur hingað upp í ræðustól á Alþingi um framkvæmd á stefnu sem er í algerri andstöðu við þann málflutning sem málsvarar flokksins hafa iðkað.

Nú veit ég ekki, herra forseti, hvort vera kann að hér í þingsölum séu ýmsir menn, sem ekki eru skráðir flm. þessarar brtt. en telja þó rétt að ábyrgjast lán til að greiða fyrir þessari björgun, þó þannig að fullar tryggingar séu settar, þó þannig að þeir sem fá ábyrgðarheimildina verði að leggja fram sömu tryggingar og aðrir mundu þurfa að gera í þeirra sporum. Það má vel vera að hér inni séu menn, sem vildu gjarnan geta greitt fyrir slíkri afgreiðslu en væru ekki reiðubúnir til þess að greiða fyrir því að samþykkt yrði sú dæmalausa till. sem flutt hefur verið á þskj. 244, um að eina tryggingin fyrir 50 millj. kr. ríkisábyrgð sé veð í sandi, sé veð í loftköstulum.

Ég mun, herra forseti, þó að stutt sé í það að greidd verði atkv., láta reyna á það meðal þm. hér hvort menn eru reiðubúnir til að standa þá að slíkri brtt., að ríkisstj. væri heimilað að greiða fyrir þeirri framkvæmd sem hér um ræðir, ef framkvæmd skal kalla, með því skilyrði að þeir aðilar sem ábyrgðarinnar eiga að njóta leggi fram tryggingar eftir sömu almennu reglum og almennt eru settar, þegar veittar eru ábyrgðir til þriðja aðila með heimildum í fjárlögum, eins og þessi afgreiðsla lýtur að.