18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

1. mál, fjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þessari umr. er að ljúka, og vildi ég áður en henni lýkur fara örfáum orðum um till. sem ríkisstj. flytur á þskj. 234. Þessar till. eru allar brtt. við 6. gr. frv. og varða heimildir á 6. gr.

1. Um er að ræða að veitt sé heimild til veitingar ríkisábyrgðar vegna erlendra vörukaupalána til raðsmíði fiskiskipa fyrir allt að 20% af smíðaverði hvers skips.

Ekki er þörf á að fara mörgum orðum um þetta mál. Það er í beinu framhaldi af heimildum sem þegar hafa verið veittar og varða svokallað raðsmíðaverkefni. Raðsmíðaverkefnið snýst um smiði þriggja fiskiskipa í þessum áfanga nú. Þessi smíði er talin afar mikilvæg til að rekstur þessara skipasmíðastöðva, sem hafa lítil verkefni nú um sinn, geti verið með eðlilegum hætti, auk þess sem hér er um að ræða hagkvæma staðlaða framleiðslu. Áður hefur verið gerð grein fyrir þessu máli, enda var veitt heimild til ríkisábyrgðar í lánsfjárlögum fyrir árið 1982. Hins vegar er óhjákvæmilegt, til að þessi smíði geti haldið áfram, að tryggja að erlend vörukaupalán fáist, en þau fást ekki nema veitt sé ríkisábyrgð sem nemur 20% af smíðaverði hvers skips. Ég þarf ekki að taka það fram, að að sjálfsögðu er gengið út frá því sem gefnu að ábyrgðir þessar falli ekki á ríkið. Vil ég taka það skýrt fram, að ef slíkt kæmi upp, að ábyrgðir þessar færu að falla á ríkið, þá mundi það að sjálfsögðu koma í veg fyrir að hægt yrði að veita þessa þjónustu í framtíðinni. Þessi þjónusta er á margan hátt eðlileg, að ríkið hjálpi til að halda slíkum verkefnum gangandi, en ef það leiðir til þess að þungar ábyrgðir lendi á Ríkisábyrgðasjóði er hér auðvitað um þess háttar upphæðir að ræða að mundi af sjálfu sér leiða til þess að áframhald þessa raðsmíðaverkefnis yrði í hættu og yrði lítið framhald þar á. Þetta vil ég taka skýrt fram vegna þess að ég vona og treysti því að til þess komi ekki.

2. Hér er um að ræða að veitt sé heimild til að ábyrgjast lán allt að 80 millj. sem tekið yrði af Áburðarverksmiðju ríkisins hjá Seðlabanka Íslands.

Áburðarverksmiðjan hefur staðið veikt að vígi oft og tíðum, en þó hefur verksmiðjan staðið undir sér lengst af. Seinustu tvö til þrjú árin hefur orðið taprekstur hjá verksmiðjunni og augljóslega þarf að snúa þeirri þróun við. Meðan það hefur hins vegar ekki tekist þarf auðvitað í þessu fyrirtæki eins og öllum öðrum að tryggja að fyrirtækið stöðvist ekki, það geti haldið framleiðslu sinni áfram og að því takist að snúa þróuninni við. Það verður að sjálfsögðu einungis gert með því að endurskipuleggja þær lausaskuldir sem hvíla á verksmiðjunni. Það er tilgangurinn með þessari lántöku. (Gripið fram í: Endurskipuleggja lausaskuldir?) Já, þá á maður við það að breyta lausaskuldum í lán til lengri tíma, í föst lán. Hér er að verulegu leyti um lausaskuldir að ræða. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að lausaskuldir hvíli á þessu fyrirtæki vegna þess að svo hefur verið í árslok um langt skeið. Nú hefur verið rætt um það milli landbrn. annars vegar og Seðlabanka Íslands hins vegar að hyggilegt væri að breyta þessum lausaskuldum að talsverðum hluta í fast lán til nokkurra ára. Frá þessu láni hefur enn ekki verið gengið og það hefur enn ekki verið ákveði til hve langs tíma þetta lán er tekið, en stefnt er að því að þetta verði a.m.k. þriggja ára lán. Þá þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir ríkisábyrgð á þessu láni áður en frá því er gengið. Það er af þessari ástæðu sem hér er leitað heimildar til veitingar ríkisábyrgðar.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég tel óhjákvæmilegt að afborgun af þessu láni verði fjármögnuð á næstu árum úr rekstri fyrirtækisins og að ekki sé að því stefnt að lánið falli á ríkissjóð. Það er mín skoðun, að svo verði að vera og það er á þeirri forsendu sem ég fellst á að ábyrgð þessi sé veitt. Vissulega kunna að vera skiptar skoðanir um hvernig á þessu skuli haldið í framtíðinni. Það verða kannske aðrir en ég sem eiga þar hlut að máli, að taka þá ákvörðun, en þetta er mín skoðun. Vissulega má velta því fyrir sér í sambandi við þetta fyrirtæki hvort eðlilegt sé að ríkið auki eignarhlut sinn í fyrirtækinu. Ríkið hefur neyðst til að auka eignarhlut sinn í járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, vegna þess að sú verksmiðja hefur verið rekin með tapi. Vissulega kemur það alltaf til álita þegar svona vandamál koma upp hvort auka þarf eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Ég vil sem sagt taka það sérstaklega fram að það er ekki verið að gera það með þessari ábyrgðarveitingu. Hér er verið að ganga frá lausaskuldum þannig, að um verði að ræða fast lán sem greitt verður af á næstu árum. Hina spurninguna, um það hvort ríkið eykur eigið fé sitt í fyrirtækinu, verður þá að taka til meðferðar og athugunar á síðara stigi þegar þessi mál hafa verið skoðuð nánar. Ég veit raunar að menn hafa fullan hug á að athuga þetta mál. Það kom m.a. fram í máli eins hv. þm., Egils Jónssonar, hér fyrr í dag. Hann vill að málefni Áburðarverksmiðjunnar séu tekin til vandlegrar athugunar, og ég get svo sannarlega tekið undir þau orð.

3. Um er að ræða að veitt sé sjálfskuldarábyrgð á láni sem Flugleiðir hf. taka. Um þetta lán gegnir að sjálfsögðu dálítið öðru máli en þau mál sem áður voru til umr. Hér er um að ræða bráðabirgðalán, sem verður síðan gert upp af ríkissjóði, ef í ljós kemur að sá áætlaði halli sem menn hyggja að verði á Norður-Atlantshafsflugleiðinni á yfirstandandi rekstrartímabil verður að veruleika. Hins vegar höfum við í þessu ákvæði fullan fyrirvara á því, að reynist ekki þessi rekstrarhalli verða, þá muni ríkið taka þeim mun minni þátt í greiðslum af þessu láni. Þetta er sem sagt lán til bráðabirgða, sem gert verður síðan upp af ríkinu með hliðsjón af afkomu félagsins og útkomunni á þessari flugleið að ári liðnu. Þannig hefur þetta verið gert á tveimur undanförnum árum og þannig er ætlunin að þetta verði nú aftur gert.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta Flugleiðamál, vegna þess að hér er um nákvæmlega sams konar sjálfskuldarábyrgð að ræða og veitt hefur verið tvívegis áður og öllum alþm. er kunnugt um. En ég vil láta þess getið, að vissulega ætlaðist félagið til þess að um yrði að ræða heldur hærri upphæð en hér er nefnd. En þessi upphæð er talin vera hin eðlilega, þegar tekið er tillit til þeirra tekna sem opinberir aðilar hafa af rekstri Norður-Atlantshafsflugsins. Það er fulltrúi fjmrn. í stjórn Flugleiða sem hefur reiknað út hvaða upphæð sé eðlileg í þessu sambandi. Það er 1.9 millj. Bandaríkjadala.

4. Þá vil ég nefna lántökuheimild sem hér er gerð till. um, þ.e. að heimild verði veitt til að taka erlent lán allt að 850 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Lánsfénu er ætlað að verja til fjármögnunar í samræmi við endurskoðaða lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 allt að 240 millj. kr., til nauðsynlegra greiðslna á árinu 1983 samkv. ákvæðum fjárlaga 1983 og til fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og/eða sveitarfélaga í samráði við fjvn. Það er ljóst af þessum texta að hér er um að ræða þrenns konar lántökur.

Í fyrsta lagi er um að ræða lántökur vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar fyrir árið 1982. Þessi till. er í fjárlagafrv. eins og það var lagt fram, en viðbótin sem hér kemur er sú, að bætt er við lántökum vegna fjárlaga 1983, og þá þeirra lánsfjármögnuðu framkvæmda sem þar eru á ferðinni og gerð er sérstök till. um á vegum meiri hl. fjvn. auk annarrar lántöku sem var í frv. þegar það var lagt fram. Í þriðja lagi er svo um að ræða hugsanlegar lántökur fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og/eða sveitarfélaga. Þar er að sjálfsögðu um að ræða fyrirtæki sem fyrst og fremst fá heimildir til lántöku í væntanlegri lánsfjáráætlun.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að engum dettur í hug að þessi lántökuheimild komi í staðinn fyrir lánsfjáráætlun. Það er mesti misskilningur ef menn ímynda sér að þessi lántaka komi í staðinn fyrir lánsfjáráætlun. Það gerir hún að sjálfsögðu ekki. Á s.l. ári voru í lánsfjáráætlun miklu hærri fjárhæðir en hér er verið að ræða um. Hér er einungis um að ræða heimild til bráðabirgðafyrirgreiðslu, ef sérstök nauðsyn kallar á, áður en lánsfjáráætlun er formlega afgreidd. Og þá ber að gera það í samráði við fjvn. Ég hef ekki trú á því að það reyni mikið á þessa heimild, en þó má vel vera að áður en lánsfjáráætlun verður afgreidd geti komið upp einhver þau mál sem séu þess eðlis, að þörf sé á að þessari heimild sé beitt.

Ég tek eftir því að í ræðum stjórnarandstæðinga er því haldið fram, að fjárlagafrv. sé ekki réttur vettvangur til að veita heimildir af þessu tagi og að það verði að afgreiða hér sérstök lög með formlegum hætti til að um sé að ræða fullgildar heimildir. Þó er mismunandi hvernig menn hafa tekið til orða. Sumir ræðumanna hafa að vísu viðurkennt að hægt væri að veita slíkar heimildir í fjárlagafrv., en hafa sérstaklega tekið fram að það væri þá ekki hægt að veita heimildir vegna erlendra lána. Þetta eru kenningar sem oft hafa heyrst, en virðist lítið hafa verið farið eftir. A.m.k. er ljóst af fjárlögum, svo langt aftur sem ég hef flett, að lántökuheimildir hafa tíðkast í stórum stíl, bæði um erlend og innlend lán. Að vísu má segja að innlendu lánin séu algengari í þessu sambandi, að þau séu inni í fjárlagafrv., en allmörg dæmi virðast vera um erlendar lántökur. Mætti nefna dæmi frá árinu 1979 — af því ég hef það nú hérna fyrir framan mig — um erlend lán sem tekin voru með heimild úr fjárlögum vegna varamanna sendiherra í sendiráðum Íslands. Og árið 1977 er samsvarandi ákvæði.

Stundum hefur beinlínis verið tekið fram að um erlent lán væri að ræða, og jafnvel hefur verið tekið fram að um væri að ræða einhverja ákveðna mynt. Ég gæti t.d. nefnt eitt stórlán sem er í fjárlögum frá árinu 1974. Þar segir að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast, gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, lán Loftleiða hf. erlendis að fjárhæð allt að 2 millj. Bandaríkjadollara. Í sömu fjárlögum segir að ríkisstj. sé heimilt að taka innlent og erlent lán að jafnvirði allt að 300 millj. kr. til framkvæmda við þangþurrkstöð á Reykhólum ef niðurstöður rannsókna sýna að fyrirtækið muni reynast hagkvæmt.

Ég hef nefnt þessi dæmi af handahófi. Ég sé hérna t.d. að 1973 er tekið fram að fjmrh. sé heimilt að taka lán að jafnvirði allt að 90 millj. Lúxemborgarfranka vegna framkvæmda í samgöngumálum á Austfjörðum og Norðurlandi. Svona gæti ég að sjálfsögðu haldið lengi áfram að lesa.

Ég vil láta þess getið að ég lét ljósrita upp úr fjárlögum fyrir árin 1972–1979 um hvaða lánsfjárheimildir hefði verið að ræða af þessu tagi, bæði erlend og innlend lán og ábyrgðarveitingar. Ég lét ljósrita þetta í tuttugu eintökum og hef látið ýmsa þm. hafa þessa lista og er enn aflögufær um allmörg eintök ef einhver vildi skoða þá lista frekar. Eins gætu þingfréttamenn fengið aðgang að þeim.

Ég held að ekki sé ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Það er að vísu rétt að sú kenning var uppi að lántökuheimildir væru ekki fullgildar ef þær væru í fjárlögum. En það er augljóst mál að Alþingi hefur ekki hikað við um mjög langt skeið, sennilega áratugaskeið, að hafa í fjárlögum lántökuheimildir. Síðan geta menn velt fyrir sér þeirri fræðilegu spurningu hvort þetta hafi verið rétt og hvort þetta hafi verið fullgilt. En ég hygg að þegar slíkur framkvæmdamáti hefur tíðkast svo lengi sem raun ber vitni, þá verði að telja að um venjuhelgaða framkvæmd mála sé að ræða. Og auðvitað skiptir þá mestu máli hvort lánveitendur — sem að sjálfsögðu eiga sér lögfræðilega ráðunauta hér innanlands þegar lán eru tekin — gefa þá umsögn að um sé að ræða ófullnægjandi heimildir. Á það reynir þá að sjálfsögðu í hverju tilviki og það er þá þeirra mál hvort þeir tel ja að um fullgildar heimildir sé að ræða.

5. Hér er um að ræða að veitt er heimild til að tekið sé lán allt að 10 millj. kr. vegna flugstöðvar í Keflavík. Ég vil taka skýrt fram að hér er um að ræða framlengingu á heimild sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 1982. Þar var heimildarákvæði sem var nákvæmlega eins orðað og það heimildarákvæði sem hér er gerð till. um. og við leggjum til að þetta heimildarákvæði verði framlengt. Að sjálfsögðu fylgja því allir sömu fyrirvarar eins og fylgdu þegar þetta ákvæði var sett í fjárlög fyrir árið 1982. Nægir þar að vísa í athugasemd sem fylgdi grg. frv., þar sem um þetta mál er fjallað og gerð grein fyrir stöðu þess.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þessar till. eða um fjárlagafrv. að öðru leyti. Ég hef reynt að varast að fjalla hér um málflutning stjórnarandstöðunnar almennt. Ég hef einungis fjallað hér um þær till. sem ríkisstj. flytur. Ég hef verið að mæla fyrir þeim. Ég held að það sé lítill áhugi á því hér og nú að framlengja þessar umr. og því ætla ég að leiða hjá mér það sem fram hefur komið í málflutningi stjórnarandstæðinga, því að áreiðanlega verður nægur tími til að fjalla almennt um stöðu efnahagsmála og fjármála síðar hér í þinginu. Ég vil að endingu þakka hv. fjvn. fyrir ágæt störf.