18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

1. mál, fjárlög 1983

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það mál sem ég minnist hér á hefur engan veginn vægi á við heilt gullskip, en það að gullskipið hefur verið dregið til baka gefur mér óneitanlega ástæðu til aukinnar bjartsýni um að mitt litla mál upp á 10 þús. nái fram að ganga, úr því að ríkissjóður er firrtur ábyrgð upp á 50 millj. með því að gullskipið er vikið til hliðar. (Gripið fram í.)

Aðeins örfá orð, svo að ég hverfi að málinu, aðallega til að vekja athygli hv. þm. á till. á þskj. 239, sem ég hef flutt breytta frá þskj. 214. Sú till. sem hér liggur fyrir nú fjallar einfaldlega um það, að fimm landshlutasamtök kvenfélaganna fái hvert fyrir sig 2 000 kr. inn á fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1983. Ég hef þegar mælt fyrir þessu. Ég vil aðeins ítreka og leggja áherslu á aðalatriði málsins. Þetta er til komið vegna þess að á fjárlögum yfirstandandi árs var kippt út 1 000 kr., sem veitt var til þriggja landssambanda á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi. Ég hef breytt till. nú í það form að nú skal þetta ganga til alka fimm landssambandanna og um leið lækkaði ég upphæðina niður í 2 000 kr. Hér er af fullri hógværð farið í sakirnar. Ég vil ítreka líka það atriði, sem er annað aðalatriði þessa máls, að þessu var kippt út á s.l. ári undir því yfirskini að það ætti að auka framlög til Kvenfélagasambands Íslands, sem er landssamband, og það gæti síðan miðlað til landshlutasambandanna. Staðreyndin er hins vegar sú, að sú upphæð, 358 þús. kr., sem Kvenfélagasamband Íslands fór fram á, er skorin niður í 210 þús. Það er því algerlega fráleitt og út í bláinn að ímynda sér að landshlutasamböndin njóti nokkurs góðs af þeirri naumt skömmtuðu fjárveitingu.

Í þriðja lagi vil ég nefna enn eitt aðalatriði og það er það, að þetta er ekki hugsað sem fjárstyrkur eða starfsstyrkur til kvenfélaganna. Það er hugsað fyrst og fremst sem viðurkenning á því gagnmerka starfi sem þessi félög hafa frá upphafi unnið. Ég hygg að við getum verið sammála um að þau hafi lyft grettistökum í gegnum tíðina. Nægir að minna á Landsspítalann á sínum tíma, sem íslensk kvenfélög höfðu allt frumkvæði og atbeina um að reistur var.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess að þetta mál hljóti þann skilning í hugum þm. og verði afgreitt í þeim anda sem liggur á bak við þessa brtt. mína á þskj. 239.