26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég get látið efnislega útrætt um þetta mál. Hins vegar kann ég illa við að menn geri mér upp orð og þarf því að gera tvær leiðréttingar á fullyrðingum hv. 5. þm. Vestf.

Hann fullyrti, að ef þessi þáltill. kæmi til framkvæmda, sem er um athugun á móguleikum íslenskra fiskiskipa til veiða í erlendri fiskveiðilandhelgi, þá hefði ég fullyrt að þau skip sem þannig fengju ný verkefni væru vestfirsk skip. Ég vil taka það skýrt fram, að þetta eru hans orð en ekki mín. Ég sagði ekkert slíkt. Mér er fullkunnugt um að fiskvinnslufyrirtæki og útgerðarfyrirtæki á Vestfjörðum eru mörg hver rekin þannig að til fyrirmyndar er. Ég var að ræða um vanda þeirra skipa sem í öllum opinberum gögnum eru lýst því sem næst gjaldþrota og tvöfaldur afli gæti ekki forðað undan hamrinum. Þau skip er ekki öll að finna á Vestfjörðum, sem betur fer. Þau er viða að finna.

Þau orð, sem ég lét falla um erlent vinnuafl á Vestfjörðum, staðfesta það auðvitað, sem alþjóð er kunnugt, að þegar mikill afli berst á land er hann meiri en svo að fólk fái við ráðið að vinna með eðlilegum hætti og eðlilegum vinnutíma, enda er það alkunna að vinnuþrældómur var með ólíkindum, þó eitthvað hafi dregið úr því í seinni tíð.

Önnur fullyrðing þm, sem hann eignaði mér, var sú, að ef togurum yrði fækkað væri ég að mæla með auknu vinnuálagi sjómanna. Hann virtist gefa í skyn, að fjölgun togara við veiðar á sama eða minnkandi aflamagni væri sjómönnum í hag. Bæði er að ég sagði ekkert slíkt og hitt, að þetta eru auðvitað hinar mestu fjarstæður. Það er fjarstæða að kjör sjómanna, sem ráðnir eru upp á hlut, hafi batnað við að fjölga skipum til að veiða minnkandi afla. Það er auðvitað bein kjaraskerðing, enda hafa sjómenn mátt af þessum sökum þola mjög alvarlega kjaraskerðingu. Strit þeirra er samt óbreytt.

Ef um það er að ræða, að menn taki alvarlega hugmyndirnar um jöfnun afla og vinnslu, eins og margir stjórnarliðar hafa tekið undir, þá kann vel að vera að í því felist að það megi fjölga mönnum um borð, ef það leiðir til bættrar aflameðferðar, aukinna gæða og hærra verðs fyrir afurðina.

Þetta gefur tilefni til þess að lokum að taka undir þá athugasemd hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að endurreisn Reykholtsstaðar bíði enn.