18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

1. mál, fjárlög 1983

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka forsrh. hans svör. Það voru ekki neinar nýjar fréttir fyrir mér að atvinnuástandið í nóvember væri jafnslæmt og í fyrra, sem kemur af þeirri einföldu ástæðu að vetur gekk mjög snemma í garð á síðastliðnu ári og torveldaði mjög byggingarframkvæmdir. Það er vissulega rétt, að menn óttuðust mjög í haust að svo kynni að fara aftur nú. Hins vegar er hættan við atvinnuástandið fyrir norðan fólgin í því, að á þessum síðustu mánuðum hafði verið of mikið unnið fyrir lánsfé, það verði of lítið fé til ráðstöfunar á þessu ári. Sannleikurinn er sá, að margar af þeim framkvæmdum sem unnið var við síðustu vikurnar hafa verið fjármagnaðar fyrir lánsfé, eins og t.d. verkamannabústaðirnir. Spurningin er sú, hvert framhaldið verður, hvort þetta eigi ekki eftir að hefna sin á þessu ári. Þess vegna er útlitið í byggingariðnaðinum fyrir norðan og atvinnuástandið mun alvarlegra en það hefur verið á síðustu árum. Það sést greinilega, ef skoðaðar eru byggingarskýrslur um þær framkvæmdir sem nú eru í gangi, verið er að vinna að, á hverju menn geti átt von.

Ég veit ekki hvað maður á að segja meira um þetta. Ef maður lítur á heildarfjárveitingar ríkisins til framkvæmda þar gera þær svona rétt að hrökkva fyrir skuldum. Ef maður tekur grunnskólana sérstaklega er þar um mjög verulegar skuldir ríkissjóðs að ræða, ég tala ekki um íþróttahúsið, en það er rétt að það fékkst nokkur leiðrétting á fjárlögum varðandi íþróttahúsið og sjúkrahúsið í heimildargrein vegna þrýstings frá þm. kjördæmisins. — Fyrst og fremst gengu þeir þar fram fyrir skjöldu eins og þeim er kannske ekki þakkandi. Það er þeirra verk að passa upp á sakirnar. Á hinn bóginn hefur mér þótt skorta á að ríkisstjórnin sýndi frumkvæði í þessu máli miðað við þær undirtektir sem Akureyringar fengu í sumar og haust. Ég er aftur á móti þakklátur fyrir það ef hæstv. ríkisstj. ætlar að reyna að fylgjast með málinu og leyfi ég mér að taka ummæli hæstv. forsrh. á þann veg að hann muni a.m.k. vilja stuðla að því að greiða fyrir ef illa fer á atvinnumarkaðnum. Ég veit að það yrði honum sérstök ánægja að liðka til fyrir okkur ef við mundum leita til hans.