18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

1. mál, fjárlög 1983

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. beindi til mín fsp. út af atvinnumálum á Akureyri sem ég skal svara hér með. Það var í júlímánuði, nánar tiltekið 14. júlí s.l., sem atvinnumálanefnd Akureyrar kom til fundar. Þar mættu fulltrúar frá Meistarafélagi byggingarmanna til að gera grein fyrir útliti og framtíðarhorfum í byggingariðnaði á Akureyri. Þeir töldu að verulegt atvinnuleysi væri yfirvofandi með haustdögum og ekki fyrirsjáanleg atvinna nema fyrir u.þ.b. þriðjung byggingarmanna þegar yfirstandandi verkefnum lyki í haust. Nefndin fól svo formanni að gangast fyrir fundi með þm. kjördæmisins, fulltrúum Akureyrarbæjar og fulltrúum byggingarmanna um þetta mál. Þetta var 14. júlí.

Þetta mál kom svo til ríkisstj. skömmu síðar. Á fundi hennar 1. ágúst var þessi fundargerð kynnt og rætt ítarlega um atvinnuhorfur á Akureyri og ákveðið að fylgjast með því sem fram yndi í þeim efnum.

Nú er það kunnugt að á Akureyri hefur um margra ára skeið verið nokkur atvinnuskortur tímabundinn, einkum að vetrarlagi, ekki síst vegna þess að að sumarlagi hefur verið mikil byggingarvinna en dregist saman einkum af veðurfarsástæðum að vetrinum. Upplýsingar hef ég fengið frá forstöðumanni vinnumáladeildar félmrn., Óskari Hallgrímssyni, sem fylgist manna best með atvinnuástandi um landið. Þær upplýsingar eru á þá leið að atvinnuleysi hafi verið miklu minna í nóvember en spáð hafði verið síðla sumars og í haust og að atvinnuástand almennt á Akureyri sé talið betra nú á þessum fyrstu mánuðum vetrarins en það var á sama tíma í fyrra. M.a. hafi verið meira um opinberar framkvæmdir og meira unnið við byggingu verkamannabústaða en ætlað hafði verið.

Ég vil taka það fram að ríkisstj. er að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna við bæjarstjórn og atvinnumálanefnd Akureyrar hvenær sem er um ráðstafanir sem nauðsynlegar kynnu að vera til þess að draga úr atvinnuleysi. En hún hefur, síðan þessi fundargerð atvinnumálanefndar barst, fylgst með málum og sem betur fer hefur ræst betur úr en á horfðist, þó að sjálfsögðu sé nauðsynlegt að fylgjast vandlega með þar. Og auðvitað mun atvinnumálanefndin og bæjarstjórn Akureyrar og bæjaryfirvöld hafa þar vakandi auga á og hafa samband við ríkisstj. eftir því sem þörf gerist.